Norrænir Grænlendingar
Norrænir Grænlendingar var fólk frá Íslandi og Noregi sem nam land á Grænlandi í lok 9. aldar. Þessi norræna byggð hélst þar í nær 500 ár en var yfirgefin á 15. öld. Óvíst er hversu fjölmenn byggðin var þegar hún var fjölmennust, giskað hefur verið á allt frá 2000 til 6000 en nú er oftast talið að það hafi ekki farið yfir 2500.[1]
Íslendingasögur og aðrar sögur
[breyta | breyta frumkóða]
Norrænir Grænlendingar koma fyrir í mörgum Íslendingasögum, í þeim er þó einungis fjallað um landnámið og landnámstíman. Á fyrri hluta 19. aldar kom út þriggja binda verkið Grønlands Historiske Mindesmærker (1838–1845) eftir Finn Magnússon og Carl Christian Rafn, þar sem nánast öllum heimildum sem varða miðaldasögu Grænlands var safnað. Á 20. öld voru fleiri yfirlit yfir ritheimildir um Grænland sett saman.[2]
Eftirfarandi tvær íslendingasögur fjalla nær eingöngu um landnámið og Grænlendinga:
Grænlendingasaga er varðveitt í Flateyjarbók sem var líklega rituð fyrir miðja 13. öld, það er um 200 árum eftir að sagan á að hafa gerst.
Eiríks saga rauða er varðveitt í tveimur handritum, Hauksbók frá byrjun 14. aldar og Skálholtsbók rituð skömmu fyrir miðja 15. öld. Talið er að Skálholtsbók sé líkari frumgerð sögunnar, sem er talin hafa verið rituð á 13. öld. Efnislega er fjallað um sömu efnisatriði og í Grænlendingasögu en um 300 ár liðu á milli atburðanna og skrásetningar.
Um það bil 100 árum eftir að landnámið átti að gerast, um 1122-1133, ritaði Ari fróði Þorgilsson Íslendingabók sem einnig fjallar að hluta til um landnámið á Grænlandi. Vitneskju sína um Grænland byggði Ari á frásögn föðurbróður síns, Þorkels Gellissonar (d. 1074), sem hafði sjálfur verið á Grænlandi líklega um 1055. Í Landnámabók er einnig sagt frá landnáminu.
Að auki er greint frá Grænlandi stuttlega í nokkrum fleiri sögum:
- Flóamannasaga segir frá heimsókn Þorgils Orrabeinsfóstra til Eiríks rauða.
- Fóstbræðrasaga fjallar meðal annars um blóðug átök á Grænlandi.
- Skáld-Helga rímur fjallar um ástarsögu Helga skálds á Grænlandi.[3]
- Grænlendingaþáttur, eða Einars þáttur Sokkasonar, segir frá stofnun biskupsstóllsins á Görðum.
Aðrar miðaldaheimildir
[breyta | breyta frumkóða]Þar að auki eru nokkrar miðalda heimildir sem segja frá Grænlandi og Grænlendingum eftir landnám:
- Í íslenskum annálum er greint frá fjölmörgum, einkum kirkjulegum, atburðum á Grænlandi.
- Í Konungs skuggsjá, sem er frá miðri 13. öld, er lýsing á Grænlandi.
- Norski presturinn Ívar Bárðarson dvaldi á Grænlandi á 14. öld og frá honum er lýsing á byggðinni og er það aðalheimildin um norræn fornöfn á Grænlandi.
- Björn Jónsson á Skarðsá samdi Grænlandsannál um 1625 og notast þar við ferðabók Björns Einarssonar Jórsalafara sem nú er glötuð.
- Aðrar heimildir eru bréf og önnur skjöl som aðallega snúast um mál kirkjunnar. [4]
Fornleifar
[breyta | breyta frumkóða]
Fornleifarannsóknin á Grænlandi hófust með Hans Egede þegar hann kom til Grænlands árið 1721. Árið 1723 rakst hann fyrir tilviljun á Eystribyggð, en án þess að gera sér grein fyrir mikilvægi þess fundar. Á 18. og 19. öld voru fjölmargir danskir leiðangrar gerðir út til Grænlands til að leita að fornleifum. Eftir stofnun Kommissionen for Videnskabelige Undersøgelser i Grønland á áttunda áratug 19.aldar hófst kerfisbundin rannsókn á fornleifum frá byggð norrænna manna á Grænlandi. Meðal annars var Eystribyggð könnuð árið 1894 og Vestribyggð árið 1903. Uppgröftur á Herjólfsnesi, Görðum og Brattahlíð hófst 1921. [5]
Fjölmargar byggðir og býli á Grænlandi hafa verið grafnar upp og kannaðar síðar. Fjölmargir munir ásamt manna- og dýrabeinum auk rústanna sjálfra gefa mynd af lífi hinna fornu Grænlendinga.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Uppgötvun og landnám Grænlands
[breyta | breyta frumkóða]Fundur og landnám Grænlands átti sér stað á því tímabili sem kallað er víkingaöld. Þá fóru íbúar þar sem nú er Danmörk, Noregur og Svíþjóð um á skipum víða í Evrópu með ránum og hernaði og var það kallað að fara í víking eða leggjast í víking. En þeir voru einnig verslunarmenn og fluttust líka búferlum og settust að í öðrum löndum, ýmist með landnámi eins og á Íslandi eða með því að þeir tóku sér bústað meðal annarra þjóða. Svíar settust að í Rússlandi (og ferðuðust allt til Svartahafs og Miðausturlanda, Danir settust að í Englandi og Normandí og sigldu um Miðjarðarhafið og Norðmenn settust að á Írlandi, Skotlandi, Íslandi og Færeyjum.[4]
Í Landnámabók og Eiríks sögu rauða er þess getið hvernig Gunnbjörn Úlfsson, á ferð frá Noregi til Íslands, lenti í hafsnauð í óveðri og að skip hans strandaði vestur af Íslandi. Þar sem Grímkell bróðir Gunnbjarnar tók þátt í landnámi Íslands er líklegt að þetta hafi gerst um ár 900. Samkvæmt Landnámubók vildi Snæbjörn galti Hólmsteinsson ásamt fleirum byggja landið sem Gunnbjörn hafði fundið, en ágreiningur kom upp og þeir sem höfðu hugað á landnám drápu hver annan. [1]
Eiríks sögu rauða og Landnámabók segja frá landnámi Eiríks rauða á Grænlandi. Eiríkur fæddist í Noregi og kom til Íslands með föður sínum Þorvaldi Ásvaldssyni. Eiríkur var kallaður „rauði“ vegna hárlitarins. Þeir feðgar flæmdust frá Noregi vegna vígamála Þorvalds. Eiríki gekk illa að lynda við aðra menn og var hann rekinn úr Haukadal eftir að hann var dæmdur sekur vegna vígaferla. Þá fór hann í eyna Brokey á Breiðafirði en var einnig rekinn þaðan fyrir vígaferli og varð útlagi að nýju 982. Samkvæmt Eiríks sögu rauða varði hann þremur árum útlægur í að að finna og kanna landið sem Gunnbjörn hafði fundið. Líklega náði hann austurströnd Grænlands og sigldi síðan suður með ströndinni. Eríkur ferðaðist um suður og vestur Grænland og sneri síðan aftur til Íslands og sagði miklar og fagrar sögur af þessu nýfundna landi. Árið 985 hafði hann svo safnað fjölmennu liði og sneri með því aftur til Grænlands og stofnaði tvær nýlendur á vesturströndinni, Eystribyggð og Vestribyggð. Í Eystribyggð reisti hann stórbýlið Brattahlíð fyrir sig og sína, nálægt þar sem Narsarsuaq stendur nú. Í þessari landámsferð Eiríks voru 25 skip, sennilega knerrir, með 500 - 700 manns samanlagt um borð en einungis 14 skip komust til Grænlands. Hin 11 ýmist fórust í ofsaviðri eða sneru til baka.[6]
