Norræna endurreisnin

Norræna endurreisnin er tímabil í listasögunni þegar ítalska endurreisnin barst norður fyrir Alpafjöll seint á 15. öld. Deilt er um að hve miklu leyti hún byggðist á sérstakri þróun í Norður-Evrópu eða ítölskum áhrifum.[1] Hún á sér ólíkar birtingarmyndir í ólíkum löndum, þannig að oft er talað um þýsku, frönsku, ensku, niðurlensku og pólsku endurreisnina sérstaklega.
Elstu flæmsku málararnir (frá um 1420) eru ýmist flokkaðir sem lokaskeið síðgotneskrar myndlistar, sem upphaf norrænu endurreisnarinnar eða sérstæð þróun.[2] Vaxandi verslun í kringum hafnarborginar Brugge á 15. öld og Antwerpen á 16. öld skapaði stétt auðugra borgara sem keyptu verk af listamönnum. Aukinn samgangur milli Niðurlanda og Ítalíu varð til þess að listamenn fluttust þar á milli. Frans 1. Frakkakonungur réði ítalska listamenn, eins og Leonardo da Vinci, í sína þjónustu. Flæmskir og þýskir listamenn, eins og Pieter Brueghel eldri og Albrecht Dürer, fóru í námsferðir til Ítalíu og héldu tengslum þangað út feril sinn.[3] Hallir í ítölskum og frönskum stíl voru reistar á Englandi í valdatíð Hinriks 7. og Hinriks 8.
Endurreisnin breiddist út með háskólum og prentun bóka. Rabelais, Pierre de Ronsard og Desiderius Erasmus voru undir áhrifum frá húmanismanum. Norræna endurreisnin tengdist líka siðaskiptunum og átökum milli mótmælenda og kaþólskra.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Vale, M. (2020). A Short History of the Renaissance in Northern Europe. Bloomsbury.
- ↑ Wijsman, Hanno (2010). „Northern Renaissance?“. Burgundy and Netherlandish Art in Fifteenth-Century Europe. Brill. bls. 269–288.
- ↑ Golahny, A. (2013). „Italian Art and the North: Exchanges, Critical Reception, and Identity, 1400–1700“. A Companion to Renaissance and Baroque Art. bls. 106–126. doi:10.1002/9781118391488.ch5.
- ↑ Strathern, P. (2023). The Other Renaissance: From Copernicus to Shakespeare: how the Renaissance in Northern Europe Transformed the World. Simon and Schuster.