Orrustan við Liège

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Orrustan við Liège
Hluti af fyrri heimsstyrjöldinni

Belgískir hermenn í varnarlínu, við orrustuna um Liège 1914.
Dagsetning5.–16. ágúst 1914
Staðsetning
Niðurstaða Sjá undirkafla um eftirmála
Breyting á
yfirráðasvæði
Þjóðverjar hertaka Liège
Stríðsaðilar
Þýskaland Þýska keisaradæmið Belgía Belgía
Leiðtogar
Þýskaland Otto von Emmich
Þýskaland Erich Ludendorff
Belgía Gérard Leman
(tekinn til fanga)
Fjöldi hermanna
28.900–31.200 hermenn
140 byssur[1]
32.000 hermenn
280 byssur.[2][3]
Mannfall og tjón
3.300 (þann 8. ágúst)[4] 6.000–20.000
þ. á m. 4.000 teknir höndum

Orrustan við Liège var upphafsorrusta fyrri heimsstyrjaldarinnar, þegar Þjóðverjar réðust inn í Belgíu. Árásin á borgina hófst þann 5. ágúst 1914 og orrustunni lauk 16. ágúst með sigri Þjóðverja. Erich Ludendorff hershöfðingi leiddi Þjóðverja til sigurs í orrustunni. Þrátt fyrir ósigur Belga tókst þeim að tefja sókn Þjóðverja til muna, en þeir stefndu áfram í gegnum Belgíu og til Frakklands.

Aðdragandinn[breyta | breyta frumkóða]

Árás Þjóðverja á Belgíu var hluti af Schlieffen-áætluninni sem gerði ráð fyrir því að þeir sæktu fram til Frakklands í gegnum Belgíu.[5] Liège var virkisvarin borg og fyrsta fyrirstaðan í þessari áætlun. Helmuth von Moltke yngri, sem var yfirmaður þýska hersins þegar stríðið hófst, hafði gert ráð fyrir því að til þess að komast yfir Meuse-fljótið og halda áfram í gegnum Belgíu, þyrfti að hertaka Liège nær samstundis og innrásin hófst.[6]

Orrustan[breyta | breyta frumkóða]

Tvær 420-mm „Stór Berthastórskotabyssur voru notaðar til þess að jafna belgísku virkin í kringum Liège við jörðu.

Áður en að orrustan hófst var Liège umkringd af 12 steinsteyptum virkjum sem stóðu í kringum hana, og mörg þeirra höfðu allt að 8-9 skotturna fyrir stórskotabyssur. Til þess að koma í veg fyrir að stórskotabyssur óvinarins kæmust í færi, þurfti að viðhalda ytri varnarlínu hermanna fyrir utan virkin. Ein herdeild var staðsett í Liège til þess að verja borgina, og manna og sjá um virkin, en hún taldi um 24 þúsund manns. Gérard Leman hershöfðingi var liðsforingi belgíska varnarliðsins.

Herdeildir úr þýska Fyrsta hernum annars vegar, og Öðrum hernum hins vegar, höfðu marsérað yfir landamærin 4. ágúst, og orrustan hófst daginn eftir. Þjóðverjar náðu borginni nær strax á sitt vald, en þrátt fyrir það stóðu virkin 12 ennþá heil fyrir utan borgina. Þjóðverjar urðu fyrir miklu mannfalli þegar fylkingar þeirra reyndu að komast í gegnum glufurnar á milli virkjanna og inn í borgina,[7] en þann 8. ágúst lágu yfir 5 þúsund Þjóðverjar í valnum.[8] Andspænis mannfallinu tókst 14. hersveit Erich Ludendorff (en hann hafði tekið við stjórninni eftir að fyrrverandi hershöfðingi sveitarinnar hafði særst í átökunum) að ráðast inn í borgarviki Liège, sem nefnist Citadelle de Liège, þann 7. ágúst. Það neyddi ytra varnarlið Leman til þess að hörfa aftur inn í borgina. Þetta gerði Þjóðverjum kleift að koma stórskotaliði sínu í færi daginn eftir, þann 8. ágúst, og láta sprengjum rigna yfir virkin fyrir utan borgina.[9]