Uppbygging byggðar
[breyta | breyta frumkóða]Tímasetning landnáms norrænna manna á Grænlandi, eins og hún er skráð í íslendingasögunum, hefur verið staðfest með fornleifafundum. Samkvæmt C-14 aldursgreiningum hafa fornleifafræðingar getað séð að landnám gerðist í tveimur áföngum í Eystribyggð, sá fyrri á áratugunum fyrir árið 1000 í kringum Eiríksfjörð og Einarsfjörð og sá seinni frá 1000 fram til 1050 á svæðinu fyrir sunnan og norðan þessa fjarða. Á sama tíma var Vestribyggð einnig byggð. [6] ]Sagnirnar greina frá því að flestir landnámsmenn hafi komið frá Íslandi og erfðafræðilegar rannsóknir hafa staðfest að norrænu Grænlendingarnir, eins og Íslendingar, voru af norskum og keltneskum uppruna.[6]
Miðaldaheimildir um Grænland og stjórnarfar þar eru fremur fáar og í brotum. Heimildir sýna þó að tveir meginþættir í stjórnun hjá öllum germönskum þjóðum á miðöldum, höfingjavaldið og þingið, voru til staðar á Grænlandi. [2]Grænlensku höfðingjarnir voru nefndir goðorðsmenn eins og á Íslandi.[7]Sennilega voru þrjú goðorð á Grænlandi, tvö í Eystribyggð og eitt í Vestribyggð. [8] Ekki er vitað hvað varð af þessum goðorðum þegar Grænlendingar gengu Noregskonungi á hönd árið 1261. Garðar voru að öllum líkindum þingstaður Grænlendinga.[9]
Um miðja 13. öld voru Ísland og Grænland enn sjálfstæð þjóðfélög án þjóðhöfðingja. Á þessum tíma vildi Hákon gamli Hákonarson Noregskonungur stækka og efla ríkið og það vildi hann meðal annars gera með því að fá Grænlendinga og Íslendinga að sverja sér land og þegna. Árið 1261 sneru sjómenn heim til Noregs eftir fjóra vetur á Grænlandi. Þeir fluttu þau tíðindi að Grænlendingar samþykktu að greiða Noregskonungi skatta og gjöld. Við krýningu Hákonar gamla í Björgvin 1247 hafði sendimaður páfans Innocensíus 3. lýst því yfir að ekkert fólk skyldi vera án konungs og sama sumar var Ólafur biskup sendur til Grænlands til að fá norræna menn til að gangast undir þetta.[10]
Gert er ráð fyrir að Grænlendingarnir hafi gengist að þessu af frjálsum vilja, með loforði Noregskonungs um að senda tvo knerri árlega með vörur milli landanna og þar með tryggja verslun og vistir en upp frá þessu þurftu Grænlendingar að greiða Noregskonungi skatt. En verslunareinokun var einnig komið á og máttu einungis norskir kaupmenn versla við Grænland og öll viðskipti áttu að fara í gengum Björgvin.[6]
Kristnitaka
[breyta | breyta frumkóða]
Lítið er vitað um trúarbrögð fyrstu landnámsmannanna. Sennilega hafa flestir landnámsmenn á Grænlandi fylgt ‘hinum forna sið’ en sagnir fara af kristnum mönnum frá upphafi norrænnar byggðar á Grænlandi. Fundur ýmisra muna sýnir að kristnir menn voru meðal fyrstu landnámsmanna. En engin heiðin kuml hafa fundist.[6] Grænlenska samfélagið varð kristið um svipað leyti og kristnitaka á Íslandi og vegna svipaðra áhrifa, það er frá Noregi og Bretlandseyjum. Í upphafi kristni á Grænlandi heyrði kirkjan eins og aðrar kirkjur á Norðurlöndum undir erkibiskupinn í Hamborg-Bremen en árið 1103 voru þær lagðar undir erkibiskupinn í Lundi. En frá árinu 1152 heyrðu kirkjur i Noregi, Mön, Orkneyjum, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi undir erkibiskupinn í Niðarósi (nú Þrándheimi).
Kirkjur voru margar, rústir af að minnsta kosti 16 kirkjum eru þekktar frá Eystribyggð einni. Flestar voru þetta litlar heimiliskirkjur, flestar um 10 m2, en aðrar mjög stórar eins og dómkirkjan í Görðum og Hvalseyjarkirkja. Ósennilegt er að allar kirkjurnar hafi verið í notkun samtímis. Í Eystribyggð voru líka tvö klaustur, eitt fyrir hvort kyn (bæði stofnuð upp úr 1300). Var annað nunnuklaustur af Benediktsreglu í Hrafnsfirði og hitt munkaklaustur af reglu Bendedikts í Ketilsfirði sem helgað var Ólafi helga og heilögum Ágústínusi.
Lönd í vestri
[breyta | breyta frumkóða]
Tvær Íslendingasögur, Grænlendinga saga og Eiríks saga rauða, segja frá förum vestur yfir Labradorhaf til þess sem nú er meginland Norður-Ameríku. Þessar sögur voru skráðar í fyrsta lagi um aldamótin 1200, tveimur öldum eftir að þær áttu að gerast. Í þessum tveimur sögum er margt sameiginlegt en ber einnig á milli um margt. Samkvæmt Grænlendinga sögu bar Bjarna Herjólfssyni af leið frá Íslandi til Grænlands, og sá hann þrisvar á ókunnugt land, fyrst ófjöllótt land og skógi vaxið, síðan slétt land og viði vaxið, síðast eyju með jökli á, áður en þeir komust til Grænlands. Samkvæmt sögunni tók Bjarni og menn hans hvergi land fyrr en á Grænlandi. Grænlendinga saga segir að Leifur Eiríksson hafi síðar keypt skipið af Bjarna og farið í landaleit. Þeir komu fyrst að því landi sem Bjarni hafði fundið síðast og kölluðu það Helluland. Síðan komu þeir að skógi vöxnu landi sem þeir kölluðu Markland. Síðast gerðu þeir sér hús á landi þar sem þeir áttu eftir að finna vínvið og kölluðu Vínland. Í Eiríks sögu rauða er Bjarni Herjólfsson ekki nefndur, en sagt að Leifur Eiríksson hafi rekist á land, þar sem voru hveitiakrar sjálfsánir og vínviður vaxinn. Leifur kannaði landið en snéri svo til Grænlands. Það eina sem er vitað með fullri vissu er að norrænir menn byggðu hús á Nýfundnalandi einhvern tímann kringum aldamótin 1000 sem hafa verið grafin upp í L’Anse aux Meadows.
