Notandi:Sif~iswiki/sandbox

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Fundur Íslands[breyta | breyta frumkóða]

Margar ólíkar skoðanir eru til staðar um landnám á Íslandi og hver hafi verið fyrsti landnámsmaðurinn. Til eru þekktar sögur og kenningar um hina ýmsu menn sem að taldir eru eiga þennan heiður. Papar hafa stundum verið nefndir sem þeir fyrstu til að nema hér land en einnig hafa komið fram hugmyndir um að Rómverjar hafi í raun verið fyrstir til að finna Ísland. Það er hinsvegar algengast að talað sé um hina norrænu víkinga í þessu sambandi og hér að neðan verða nefndir þeir sem að hafa staðið upp úr í umræðum undanfarið. Fornleifar ásamt ýmsum aldursgreiningaraðferðum geta gefið okkur góða hugmynd um elstu byggð og þar af leiðandi landnámið. Hinsvegar hefur ágreiningur verið til staðar á milli fræðimanna um hvenær Ísland hafi í raun verið numið og verður því einnig stuttlega gert grein fyrir því.

Kenningar um fyrstu landnámsmennina[breyta | breyta frumkóða]

Naddoður er einn af þeim sem talinn er hafa verið einna fyrstur til Íslands. Hann fæddist í Noregi og talið er að hann hafi rekið til Íslands er hann var að fara frá Noregi til Færeyja. Hann á þó ekki að hafa stoppað lengi og áður en hann og menn hans sigldu frá Íslandi nefndu þeir landið Snæland. Í Skarðsárbók sem að er í einu af handritum Landnámu er sagt að Naddoður hafi komið til Íslands árið 770 e.Kr.[1]

Einnig hefur verið rætt um hann Hrafna-Flóka en hann á að hafa komið til íslands á 9.öld og líkt og Naddoður yfirgaf hann landið. Talið er að það hafi verið hann Hrafna-Flóki sem að gaf landinu heitið sem það ber í dag, Ísland. [2]

Þar að auki er talið að Náttfari, þræll Garðars Svavarsson hafi verið eftir á Íslandi um miðja 9.öld þegar Garðar fór frá landinu. Þar af leiðandi myndi það gera hann að þeim fyrsta sem að hóf ævilanga búsetu hér og því myndi það gera hann að fyrsta landnámsmanni Íslands.[3]

Það er hinsvegar hann Ingólfur Arnarson sem að hefur verið talinn hinn fyrsti landnámsmaður á Íslandi, ásamt bróður sínum Hjörleifi og er talið að hann hafi komið um 870 e.Kr. Hann hefur verið nefndur fyrsti landnámsmaður Íslands og það „felst í því að skipulagt landnám ... hófst fyrst með landnámi Ingólfs um 870. Fordæmi hans var upphafið að þeirri landnámsgerð sem einkenndi byggingu landsins næstu 60 ár.“[4]

Aldursgreiningar í fornleifafræði[breyta | breyta frumkóða]

Sagnfræðin gefur okkur góða hugmynd um hvernig landnámið getur hafa verið, en það gengur hinsvegar ekki út á áþreifanlegar leifar líkt og fornleifafræðin felur í sér. Fornleifafræðin fæst við minjar líkt og forngripi, kuml, en einnig mannvirkja- og mannvistarleifar. Stefnt er að leita sem mestu upplýsinga um þessar minjar og reynt er að aldursgreina þær, leita uppruna þeirra og einnig er reynt að túlka þær svo hægt sé að setja þær í þjóðfélagslegt samhengi. Það kemur líklega engum á óvart að flestir eldri forngripir sem fundist hafa á Íslandi eru af erlendum uppruna. Þar af leiðandi er hægt að beita samanburði til þess að finna út aldur þeirra og hvernig þeir hafa verið notaðir. Þægilegast þykir að aldursgreina forngripi líkt og skartgripi, peninga og vopn. Fornleifaheimildir geta gefið okkur góða mynd af elstu byggð í landinu og þar af leiðandi hvenær líklegt sé að landið hafi verið numið.[5] Talið er að landið hafi orðið albyggt árið 930 e.Kr. og þar af leiðandi er það ártal notað um lok Landnámsaldar. Fornleifar staðfesta þetta að mestu leiti. Yfirleitt er talað um þrjár undirstöðugreinar fornleifafræðinnar sem að notaðar eru til aldurgreiningar og er það formgerðarfræði, geislakolsaldurgreining og gjóskulagafræði. Formgerðarfræðin nýtist vel er það þarf að tímasetja til dæmis skartgripi og vopn þar sem að það má yfirleitt tímasetja þá gripi af stíleinkennum. Elstu skartgripir sem að hafa fundist hér á landi eru frá fyrri hluta 9.aldar og hafa þeir einkum fundist í gröfum kvenna. Peningar þykja oft vera sú tegund forngripa sem að þægilegast er að aldursgreina þar sem að þeir voru mótaðir á ríkisárum tiltekins höfðingja eða konungs. Geislakolsaldursgreining er önnur helsta aldursákvörðunaraðferðin og er hún einnig þekkt sem C-14 greining. Geislakol finnast í öllum lífverum þar sem að þau myndast stöðugt í andrúmsloftinu. Þegar lífvera deyr þá minnkar styrkur geislakol í henni sem að gerir það að verkum að þessi aðferð þykir góð í að aldursgreina. Síðast en ekki síst er gjóskulagafræði sem virkar í raun sem ákveðið tímatal sem að byggist á notkun eldfjallagjósku.[6]