Í fyrstu studdust Þjóðverjar við 210-mm stórskotabyssur, en þurftu að bæta við þyngri og þyngri byssum til þess að brjóta belgísku virkin á bak og aftur. Það kom svo að því, þann 12. ágúst, að þeir komu fyrir tveimur af hinum gríðarstóru 420-mm „Stóra Bertha" stórskotabyssum í skotlínunni, en þessar öflugu byssur fóru létt með að granda steinsteyptu virkjunum. Það fór svo, að eitt í einu fóru varðlið virkjanna að gefast upp, en nokkur þeirra voru hreinlega jöfnuð við jörðu. Ekki bættu slæmar loftræstingar í virkjunum úr skák. Þær gerðu Belgum erfitt fyrir og margir hermenn köfnuðu næstum því vegna þrýstingsins undir sprengjuregninu, og eiturgufanna úr sprengikúlunum. Áður en síðasta virkið gafst upp 16. ágúst og orrustunni lauk formlega, voru þýskar herdeildir þegar farnar að marséra í gegnum borgina með hraði til þess að halda í við Schlieffen-áætlunina.[10] Á endanum hafði mannfall Belga orðið umtalsvert, en um 20 þúsund lágu í valnum.[11]

Eitt af virkjunum við Liège nú á dögum.

Eftirmáli[breyta | breyta frumkóða]

Hershöfðinginn og liðsforingi belgíska varnarliðsins, Gérard Leman, hafði neitað að gefast upp og haldið sig í einu virkinu í þeirri viðleitni að berjast til síðasta manns. Þegar að orrustunni var lokið hafði hann hins vegar rotast í sprengjuregninu, og Þjóðverjar komu að honum meðvitundarlausum í rústunum og tóku hann til fanga. Hann var stríðsfangi þar til stríðinu lauk.[12]

Þrátt fyrir ósigurinn og mannfallið hafði Belgum tekist að tefja sókn Þjóðverja í gegnum Belgíu og áfram til Frakklands svo um munaði, eða í um 2-4 daga. Þessi töf var mikilvæg og hafði veigamiklar afleiðingar fyrir stríðið. Markmið Þjóðverja var samkvæmt Schlieffen-áætluninni að komast áfram í gegnum Belgíu sem fyrst, svo að þeir gætu nýtt sér það í hag að hafa komið Frökkum í opna skjöldu með óvæntu innrásinni í Belgíu, en mest allur her Frakka var staddur í Alsace-Lorraine við landamæri Þýskalands. Áætlun Þjóðverja gekk einnig út á það að ná að ljúka stríðinu á Vesturvígstöðvunum fyrir veturinn, áður en Rússar bættust við á austanverðum landamærum Þýskalands, og Þjóðverjar þyrftu þá að berjast á tveimur vígstöðvum.[13]

Rússar réðust inn í Prússland stuttu eftir orrustuna við Liège og opnuðu austurvígstöðvar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Erich Ludendorff var síðan færður yfir á austurvígstöðvarnar til þess að taka þátt í orrustunni við Tannenberg.

Eftir orrustuna við Liège þótti Ludendorff hafa sýnt einstaka forystu og hugrekki. Hann var sæmdur persónulega prússnesku heiðursorðunni „Pour le Mérite“ af Vilhjálmi 2. Þýskalandskeisara, en hún var mikilsverðasta og virtasta heiðursviðurkenningin sem veitt var af Prússakonungi.[14]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Zuber 2010, bls. 18–19, 41–42, 44, 83.
 2. Zuber 2010, bls. 74, 84.
 3. „Page moved“. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. ágúst 2023. Sótt 19. ágúst 2023.
 4. Zuber 2010, bls. 86.
 5. Willmott, 2012, bls. 31.
 6. Stevenson, 2005, bls. 51.
 7. Stevenson, 2005, bls. 51; Willmott, 2012, bls. 41.
 8. Herwig 2009, bls. 112 og 117.
 9. Stevenson, 2005, bls. 51; Willmott, 2012, bls. 41.
 10. Stevenson, 2005, bls. 51; Willmott, 2012, bls. 41.
 11. Herwig 2009, bls. 112 og 117.
 12. „Encyclopædia Britannica (12. útgáfa, 1922)“. Sótt 25. apríl 2015.
 13. Willmott, 2012, bls. 31 og 41.
 14. Pour le Mérite. Sótt 25. apríl 2015.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Herwig, H (2009). The Marne, 1914: The Opening of World War I and the Battle that Changed the World. New York: Random House.
 • Stevenson, David (2005). 1914-1918: The History of the First World War. London: Penguin Books.
 • Willmott, H. P (2012). World War I (2. útgáfa). London: Dorling Kindersley.
 • Zuber, T. (2010). The Mons Myth: A Reassessment of the Battle. Stroud: The History Press. ISBN 978-0-7524-5247-0.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]