Þýski presturinn Adam frá Brimum segir frá siglingum norrænna manna til Norður-Ameríku um aldamótin 1000, og segir frá því einni öld síðar.[11]
Brottflutningur
[breyta | breyta frumkóða]Eystribyggð fór í eyði um miðja 15. öld eða á síðari hluta þeirrar aldar. Í páfabréfi Nikulásar páfa 5.. frá 1448 segir að enginn biskup hafi verið á Grænlandi síðustu 30 árin og í bréfi Alexanders VI. páfa frá 1492 kemur fram að ekki hafi verið siglt þangað í 80 ár. Þrátt fyrir að ekkert samband var við Grænland hélt kaþólska kirkjan áfram að útnefna Garðabiskupa. 18 biskupar voru skipaðir eftir að eftir að sambandið slitnaði, sá síðasti 1537, enginn þeirra komust til biskupsdæmisins og aðeins einn þeirra, Mattías Knútsson biskup, hefði að sögn lýst yfir vilja til þess.[12] Í Grænlandslýsingu Ívars Bárðarsonar frá þvi um 1347 - 1360 er sagt frá því að hann hefði séð villt fé og byggingar í Vestribyggð en ekkert fólk. Árið 1378 andaðist Álfur, síðasti grænlandsbiskupinn sem bjó á Grænlandi. Frásögnin um giftingu íslenskra hjóna í Hvalsey árið 1408 síðasta skriflega heimildin um tilvist norrænnar byggðar á Grænlandi. Yngstu fornleifafundir frá Vestribyggð eru frá lok 14. aldar og frá miðri 15. öld frá Eystribyggð.[6]
Ýmsar tilgátur eru um hvers vegna Grænlendingar hurfu af sjónarsviðinu en engar þeirra hefur með nokkru móti verið hægt að sanna. Það hefur verið stungið upp á að álag eins og árásir inúíta, farsóttir eða sjóræningjaárásir og jafnvel erfðafræðileg hrörnun hafi stuðlað að endalokum norrænna Grænlendinga en ekkert í fornleifarannsóknum né DNA rannsóknum styður slíkar kenningar. Engin af uppgröfnum rústum sýnir merki þess að íbúar hafa flúið í skelfingu, hvorki frá árásum né farsóttum. Engar vísbendingar eru um átök við inúíta eða um vísvitandi skemmdir á húsum.

Fyrir utan gullhring sem fannst á beinagrind biskups í gröf hans á Görðum og biskupsstaf hans úr rostungstönn, hafa engin raunveruleg verðmæti fundist í neinum norrænum rústum á Grænlandi.[13] Haft er eftir Jette Arnenborg, Grænlandssérfræðingi á danska þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn, "Íbúarnir virðist hafa tekið alla dýrmæta muni, þar á meðal kirkjuklukkur, með sér og skilið eftir fyrirferðarmikla muni. Ég held að þeir hafi einfaldlega ákveðið að yfirgefa svæðið." [14]
Auk sjálfsþurftarbúskapar lifðu Grænlendingar af viðskiptum við Evrópu. Mikilvægasta útflutningsvaran voru rostungstennur sem voru mikil verðmæti og notuð í allskonar útskurð. Frá lok um 13. aldar jókst innflutningur fílabeins til Evrópu frá Afríku og það mettaði markaðinn og stórminkaði eftirspurn eftir rostungstönnum. Þetta kann að hafa verið ein ástæða þess að reglulegar skipaferðir milli Grænlands og Evrópu hættu í upphafi 15. aldar, sem leiddi til einangrunar byggðarinnar.[6]
Byggðirnar
[breyta | breyta frumkóða]


Þrjú landnámssvæði Grænlendinga eru þekkt:
- Eystribyggð í núverandi Kujalleq sveitarfélagi
- Miðbyggðin nálægt Arsuk og Ivittuut
- Vestribyggð á norðanverðu Nuuk- svæðinu.
Skriftlegar heimildir eru einungis um Eystribyggð og Vestribyggð, einu heimildirnar um miðbyggðina eru fornleifar. Í Íslendingasögum og öðrum rituðum heimildum eru tilgreind fjölmörg nöfn á byggðum, fjörðum og öðrum örnöfnum, en mörg þeirra er erfitt að tengja við staði eða landslag. Í Landnámabók segir frá því hvernig fyrstu landnámsmenn settust að á Grænlandi og nefndu heimili sín í Eystribyggð: Herjólfur Bárðarson settist að á Herjólfsnesi í Herjólfsfirði, Eiríkur rauði í Bröttahlíð í Eiríksfirði, Ketill í Ketilsfjörði, Hrafn í Hrafnsfirði, Sölvi Sölvadölum, Snorri Þórbrandsson í Álftafirði, Þorbjörn glóra á Siglufirði, Einar í Einarsfirði, Hafgrímur í Hafgrímsfirði og í Vatnahverfi, Arnlaugur í Arnlaugsfirði og Þórkell farserkur í Hvalseyjarfirði. Í Grænlendingaþætti er getið um grænlenska biskupa og kirkjur, en þær voru þá að því er virðist tólf í Eystribyggð og þrjár í Vestribyggð. Í lýsingu Ívars Bárðarsonar eru aðeins ellefu kirkjur nefndar í Eystribyggð og ein í Vestribyggð. Nokkuð er öruggt að eftirfarandi örnefni hafa verið auðkennd:
- Eiríksfjörður – Tunulliarfik
- Brattahlíð – Qassiarsuk
- Garðar - Igaliku
- Einarsfjörður – Igalikup Kangerlua
- Undir Höfða – Igaliku Kujalleq
- Dýrnes – Narsaq Ilua bei Narsaq
- Hvalsey – Qaqortoq
- Herjólfsnes – Ikigaat
- Ketilsfjörður – Tasermiut Kangerluat
- Ísafjörður – Sermilik
- Vatnahverfi – Tasikululik
- Sandnes – Kilaarsarfik í Ameralla
- Ánavík – Ujarassuit í Ujarassuit Kangerluat
Önnur örnefni hafa ekki verið tengd stöðum í dag eða um staðsetningu þeirra er deilt. Á fyrri hluta 19. aldar voru þegar þekktar um 80 rústir í Eystribyggð og 14 í Vestribyggð. Árið 2004 var búið að finna um 500 í Eystribyggð og Miðbyggðinni og um 95 í Vestribyggð. [6]
Eystribyggð
Eystribyggð var stærsta byggð norrænu Grænlendinganna. Þrátt fyrir nafnið var hún syðst á vesturströnd Grænlands. Byggðin náði frá Narsarmijit í suðri að Ikersuaq í norðri og náði því yfir 180 km frá norðri til suðurs. Flestir bæirnir voru innst í firðinum. Fornleifafræðingurinn Orri Vésteinsson telur að í Eystribyggð hafi verið 190 til 266 býli, og þau hafi skiptast í 14 sóknir.[15]
Meðal mikilvægustu fornleifa í Eystribyggð voru bæirnir Brattahlíð, Garðar, Herjólfsnes og Hvalsey . Brattahlíð var heimili Eiríks rauða og þar var sennilegast fyrsta kirkjan byggð. Garðar var þingstaður og biskupssetur. Í Hvalsey var best varðveittu kirkjurústir landsins. Þessi svæði eru nú á heimsminjaskrá UNESCO undir nafninu Kujataa síðan 2017.[16]
Miðbyggðin
Engar ritaðar heimildir eru um þessa byggð en nafnið er svæðisnafn fornleifafræðinga. Byggðin er talin hafa verið hluti af Eystribyggðar en var í um 150 km fjarlægð frá henni sjóleiðis. Það var á milli Tissaluup Ilua- fjarðar í Paamiut-héraði í norðri og Qoornoq- fjarðar í Ivittuut-héraði í suðri.
