Notandi:Klatei/sandbox

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hundlax[breyta | breyta frumkóða]

Í Norðanverðu Kyrrahafi hefur Kyrrhafslax sömu þýðingu og þorskur hér við land. Þegar menn eru að tala um fisk þar, er yfirleitt verið að meina lax. Hundlax (fræðiheiti Oncorhynchus Keta) er ein útbreiddasta tegundin af ætt laxfiska í Norður-Kyrrahafi.

Lífsferill[breyta | breyta frumkóða]

Lífsferill hundlax er mjög dæmigerður lífsferill vatnsgöngufisks. Meðalævitími þeirra eru fjögur ár en þó ná sumir allt að sex ára aldri. Fullorðinn hundlax er yfirleitt 4,4-10 kíló og 60 cm að lengd. Stærsti hundlax sem veiddur hefur verið var 19 kg og 112 cm. Eftir að klekjast út úr eggi sínu seint að vetri til dveljast unglaxarnir ekki í ferskvatni um tíma heldur í árósum/ármynnum þar sem þeir nærast á dýrasvifum og skordýrum. Mesti tími lífs þeirra fer svo fram í hafinu og með tímanum breytist fæða þeirra úr dýrasvifum yfir í smáa fiska eins og síld, marflær og átur. Eftir að hafa eytt nokkrum árum í sjónum verður hundlaxinn kynþroska að hausti til og hefst þá ferðalag hans aftur heim í ánna sem hann fæddist í. Ótrúlegt þykir að laxfiskar geti ferðast þúsundir kílómetra en nái þó að rata aftur nákvæmlega á sama stað og þeir klöktust á.

Mynd:Fiskur
Hundlax

Til eru þó nokkrar tilgátur um hvernig þeir ná að rata aftur með svo mikilli nákvæmni. Ein tilgátan er sú að þeir nota efni og jarðsegulmagn til að vísa sér leiðina heim, þeir þekkja þá magnið og hvar það sé miðað við fæðingarstaðinn. Segulsvið jarðar gæti einnig lóðsað fiskunum um hafið að fæðingarstaðnum. Þaðan staðsetur dýrið hvar heimaáin blandast hafinu með því að skynja efnamagnið í sjónum sem hann þekkir frá heimastað sínum. Með því að nota minninguna um lyktina og efnasamsetninguna geta þeir snúið aftur til sömu ár eftir að hafa verið á hafi úti árum saman. Til að geta skynjað allt þetta þarf laxinn að kafa ansi djúpt og ferðast þeir á allt að 250 metra dýpi á ferðum sínum. Önnur lyktar-tengd tilgáta bendir til þess að ungir laxfiskar sleppa ferómóni, eins kona boða, þegar þeir flytja sig frá ánni sinni og á leið sinni aftur finna þeir lyktina af ferómóninu sem vísar þeim leiðina á áfangastað. Þegar ferðinni heim er lokið, sem getur náð allt að 3.200 kílómetrum, er fiskurinn orðinn kynþroska og er tilbúinn til að fjölga sér. Æxlunin á sér stað í litlum árfarvegum. Hundlaxinn hrygnir frekar djúpt miðað við aðra laxa. Kvenlaxinn býr til hálfgert steinahreiður þar sem hún passar upp á eggin sín á meðan að karlkyns hundlaxinn berst fyrir svæði þeirra og fer síðan í makaleit og deyr að lokum. Kvenlaxinn getur verpt allt að 4.000 eggjum en yfirleitt frjóvgast einungis 70% þeirra (2.800 egg). Hún hrygnir yfirleitt frá nóvember til janúar, í síðasta lagi og deyr svo um tveimur vikum seinna. Þó eru sumir fiskar sem lifa þetta ferli af og geta hrygnt aftur.

Útlit[breyta | breyta frumkóða]

Oft er erfitt að greina á milli hundlax og kyrrahafslax á tímabilinu þegar hundlaxinn lifir í sjónum. Báðir eru silfraðir. Ólíkt öðrum löxum er hundlaxinn ekki með svartar doppur á bakinu og sporðnum. Þegar laxinn snýr aftur í árnar til að hrygna breytist útlit hans mjög mikið og er hann þekktur fyrir það. Hann verður ólívulitaður og auk þess með rauða tætta línu á síðunni og hins vegar með svarta línu á bakhlutanum. Hængur hefur myndast og gífurlegar vígtennur sem eru einmitt ástæðan fyrir nafngiftinni hundlax, þær líkjast nefnilega mikið vígtönnum í hundum. Útlit karlfisksins er mun ýktara. Ástæða þessa ýkta útlits er talin koma til vegna keppni karlanna um maka, sá sem hefur stærstu tennurnar vinnur!

Útbreiðsla[breyta | breyta frumkóða]

Hundlaxinn lifir í norðanverðu Kyrrahafinu og spannar stærsta svæði sem nokkur laxategund lifir á, allt frá Japan til norðurhluta Kaliforníu eins og sjá má á Mynd 2. Þar er græni hluti myndarinnar það svæði sem tegundin lifir á núna, það rauða er svæði þar sem tegundin lifði eitt sinn en finnst ekki lengur á og það appelsínugula er svæði sem tegundin hefur fundist á en býr ógjarnan á. Eins og sjá má er rauða svæðið bara í ám inni í löndum og er tegundin útdauð þar vegna ofveiði, í flestum tilfellum.

