Oberbaumbrücke
Oberbaumbrücke er án efa fegursta brúin í Berlín. Hún spannar ána Spree og tengir þar með borgarhverfin Kreuzberg og Friedrichshain. Á tímum kalda stríðsins var brúin hluti af járntjaldinu.
Heitið
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu tvær brýrnar yfir Spree á þessum stað voru úr viði. Þeim var lokað með slá á nóttinni, þar sem brúin var tollabrú. Þessi slá kallaðist Baum (tré) og af því er nafnið dregið. Neðar í ánni var því Unterbaumbrücke en fyrirrennari núverandi brúar hét Oberbaumbrücke. Þegar brýrnar voru fjarlægðar og núverandi brú smíðuð, fékk hún gamla heitið Oberbaumbrücke.
Saga Oberbaumbrücke
[breyta | breyta frumkóða]Byggingarsaga
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirrennari brúarinnar var úr viði og var smíðuð 1723. Hún var með viðarloku sem hægt var að opna, þannig að bátar komust í gegn. 1893 voru uppi áætlanir um að smíða nýja brú, sem bæri allt í senn hestvagna, gangandi umferð og lestir. Framkvæmdir hófust 1894. Brúin varð 150 metra löng og var haldið uppi af sjö steinbogum. Sá víðasti er 22 metrar. Við hliðina á akbrautinni eru súlnagöng fyrir fótgangandi vegfarendur, en þar fyrir ofan eru svo lestarteinarnir. Fyrir miðju eru tveir 34 metra háir turnar. Brúin öll er gerð úr rauðum tígulsteini, sem gefur henni afar sérstakt útlit. Smíðinni lauk 1902 en þá keyrði fyrsta neðanjarðarlestin yfir brúna, en það var jafnframt fyrsta neðanjarðarlest Berlínar. Á þessum hluta leiðarinnar keyrir hún reyndar ofanjarðar.
Stríðið og eftirstríðsárin
[breyta | breyta frumkóða]Brúin skemmdist töluvert í loftárásum bandamanna í heimstyrjöldinni síðari. En 23. apríl 1945, aðeins viku fyrir dauða sinn, ákvað Hitler að sprengja brúna til að hindra framrás sovéska hersins í borginni. Því var miðjuhlutinn sprengdur, en við það brunnu turnarnir og þök þeirra hrundu. Strax eftir stríð var brúin lagfærð til bráðabirgða, enda mikið notuð. Áin Spree markaði skilin á milli sovéska og bandaríska hernámssvæðanna. Fyrir norðan brúna var Friedrichshain í sovéska hlutanum en fyrir sunnan var Kreuzberg í bandaríska hlutanum. Þegar Berlínarmúrinn var reistur 1961 var búnni lokað. Öll umferð um hana var stöðvuð. Hún var orðin hluti af járntjaldinu milli austurs og vesturs. Árið 1972 var sett upp landamærastöð við brúna í Friedrichshain og brúin opnuð fyrir gangandi vegfarendur, það er þeirra sem á annað borð höfðu leyfi til að fara yfir landmærin.
Endurreisn
[breyta | breyta frumkóða]Strax við fall múrsins var landamærastöðin fjarlægð og brúin opnuð fyrir alla gangandi vegfarendur. Hvorki bílar né lestir komust yfir vegna. Árið 1992 var brúin lagfærð og gerð upp. Haldin var samkeppni um hönnun á miðhlutanum sem Hitler hafði látið sprengja. Sigurtillagan gerði ráð fyrir að brúa bilið með stálgrind, bæði fyrir bíla og lestir. Bílaumferð var hleypt á aftur í nóvember 1994 en lestir ekki fyrr en í apríl 1995. Brúin var tekin upp í skjaldarmerki Friedrichshain 1991, skömmu eftir sameiningu landanna. Árið 2001 voru borgarhlutarnir Friedrichshain og Kreuzberg sameinaðir. Brúin er þó enn í sameiginlegu skjaldarmerki.
Markvert
[breyta | breyta frumkóða]Á brúnni fer fram árlegur grænmetisslagur (Gemüseschlacht) milli íbúa Friedrichshain og Kreuzberg um yfirráðin í þessum borgarhluta. Slagurinn er haldinn í léttum dúr, þrátt fyrir að notað sé fúlt, myglað og skemmt grænmeti og egg. Siður þessi hefur verið haldinn síðan 1998 og hafa íbúar Friedrichshain ávallt borið sigur úr býtum fram að þessu.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Oberbaumbrücke“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt desember 2009.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Oberbaumbrücke Geymt 26 september 2010 í Wayback Machine