Vestribyggð
Vestribyggðin lá djúpt inni í fjörðum þar sem er nú Nuuk svæðið við firðina Nuup Kangerlua og Ameralik að sunnanverðu . Mikilvægustu fornleifasvæðin hér eru bæirnir Sandnes, Ánavík og hinn sögulega ónefndi Bærinn undir sandinum . Loftslag í Vestribyggð var meginlandsloftslag og því kaldara á veturna, yfirleitt þurrara og vaxtartími styttri en í Eystribyggð.
Hús og híbýli
[breyta | breyta frumkóða]
Þegar landnámsmenn sigldu til Grænlands seint á 9. öld fluttu þeir ekki aðeins með sér bústofn, innbú og áhöld. Þeir höfðu einnig með sér verkmenningu og hefðir, þar á meðal byggingarhefð. Þess vegna eru hús sem fundist hafa við fornleifarannsóknir á Grænlands náskyld húsum á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum frá þessum tíma að gerð og útliti.[17]
Við fornleifarannsóknir á undanförnum áratugum hafa allmargar byggingar frá fyrstu öldum norrrænnar Grænlandsbyggðar verið rannsakaðar. Landnámið virðist hafa átt sér stað í tveimur megináföngum, fyrst settust landnámsmennirnir að í frjósömustu og aðgengilegustu landsvæðum inn- og miðfjarðarsvæðanna og á skaganum milli Nordre Sermilik í norðri og Uunartoq-fjarðar í suðri sem varð að Vatnahverfi. Einni eða tveimur kynslóðum síðar dreifðist byggðin frá þessu kjarnasvæði til harðbýlli jaðarsvæða í ytri fjörðum og til innsveita sem lágu hærra og voru nær jöklum.

Flestir landnámsmenn bjuggu í húsum sem í daglegu tali eru oftast nefnd skálar. Í fornsögum er einnig stundum talað um eldaskála. Í eldaskálum sátu menn, unnu og mötuðust á setum við langelda og sváfu í þeim á nóttunni. Skálarnir voru frístandandi byggingar og útihús voru í upphafi ekki áföst við þá. Skálar eiga sér sögu sem er miklu eldri en landnám í Norður-Atlantshafi og hafa fundist alls staðar á hinu norræna menningarsvæði. Þetta var sú húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins í upphafi.
Landsnámsmenn hafa verið misvel efnum búnir og það kemur fram í stærð bygginga. Fyrstu húsakynnin endurspegla sennilega að einhverju leiti stærð þeirra húsa sem þeir áttu fyrir í heimalandi sínu og geta því gefið vísbendingu um hvort um stórbónda eða meðalbónda var að ræða. Þrátt fyrir hinn mikla stærðarmun á skálabyggingum eru þeir flestir svipaðir að gerð og yfirleitt auðgreindir frá síðari tíma húsum. Veggirnir eru hlaðnir úr torfi eða torfi og grjóti.
Niðurstöður rannsókna á Bænum undir sandinum í Vestribyggð á Grænlandi eru sem stendur besta vísbending um þróun torfbæja á þessu tímabili. Þessar rannsóknir á átta byggingarskeiðum benda til þess að svipuð þróun hafi átt sér stað á Grænlandi eins og á Íslandi. Ekki leið langur tími frá því að fyrstu skálarnir voru reistir þar til farið var að gera á þeim breytingar. Einu húsi eða herbergi er bætt við skálann að húsabaki eftir þörfum, en síðan bætast fleiri hús við þannig skapast gangabærinn, sennilega um 1300.[18] Gangabærinn var torfbær með löngum gangi sem önnur hús, svo sem eldhús, búr og baðstofa, lágu inn af. Einnig voru útiskemmur og gripahús oft sambyggð við gangabæinn. Í gangabænum varð baðstofan að aðalíveruhúsi heimilisfólks. Þar vann fólk, svaf og mataðist.[19] Í Bænum undir sandinum fundust meðal annars stórar trétunnur sem sýndu greinilega að ýmsar tegundir af sýrðum mjólkurafurðum höfðu verið búnar til. Þar var einnig auðséð að ullarnýting var mikilvæg fyrir Grænlendinganna og mátti sjá það um bæinn allan. Ýmsar gerðir af spunasnældum, halasnældur, snældusnúðar og tvinningarsnældur og vaðmálsbútar fundust hér og þar. Þar að auki fannst heil vefstofa með leifum af uppréttum vefstól 140 cm breiðum og yfir 90 kljásteinar. Talsvert fannst þar einning af leikföngum, sérstaklega útskornir fuglar og dýr.[20]
Nákvæm greining á lýsingum og mælingum á meira en 100 norrænum bæjum og nokkrum þúsund rústum í Eystribyggð hefur verið gerð. Þær sýna meðal annars að allt að 2/3 hlutar skráðra minjasvæða voru ekki sjálfstæðar jarðir heldur notaðar sem sel að sumarlagi. Fjöldi og hin víða dreifing minjasvæða sýnir að norrænu Grænlendingarnir nýttu allar möguleika til aðdráttar frá ystu ströndum að jaðri jöklanna. Mikill munur er á stærðum og umhverfi bóndabæjanna. Stærstir voru bæirnir sem einnig voru kirkjustaðir, stórbýlin. Aðalbyggingarnar á stórbæjunum, kirkjan, búsetuhúsið og fjósin lágu miðsvæðis en útihús og gripahús, geymsluhús, járnsmiðja og ef til vill fleiri á dreift um tún og nágrenni. Oft voru túngarðar úr torfi eða hlaðnir úr steini umhverfis túnin og húsin.