Veiðar[breyta | breyta frumkóða]

Hundlaxinn er aðallega veiddur í net eða nætur. Ástæður þess eru líklega þær að hundlaxinn ferðast í torfum. Þess má geta að hundlaxinn er mjög vinsæll meðal stangveiðimanna vegna gnægtar hans og einnig vegna gríðarlegs styrk hans. Þó hefur hann sína galla og eins og margir laxar er hold hans orðið mjög laust í sér þegar hann snýr aftur í árnar eftir að vera orðinn kynþroska. Los er þá mikið í kjötinu og það lítur illa út. Því er mest veitt af honum á hafi úti svo sem best gæði tryggist. Það eru engar skipulagðar veiðar á hundlaxinum. Þó rannsaka vísindamenn stofnanna reglulega, hver á sínu svæði, hve stórir stofnar eru og setja gróf mörk um hvað veiða má mikið af tegundinni á hverju svæði fyrir sig ár hvert. Eins og sést hér á línuritinu er mest veitt af tegundinni af Japönum. Þó veiddist mjög lítið árið 2000 og vilja vísindamenn meina að ástæða þess sé að frá 1997-2005 hafi yfirborðshitastig við strendur Japans verið óvenju hátt og tegundin brugðist illa við þeim breytingum og einn árgangur eða fleiri því brugðist. Stofninn náði sér hins vegar á strik aftur eins og sjá má og voru Japanir að veiða um 220.000 tonn árið 2010. Ástæðan fyrir aukningu Japana á veiði tegundarinnar er sú að þeir byrjuðu að sleppa seiðum í sjóinn og er fjöldi seiða orðinn gífurlegur eða um 2 milljón seiði árlega. Á eftir Japönum koma Bandaríkin en veiðar þeirra eru ekki nærrum því í jafn miklu magni og þar. Þar ber helst að nefna veiðar í Alaska, þar sem veitt er um 85% af heildarafla hundlax í Bandaríkjunum og þar á eftir kemur Washington. Árið 2004 var hundlax þriðji veidd mesti laxinn í Bandaríkjunum og var landað um 49 milljónum tonna af honum það árið.

Gildi tegundarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Hundlaxinn er talinn vera svokallaður „commercial fish“. Það þýðir að hægt er að veiða hann í mjög miklu magni, sérstaklega í Japan, og þ.a.l. er hægt að fæða mikinn fjölda með honum. Vandamálið með hundlax er ekki að finna hann, þvert á móti, heldur að veiða hann þar sem hann er í nógu góðum gæðum. Litarhaft fisksins og kjötsins og olíumagn eru mjög breytileg eftir því hvaða hundlax þú veiðir. Því getur verið erfitt að ætla að veiða fiskinn í miklu magni þegar þú veist ekki nákvæmlega hverjir eiginleikar hans verða. Þegar hins vegar búið er að veiða og vinna laxinn er hann oftast seldur í dósum en þó einnig ferskur, þurrsaltaður, reyktur og frosinn. Hann er einnig notaður í kavíar. Þegar kemur að sölu hundlax er hann ekki verðmætur lax miðað við aðra laxa. Markaðsverð hans er lágt og féll niður í 191 krónur á pundið í júní á síðasta ári á meðan aðrir laxfiskar seldust á allt að tíu sinnum hærra verði. Á móti því kemur hið gríðarlega magn sem hann veiðist í. Þó hægt sé að skapa mikil verðmæti með tegundinni, eins og dæmi sýna í Japan, þá er verðmæti á hvern og einn lax mjög lítið. Hundlax er um þessar mundir ein mikilvægasta fisktegundin í Alaska vegna mikillar velgengni með klakstöðvar á svæðinu. Árið 2010 var verðmæti hundlax 75 milljón dollarar. Þegar þessar tölur eru færðar yfir á Japan er rétt hægt að ímynda sér þann mikla gróða sem fiskurinn færir. Því má segja að mjög hagstætt sé að vinna með þessa tegund sé hún til staðar í stórum mæli, annars ekki.


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Agrilculture and Agri-Food Canada. 2009. Fact Sheets. Pacific Chum Salmon. Sótt 10. febrúar af http://www.ats-sea.agr.gc.ca/sea-mer/4799-eng.htm

Alaska Department of Fish and Game. (e.d.). Chum Salmon (Oncorhynchus keta). Sótt 6. febrúar af http://www.adfg.alaska.gov/index.cfm?adfg=chumsalmon.main

Fishwatch. U.S. Seafood facts. (e.d.). Chum Salmon. Sótt 12. febrúar 2013 af http://www.fishwatch.gov/seafood_profiles/species/salmon/species_pages/chum_salmon.htm

Luna, Susan, M.. Júlí, 2012. Chum Salmon. Sótt 10. febrúar af http://www.fishbase.org/summary/Oncorhynchus-keta.html

NOAA Fisheries. Office of protected Resources. 2012. Chum Salmon (Oncorhynchus keta). Sótt 6. febrúar af http://www.nmfs.noaa.gov/pr/species/fish/chumsalmon.htm

Seafood Choices Alliance. 2006. Salmon, Chum (Wild Pacific). Sótt 10. febrúar af http://www.seafoodchoices.com/archived%20smartchoices/species_salmonchum.php

Washington Department of Fish & Wildlife. 2013. Chum Salmon Life History. Sótt 6. febrúar af http://wdfw.wa.gov/fishing/salmon/chum/life_history/index.html