Elstu byggðir[breyta | breyta frumkóða]

Við rannsóknir á elstu byggðum hér á landi er helst notast við gjóskulög sem að þekkt eru sem Landnámslagið svokallaða og Eldgjárgjóska. Landnámslagið er í kringum 871 e.Kr. á meðan Eldgjárgjóska hefur verið tímasett til kringum 934 e.Kr.[7] Meðal þeirra elstu og vel varðveittustu bæjarhúsaleifa sem að rannsakaðar hafa verið má nefna bæjarstæðið í Herjólfsdal í [[Vestmannaeyjar|Vestmannaeyjum] og einnig fundust þrír skálar í Hvítárholti í Hrunamannahreppi í Árnessýslu. Að lokum fannst skáli og fjós í Papey sem að talin eru verið frá 10.öld. Það má einnig nefna að á Bessastöðum og í Reykjavík hafa fundist þó nokkrir skálar sem að eru taldir vera frá 9. eða 10 öld. Af þeim minjum sem að fundist hafa má draga þá ályktun að landnámsmenn hafi í fyrstu byggt sér jarðhýsi til búsetu en ekki leið á löngu þar til þeir fóru að búa í skálum. Niðurstaða rannsókna á fyrstu búsetu í landinu færa okkur ýmsar upplýsingar svo sem að landið hafi byggst með hraði, að byggt hefði verið á eyjum undan ströndum, láglendinu og í inndölum.[8]

Landnám samkvæmt Forngripum[breyta | breyta frumkóða]

Forngripir geta staðfest ýmsar tilgátur og kenningar líkt og um landnám. Landnám er talið hefjast um 870 og ljúka um 930. Þegar maður ber þessa kenningu saman við þá forngripi sem hafa fundist, þá virðast þær styðja hana að mestu leiti. Flestir gripir sem að hafa fundist í kumlum eru frá miðri 9.öld fram á miðja 10.öld. Þar af leiðandi eru til dæmis skartgripir og vopn sem að hafa fundist hér á landi mestmegnis frá 10.öld. Þeir skartgripir sem að hér hafa fundist hafa yfirleitt fundist í gröfum kvenna. Á sama hátt hafa flest vopn fundist í gröfum karla. Algengustu vopnin virðast hafa verið spjót og tugi spjóta hafa fundist en einnig hafa til dæmis fundist sverð, axir og skildir.[9] Þar að auki gefa kuml okkur góða vísbendingu um hvenær fólk fór að setjast að hér á landi. Allt gefur til kynna að landnámsmenn hafi líklega grafið sína látnu samkvæmt þeim siðum og venjum sem tíðkuðust á þeirra heimaslóðum. Þess má geta að það er mikill skyldleiki með þeim kumlum sem að hafa fundist á Íslandi og þeim sem að hafa fundist á Noregi, Mið-Svíþjóð, byggðum norrænna manna á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum. Flest kumlanna eru talin vera frá 10.öld en minnihluti þeirra er talinn vera frá 9.öld. Þar af leiðandi er hægt að draga þá ályktun að landnámið hafi hafist á síðari hluta 9.aldar og hafi lokið um 930. þar sem að flestar fornminjar eru frá þeim tíma.[10]