Stórbýlin eru svo greinileg að bera má kennsli á nokkra nafngreinda staði í miðaldaritum, þar á meðal Brattahlíð Eriks rauða (Qassiarsuk), Hvalsey (Qaqortukulooq) og Herjólfsnes (Ikigaat) í Eystribyggð og Sandnes (Kilaarsarfik í og Anasvík í Vesturbyggð. Biskupssetrið á Görðum (Igaliku) hefur sérstöðu sem langtum stærsta býlið á Grænlandi og einkennist sérstaklega af stórum útihúsum og geymslubyggingum ásamt dómkirkjunni. Mikill meirihluti bæjanna voru hins vegar mun minni og til þeirra heyrðu færri byggingar, oftast í þéttri þyrpingu og lítið tún. Ólíkt því sem var víðast annars staðar í Norður-Atlantshafi voru langflest smærri býlin ekki með neinskonar túngarða til aðgreiningar frá umhverfinu. Heimildir benda til að tiltölulega fáir stórbændur ásamt kirkjunni áttu eða réðu yfir mestum hluta byggðarinnar.
C-14 aldursgreiningar benda til að samdráttur byggðar hafi byrjaða snemma í Eystribyggð. Þessi samdráttur virðist hafa átt sér stað í þremur stigum: Fyrst voru býlin á annesjum og ytri fjörðum yfirgefin á 13. öld. Rúmri öld síðar var byggð í hálendari byggðum lögð niður, en stórbýlin á kjarnasvæðunum virðast hafa haldið áfram allt fram til loka norrænna byggðarinnar um miðja 15. öld. Jafnframt sýna fornleifarannsóknir á kirkjunum að litlu bændakirkjurnar voru yfirgefnar á 13. öld og eftir voru sóknarkirkjur á stórbæjum.
Uppgröftur þessara minja ásamt mælingum á stærð kirkjugarðanna miðað við fjölda grafa og fjölda bæja benda til þess að íbúafjöldi beggja byggðanna samanlagt hafi varla farið yfir 2500-3000 manns, jafnvel þegar fólksfjöldinn var sem mestur.
Skipulag kirkna sem tengjast stærstu bæjunum breyttist einnig töluvert í gegnum aldirnar. Elstu kirkjubyggingarnar voru litlar ferkantaðar byggingar með þremur steinveggjum og einum timburvegg, umkringd hringlaga varnargarði og innan þess kirkjugarðurinn. Dómkirkjan í Görðum var af rómanskri gerð með þykkjum veggjum og grunnflöturinn myndaði kross og þar voru tvær kapellur auk kórsins.[21]
Lífshættir og fæðuframboð
[breyta | breyta frumkóða]Lífskjörin voru að mestu leiti svipuð og á Íslandi enda búskaparmöguleikar ekki ólíkir á mörgum stöðum.[22] Við uppgröft við kirkjugarðinn hjá Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð árið 1962 kom í ljós að meðalhæð karla hafði verið 171 cm - nokkrir voru 184–185 cm - og kvenna 156 cm; þetta er hærra en meðalhæð var í Danmörku um 1900. Allir voru með góðar tennur, þó verulega slitnar, og engin tannskemmd. Algengasta sjúkdómurinn sem fannst í beinagrindunum var alvarleg þvagsýrugigt í baki og mjöðmum.[6]
Mataræði
[breyta | breyta frumkóða]Norrænu Grænlendingarnir stunduðu jöfnum höndum landbúnað og veiðar. Landnámsmenn höfðu með sér sauðfé, geitur, svín, kýr, hesta, hunda og ketti (og þar að auki húsamýs) frá Íslandi. Svín virðist hafa horfið fljótlega úr búskapnum. Sauðfé og geitur virðast að mestu hafa gengið úti á vetrum. Komið hefur á óvart hversu mikilvægar kýr voru í búskap Grænlendinga. Á minni bæjum voru 2 - 4 kýr en á stórbæjum mun fleiri, til dæmis á Hvalsey, um 16 kýr, og á Görðum þar sem hægt var að hýsa um hundrað nautgripi. Á minni bæjum voru geitur algengastu gripirnir. Veiðiskapur skipti miklu, bæði fiskveiði og sel- og hreindýraveiði.
Í Konungs skuggsjá er sagt að á 13. öld hafi grænlenskir bændur fyrst og fremst lifað á kjöti, skyri, smjöri og osti en að flestir bændur vissu ekki hvað brauð var. Fundir sýna að einstaka stórbóndi í Eystribyggð ræktaði bygg í litlum mæli.[23] Ísótópagreiningar sýna að með tímanum jókst meðalmagn sjávarfangs í fæðunni allt frá landnáminu um 980 fram til miðju 13. aldar, þegar norrænir menn hverfa úr sögunni, úr innan við 40% í meira en 60%. Hjá sumum rannsökuðum einstaklingum kom um 80% af fæðu þeirra úr sjó á lokatímabilinu. Bein úr sjávarspendýrum, fyrst og fremst selum, jókst einnig mikið samanborið við húsdýra og hreindýra bein.[24] Tiltölulega lítið hefur fundist af fiskibeinum sem hefur leitt til vangaveltu um að norrænu Grænlendingarnir hafi ekki stundað fiskveiði. Nýlegar rannsóknir sýna að þetta stenst ekki. Við uppgröft á Bænum undir sandinum fannst talsvert magn fiskbeina og er það mesti fundur um fiskveiðar frá norrænum stað á Grænlandi. Þessi bein fundust með því að sigta jarðveginn þar sem ýmsum úrgangi hafði verið hennt (svo kölluðum køkkenmødding). Þar sem fiskibein eru smá og og rotna fljótt sundur, samhliða því að fiskibeinin fundust aðeins í sigtuðum sýnum, bendir það til þess að fiskneysla hafi gegnt stærra hlutverki í fæuöflun en fjöldi fiskibeinafunda gefa til kynna. Meirihluti fiskibeinanna var af bleikju (Salvelinus alpinus), þorski (Gadus morhua) og loðnu (Mallotus villosus). Fyrir utan fiskibeinin fundust einnig önglar úr hreindýrahorni. Svo virðist sem víða hafi verið talsverð fiskveiði, fornleifafræðingar hafa víða fundið flot og lóð til að nota við net, enda nefnir Ivar Bárðarson í Grænlandslýsingu sinni að mikil silungaveiði sé í vötnunum í Vatnahverfi.[25]
Landnámsmenn á Grænlandi fluttu með sér ætihvönn (Angelica archangelica) og má finna hana við flestar rústir norrænna híbýla. Hvönnin var öll notuð, blaðstilkar, laufið og fræin og ræturnar voru þurrkaðar. Hún inniheldur mikið C-vítamín sem kemur í veg fyrir skyrbjúg og aðra kvilla og var þess vegna mikilvæg fyrir næringu Grænlendinga eins og Íslendinga. Í Grágás er til dæmis kveðið á um viðurlög við stuldi á hvönn, útlegð eða sekt ef teknar voru hvannir í annarra garði.[26]

Fötin frá Herjólfsnesi
[breyta | breyta frumkóða]
Einn mikilvægasti fornleifafundur sem hefur verið gerður á Grænlandi átti sér stað árið 1921 þegar danski fornleifafræðingurinn Poul Nørlund gróf í kirkjugarði á Herjólfsnesi. Þar fann hann fatnað frá 15. öld og er þetta stærsti fundur miðaldafatnaðar í menningarheimi Vestur-Evrópu. Föt af þessu tagi þekktust einungis frá samtímamyndum en þessi fundur sýndi hvernig venjulegir Evrópubúar klæddu sig á miðöldum.
Flestir hinir látnu höfðu verið grafnir í timburkistum sem greinilega höfðu margar hverjar verið endurnýttar en mörg líkin voru reifuð í mörg lög af aflóga klæðum. Þessar miðaldaflíkur höfðu varðveist ósnortnar um aldir í sífreranum (permafrost) og eru ótrúlega líkar vestur-evrópskum búningum fá sama tíma. Það sést ekki síst á hettu upprunni í Burgúnd á 13. öld. Þau voru einstaklega vel varðveitt og voru 23 alklæðnaðir karla og kvenna auk þriggja barna fluttir á Þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn. Þar að auki 16 hettur, fjórir hattar og nokkrir sokkar. C-14 aldursgreiningar sýna að yngstu grafirnar eru frá 1430 til 1440. Öll þessi klæði voru unnin úr ull á Grænlandi en snið þeirra sýnir að Grænlendingar fylgdust vel með tískubreytingum í Evrópu.
Litur fatnaðarins var orðinn brúnn eftir að hafa legið í moldinni í mörg ár en nákvæm greining sýnir að fötin voru gerð í náttúrulegum ullarlitum allt frá ljósgráum og ljósbrúnum til svörtum. Föt á eitt barn hafði upphaflega verið mjallhvít. Sumar hetturnar voru litaðaðar ljósfjólubláir með grænlenskum glæðum (fræðiheiti: Xanthoria parietina) og einn búningur var kantaður með rauðu bandi, litað með innfluttri krapprót (fræðiheiti: Rubia tinctorum). [27]
Verslun
[breyta | breyta frumkóða]Innflutningsvörur
[breyta | breyta frumkóða]Við landnám voru innfirðir og heiðar vaxnar kjarr- og skóglendistegundum, ilmbjörk (Betula pubescens), fjalldrapi (Betula glandulosa) og víðir (Salix) á Grænlandi. Þessar tegundir dugðu ekki sem byggingartimbur. Því var timbur mikilvæg innflutningsvara. Sumt af þessu timbri kom mögulega sem tilbúnir gripir, eins og tunnustafir, notað timbur úr skipum var einnig notað í húsabyggingar. Til að rannsaka uppruna timburs á Grænlandi skoðaði Lísabet Guðmundsdóttir frá Háskóla Íslands trjáleifar frá fimm norrænum bæjum, þar af fjórum meðalstórum bújörðum og biskupssetrinu í Görðum. Gerðar voru rannsóknir á 8.552 viðarbútum. Með því að skoða þunna viðarhluta í smásjá var hægt að rannsaka frumubygginga viðarbútannna og var hægt að finna uppruna og tegundir viðarins. Öll sýnin voru einnig tímagreind. Um 36% av öllum sýnum voru innlendar tegundir. Af heildinni reyndist rekaviður vera um 25%, það er lerki (Larix), greni (Picea) og skógarfura (Pinus sylvestris). Innfluttur viður kom frá Evrópu, meðal annars eik (Quercus), beyki (Fagus) og fura. En þar voru einnig trjátegundir sem án efa komu frá austurströnd Norður-Ameríku, kanadaþöll einnig kölluð skógarþöll (Tsuga canadensis), gráfura (Pinus banksiana) og Sandfura (Pinus strobus) Það þýðir að Grænlendingarnir hljóta að hafa sótt timbur frá Norður-Ameríku. Labradorstraumurinn flæðir úr Norður-Íshafi meðfram strönd Labrador, umhverfis Nýfundnaland og áfram suður með Nova Scotia þannig að þetta gettur getur ekki hafa verið rekaviður. Þessar niðurstöður benda á að norrænir Grænlendingar höfðu aðstöðu, þekkingu og skipakost til að fara yfir Davis sundið til austurstrandar Norður-Ameríku að minnsta kosti allt fram að lok fjórtándu aldar.[28]
Verkfæri úr járni var en af forsendum norrænnar verkmenningar á miðöldum. Þetta gildi eins fyrir Grænlendingana, enda hafa smiðjur fundist við öll stórbýlin. En allt bendir til að það hafi verið mikill járnskortur í norrænu byggðinni og aukist mjög á seinni tímum hennar. Öll verkfæri eins og axir, ljáir og hnífar sem hafa fundist hafa verið brýnd þangað til lítið var eftir. Svo nefndur rauðablástur þar sem járn er brætt úr mýrarrauða var mjög algeng vinnsluaðferð í Noregi fyrir landnám Íslands og aðferðin fluttist með norskum landnámsmönnum þangað og var mikið stunduð.[29] Hins vegar eru sárafá dæmi um að Grænlendingarnir hafi stundað rauðablástur. Vísindaleg greining hefur verið gerð með rafeindasmásjá og örgreining á gjallinnihaldi á fjölda járnhluta fundnum í fornum norrænum bæjarrústum. Auðsýnt er að mikill hluti járnverkfæra og annara hluta hafði verið unninn úr norskum járngrýti og sennilega borist sem fullunnin vara frá Noregi. Fundir af hreinsunargjalla í smiðjum bæði í Eystribyggð og Vestribyggð sýnir hins vegar að járnsori eða gjall var stundum flutt inn frá Noregi og síðan unnið endanlega á Grænlandi.[30]
Útflutningsvörur
[breyta | breyta frumkóða]
Vitað er að á miðöldum voru rostungaafurðir ein mikilvægasta útflutningsvara hinna norrænu Grænlendinga til Evrópu. Voru það annars vegar skögultennurnar sem voru mikil verðmæti og voru seldar í Evrópu í stað hins eiginlega fílabeins og notaðar í alls konar útskurð en heimamenn gerðu einnig úr þeim margvíslega gripi. Hinsvegar var það rostungshúðin sem var flegin af skrokknum í löngum lengjum og úr þeim gerð gífurlega sterk svo nefnd svarðreipi sem einnig voru flutt út.