Ágreiningar um tímasetningar[breyta | breyta frumkóða]

Hér á landi hafa fundist þó nokkrir rómverkir peningar sem að eru frá tímabilinum 270-305 e.Kr. Þeir eru frá tímum keisaranna Aurelianus sem að kom til valda árið 270 og Diocletianus sem að fór frá völdum árið 305. Peningarnir eru koparpeningar með silfurblæ sem að eru betur þekktir sem antoninianar. Sumir telja að peningarnir hafi borist með norrænum mönnum en það hafa hinsvegar ekki fundist margir peningar af þessari tegund þar og það gerir þá kenningu frekar ólíklega. Enn fremur hafa menn haldið því framm að Papar hafi haft þá með sér þar sem að rómverskir peningar hafa fundist á þeim slóðum þar sem að þeir hafa einkum verið. Hinsvegar, komu Papar frá landi þar sem að antoninianar voru afar sjaldgæfir.[11] Kristján Eldjárn taldi að líklegast væri að rómverskir borgarar hafi flutt þessa peninga til Íslands. Þetta á að hafa verið er þeir voru gjaldgengir í rómverka ríkinu og telur hann að það gæti hafa verið í lok 3.aldar. Þá hafi skip frá rómverskri hjálendu rekist til Íslands, nánar tiltekið Suðausturlands. Samkvæmt því hefur skipið líklegast lent í hrakningum og farið hafvilla. Þar af leiðandi hafa þeir ekki fundið landið af ásettu ráði og því í raun fundið það óvart. Jafnvel þó að Kristján haldi þessu framm þá er hann hinsvegar sammála því að það voru norrænir menn sem að byggðu landið fyrstir.[12] Þór Magnússon ásamt þýska fræðimanninum Reinhold Jordan telja mun líklegra að peningarnir hafi borist með norrænum landnemum á 9-10.öldinni.[13] Þessir peningar sem að fundist hafa, kveiktu á umræðu um að mögulega hafi Ísland fundist frá Englandi og því mikið fyrr en fornir sagnaritarar hafa vitað. Það hafi hinsvegar ekki verið byggt. Þar að auki hélt Margrét Hermanns-Auðardóttir því framm í Doktorsritgerð sinni að landnámið hafi hafist mun fyrr en haldið væri framm. Hún vill meina að landnámið hafi hafist á 7.öld og að það hafi verið norrænir menn, sem fóru frá Noregi. Það sem hún notar til stuðnings eru til dæmis fornleifarannsóknir í miðbæ Reykjavíkur, Herjólfsdal í Vestmannaeyjum og Hrafnseyri við Arnarfjörð. Margir fornleifafræðingar eru þessu ósammála þar sem að þessi kenning byggist ekki á fornminjum heldur byggist hún á geislakolaldursgreiningu.[14]


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Vísindavefurinn:Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“ skoðað 12.mars 2014.
 2. „Hrafna-Flóki Vilgerðarson“. skoðað þann 12.mars 2014.
 3. Vísindavefurinn:Hvers vegna hefur Náttfara ekki verið hampað sem fyrsta landnámsmanninum?“ skoðað 12.mars 2014
 4. Vísindavefurinn:Hvers vegna hefur Náttfara ekki verið hampað sem fyrsta landnámsmanninum?“ skoðað 12.mars 2014
 5. Guðrún (2004): 39.
 6. Guðrún (2004): 40.
 7. Guðrún (2004): 40-41.
 8. Guðrún (2004): 45-46.
 9. Guðmundur (1996): 27.
 10. Guðmundur (1996): 28-29.
 11. Kristján (2000): 29-31.
 12. Kristján (2000): 33.
 13. Kristján (2000): 35-36.
 14. Guðmundur (1996): 30-31.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Guðmundur Ólafsson. „Vitnisburður fornleifafræðinnar um landnám Íslands“. Um Landnám á Íslandi- Fjórtán Erindi (Reykjavík: Vísindafélag Íslendinga, 1996): 25-32.
 • Guðrún Sveinbjarnardóttir. „Landnám og Elsta Byggð- Byggðarmunstur og Búsetuþróun“. Hlutavelta tíman- menningararfur á þjóðminjasafni (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2004): 39-47.
 • Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé- úr heiðnum sið á Íslandi (Reykjavík: Mál og menning, 2000)