Ísbjarnarfeldir voru einnig mjög eftirsóttir og þóttu verðug konungsgjöf. Á nokkrum stöðum er minnst á að lifandi ísbirnir hafi verið fluttir frá Grænlandi en það hljóta að hafa verið húnar og þeir sennilega ekki veiddir í Norðursetu.
Á miðöldum voru fálkar taldir fuglar konunga. Þeir eru notaðir í sérstaka íþrótt, fálkaveiðar, sem var áður fyrr nánast eingöngu stunduð af konungum og aðli og voru slíkir fálkar nefndir slagfálkar. Mjög eftirsótt útflutningsvara frá Grænlandi var Hvítfálkinn (Falco rusticolus candicans) og komust þeir meiri segja til arabalandanna eftir flóknum viðskiptaleiðum. Landfræðingurinn og sagnfræðingurinn Ibn Sa'id al-Maghribi (d. 1286) lýsti meðal annars eyjum í norðanverðu Atlantshafinu vestur af Írlandi þaðan sem þessir hvítu fálkar væru fluttir út og að egypski sultáninn greiddi 1.000 dínara fyrir hvern fálka (eða, ef hann kom dauður, 500 dínara).[31]
Langdýrasti varningurinn voru þó líklega tennur náhvalana. Þær þóttu miklar gersemar enda héldu Evrópumenn að þær kæmu frá einhyrningum og hefðu mikið dulkynngi.[32]
Fjölmargar heimildir nefna Norðursetu langt norðan við byggðirnar sem mikilvægasta veiðisvæði Grænlendinga hinna fornu og þar voru rostungarnir, náhvalir og ísbirnir veiddir. Meðal annars er sagt í Grænlandsannál í Hauks bók að: „Allir stórbændur á Grænlandi höfðu skip stór ok skútur bygðar til að senda í Norðursetu til að afla veiðiskap.“ Veiðimenn voru sennilega sendir norður í veiðar seinnipart sumars og fram á haust, annars höfðu þeir vetursetu á veiðisvæðinu.
Rúnir á Grænlandi
[breyta | breyta frumkóða]
Um 80 rúnaristur hafa fundist á Grænlandi, af þeim hafa 45 fundist í Eystribyggð og hinar í Vestribyggð með einni undantekningu. Á eyjunni Kingittorsuaq norðvestur af Upernavik á því svæði sem norrænir menn á Grænlandi nefndu Norðursetu hefur einn rúnasteinn fundist.
Elsta rúnaristan er rúnakeflið frá Narsaq sem álitið er frá byrjun 11. aldar og fannst við Narsaq í Kujalleq-sveitarfélaginu. Næstelsta ristan er frá upphafi 13. aldar, legsteinn frá Brattahlíð.
Flestar aðrar rúnaristur eru sennilega frá 14. og 15. öld. Meðal merkilegri funda eru ýmis áhöld með rúnaristum sem fundust við uppgröft á Bænum undir sandinum í Vesturbyggð. Af rúnaristunum má marka að mál norrænna manna á Grænlandi hafi verið íhaldsamt og sú tunga sem landnámsmenn höfðu með sér frá Íslandi og Noregi hafi tekið fremur litlum breytingum. Einnig má sjá að Grænlendingar héldu fast við þau rúnaform sem tíðkuðust á Norðurlöndum um árið 1000.
Skrælingjar
[breyta | breyta frumkóða]Eins og að ofan er nefnt var engin byggð á sunnanverðu Grænlandi þegar norrænir menn hófu landnám sitt þar. Það var einungis við Smith-sund, nyrst á Grænlandi, sem Dorset-fólk hafði búsetu á þessum tíma. Það er með öllu óvíst hvenær norrænu Grænlendingarnir hittu fyrir aðra íbúa í landinu. Skrælingjar á Grænlandi eru nefndir á ýmsum stöðum í bréfum og öðrum miðaldaheimildum. En enginn efi er á að samskipti voru mjög stopul fyrstu aldirnar.
Hauksbók, sem skráð var í upphafi 14. aldar, er sagt frá því að sumarið 1266 hafi menn komið úr Norðursetu sem hafi farið lengra norður en áður hafi verið farið en ekki fundið nein merki um skrælingja þar sem þeir hafi áður verið við Króksfjarðarheiði. Sendu þá prestar skip norður til að kanna það svæði sem lá norðan við hefðbundnar veiðislóðir í Norðursetu. Fundu leitarmenn spor eftir skrælingja en enga menn.
Ber þessu vel saman við fornleifafundi sem sýna að á 13. öld hurfu Dorset-menn frá Grænlandi, fyrst frá Diskó-flóa og síðan frá svæðinu í kringum Smith-sund. Samkvæmt fundum námu Thule-inúítar land við Smith-sund á seinni hluta 13. aldar og fluttust á næstu öldum suður vesturströndina og einnig norðaustur yfir.
Hafa þeir fljótlega farið að hitta á norræna menn í Norðursetu. Óvíst er hvers eðlis þau kynni voru, engar frásagnir eru um verslunarviðskipti þó svo að þau hafi getað átt sér stað en allnokkrar frásagnir um skærur. Samkvæmt frásögu Ívars Bárðarsonar eru skrælingjar sestir að í Vestribyggð um miðja 14. öld. Þegar norrænir menn yfirgefa Grænland á seinnihluta 15. aldar búa skrælingjar meðfram allri strandlengjunni og eru einu íbúar landsins.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- 'Grønlands forhistorie, red. Hans Christian Gulløv, Gyldendal 2005, ISBN 87-02-01724-5
- Á hjara veraldar, Guðmundur J. Guðmundsson, Sögufélagið, 2005, ISBN 9979-9636-8-9
- Finnur Magnússon, Carl Christian Rafn (Ritstjórar): Grønlands Historiske Mindesmærker. Band 1–3, 1845. Det Kongelige Nordiske Oldskriftselskab.
- Jette Arneborg: Det europæiske landnam – Nordboerne i Grønland. Hans Christian Gulløv (Ritstjóri): Grønlands forhistorie. Gyldendal, 2004, ISBN 87-02-01724-5, .
- Jørgen Meldgaard: Nordboerne i Grønland. En vikingerbygds historie. Munksgaards Forlag, 1965
- Knud J. Krogh: Erik den Rødes Grønland – Qallunaatsiaaqarfik Grønland. 2. Auflage. Nationalmuseets Forlag, 1982, ISBN 87-480-0434-0 .
- Niels Lynnerup: The Greenland Norse – A Biological-anthropological Study. Meddelelser om Grønland – Man & Society. Band 24). Dansk Polarcenter, 1998, ISBN 978-87-635-1245-9 .
- Arnved Nedkvitne, (2019) Norse Greenland. Viking Peasants in the Arctic. Routledge, ISBN 978-0-8153-6629-4
- Else Østergård. Woven into the Earth - Textile Finds in Norse Greenland. 2004 Útg. Aarhus Universitetsforlag ISBN 10 8772889357
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Niels Lynnerup (2014–2018). Endperiod demographics of the Greenland Norse (enska). Journal of the North Atlantic Special Volume 7: Viking Settlers of the North Atlantic: An Isotopic Approach. bindi. Eagle Hill Institute. bls. 18-24.
- ↑ 2,0 2,1 Ólafur Halldórsson (1978). Grænland í miðaldaritum. Sögufélagið.
- ↑ Finnur Magnússon ]; C. C. Rafn. Skáldhelgarímur_(Anonyme_skjaldekvad). Grønlands historiske mindesmærker II.
- ↑ 4,0 4,1 Jørgen Meldgaard (1965). Nordboerne i Grønland. En vikingerbygds historie (danska). Munksgaards Forlag. bls. 37.
- ↑ Jette Arneborg (1989). Nordboarkæologiens historie – og fremtid. Nr. 1989/5, . bindi. Tidsskriftet Grønland. bls. 121–137.
{{cite book}}
:|volume=
has extra text (hjálp) - ↑ 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 6,6 6,7 6,8 Jette Arneborg (2004). Det europæiske landnam – Nordboerne i Grønland (enska). Gyldendal. bls. 247–257 og 235–238. ISBN 87-02-01724-5.
- ↑ ritstjórar Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson (1987). Íslendingasögur II. Svart á hvítu. bls. 820.
- ↑ Réttarstaða Grænlands að fornu. 49. bindi. Andvari. 1924. bls. 55.
- ↑ Alexandra Sanmark (2009). The Case of the Greenlandic Assembly Sites. Journal of the North Atlantic Special Volume 2: Norse Greenland - Selected Papers from the Hvalsey Conference 2008. bindi. Eagle Hill Institute. bls. 178-192.
- ↑ Jette Arneborg; ritstjórar Adrian Howkins og Peder Roberts] (2023). The Cambridge History of the Polar Regions (enska). Cambridge University Press Print. bls. 129 - 152.
- ↑ Gunnar Karlsson (Febrúar 2000). „Hvor var á undan að finna Ameríku, Leifur heppni eða Bjarni Herjólfsson?“. Visindavefur.
- ↑ Laurence Larson (1919). The Church In North America. Vol. 5, No. 2/3. bindi. Catholic Historical Review. bls. 193.
{{cite book}}
:|volume=
has extra text (hjálp) - ↑ Andrew J. Dugmore, Thomas H. McGovern, Orri Vesteinsson, Jette Arneborg, Richard Streeter og Christian Keller, (2012). Cultural adaptation, compounding vulnerabilities and conjunctures in Norse Greenland. National Academy of Sciences.]
- ↑ Jette Arneborg (2011). Norse Greenland – research into abandonment. 40 years of medieval archaeology at Aarhus University. AArhus University.
- ↑ Orri Vésteinsson (2009). Parishes and Communities in Norse Greenland. Special Volume 2: Norse Greenland - Selected Papers from the Hvalsey Conference 2008. bindi. Journal of the North Atlantic. bls. 138–150.
- ↑ Christian Koch Madsen; Jette Arneborg (2022). Landbrug på randen af indlandsisen (enska). Trap Danmark / Gads Forlag. bls. 118. ISBN 978-87-7181-505-4.
- ↑ Guðmundur Ólafsson (2004). Frá skála til gangabæjar : húsagerð á miðöldum. Þjóðminjasafn Íslands. bls. 130-139. ISBN 9789979950776.
- ↑ Guðmundur Ólafsson; Svend E. Albrethsen (1998). „Bærinn undir sandinum“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1998. bindi. Hið íslenzka fornleifafélag. bls. 99-124.
- ↑ Hörður Ágústsson (1987). Íslenski torfbærinn. Íslensk Þjóðmenning I. Uppruni og umhverfi. Bókaútgáfan Þjóðsaga. bls. 227-346.
- ↑ Joel Berglund (2001). Omkring dagliglivet på Gården under Sandet (danska). Tidsskriftet Grønland 2001. Nr. 7. 49 árg.. bindi. Det Grønlandske Selskab ].
- ↑ Dorthe Dangvard Pedersen; Jette Arneborg, Frederikke Reimer, Rikke Dahl Olsen, (2021). Excavations at the cemetery at Garðar, Igaliku, 2021 (PDF) (enska). Activating Arctic Heritage.
- ↑ Mulville, Jacqui og J. Thoms (2007). Settlement, sustainability, and environmental catastrophe in Northern Iceland (enska). 109. bindi. American Anthropologist. bls. 27-51.
- ↑ C. D. Morris og J. Rackham (1992). Norse and Later Settlement and Subsistence in the North Atlantic. Glasgow University Press. bls. 157–186.
- ↑ Arneborg, J, Lynnerup, N & Heinemeier, J (2012). ‘Human Diet and Subsistence Patterns in Norse Greenland A.D. c.980 – A.D. c.1450. Special Volume 3: Greenland Isotope Project: Diet in Norse Greenland AD 1000-AD 1450. bindi. Journal of the North Atlantic. bls. 51-64.
- ↑ Inger Bødker Enghoff Hunting, fishing and animal husbandry at The Farm Beneath The Sand, western Greenland (2003). Hunting, fishing and animal husbandry at The Farm Beneath The Sand, western Greenland. Meddelelser om Grønland. Vol. 28. bindi. Kommissionen for Videnskabelige undersøgelser i Grønland.
- ↑ Sigmundur Guðbjarnason (2023). „Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd?“. Vísindavefur.
- ↑ Else Østergård (2004). Woven into the Earth - Textile Finds in Norse Greenland (enska). Aarhus Universitetsforlag. ISBN 8771244379.
- ↑ Lísabet Guðmundsdóttir (2023). Timber imports to Norse Greenland: lifeline or luxury? (enska). Cambridge University Press].
- ↑ ÓSÁ (2003). „Rauðablástur – Mýrarrauði“. FERLIR.
- ↑ Vagn Fabritius Buchwald (2001). Ancient iron and slags in Greenland. Meddelelser om Grønland Vol. 26. bindi. Meddelelser om Grønland. Man & Society.
- ↑ Eugene Potapov og Richard Sale (2005). The Gyrfalcon (enska). T & A D Poyser. bls. 232. ISBN 0713665637.
- ↑ Roussell, Aage (2005). “Walrus Ivory- demand, supply, workshops, and Greenland”. Viking and Norse in the North Atlantic:Select Papers from the Proceedings of the 14th Viking Congress, . bindi. Annales Societatis Scientarium Faeroensis XLIV,. bls. 182-192.