Fara í innihald

Ningbo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nokkrar myndir frá Ningboborg. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Ningbo um 9,4 milljónir manna.
Staðsetning Ningbo borgar í Zhejiang héraði í Kína.
Staðsetning Ningbo borg í Zhejiang héraði í Kína.

Ningbo (kínverska: 宁波; rómönskun: Níngbō; áður rómönskun: Ning-po) er stórborg í norðausturhluta Zhejiang héraðs í Alþýðulýðveldinu Kína.

Ningbo (sem merkir á kínversku „friðsælar öldur“) er staðsett á láglendri strandsléttu við Yong-fljót, þar sem tvær þverár, Yuyao og Fenghua mætast. Borgin er staðsett um 25 kílómetra frá mynni fljótsins við Hangzhou-flóa, Austur-Kínahafi.[1]

Borgin er mikilvæg menningar-, iðnaðar-, viðskipta -, og samskiptamiðstöð. Ningbo eru á kínverskan mælikvarða talin vera auðug borg.

Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Ningbo 3.731.203 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 9.404.283. Borgin skiptist í sex þéttbýlishluta , tvær undirborgir og tvö dreifbýlissveitarfélög, þar á meðal nokkrar eyjur í Hangzhou-flóa og í Austur-Kínahafi.

Höfn borgarinnar, Ningbo-Zhoushan, sem er dreifð yfir nokkra staði, er eins sú fjölfarnasta í heiminum miðað við fjölda farmtonna og ein af stærstu gámahöfnum heims.

Kort af Ningbo á 19. öld.
Tianfeng pagóðan í Ningbo var upphaflega byggð á tíma Tangveldisins.
Mannfjöldaþróun Ningbo borgar frá upphafi í milljónum talið. Árið 2020 töldu borgarbúar um 9,4 milljónir.

Búseta þar sem Ningbo er nú við láglenda strandsléttu Yong-fljóts, hefur langa og ríka menningarsögu sem nær aftur til Jingtou fjallamenningarinnar árið 6300 f.Kr. og Hemudu menningarinnar árið 4800 f.Kr. Svæðið var þekkt til viðskipta á silkiveginum fyrir að minnsta kosti tvö þúsund árum síðan, og einnig sem hafnaraðstaða fyrir viðskipti.

Eftir að Gouzhang-sýsla, sem liggur skammt austar, var flutt til þess sem nú er Ningbo árið 625, var hún gerð að sjálfstæðu stjórnsýslusetri árið 738. Árið 908 var nafni sýslusetursins, sem hafði verið Mao Xian frá 625, breytt í Yin Xian.

Á tíma Tangveldisins

[breyta | breyta frumkóða]

Ningbo varð mikilvæg viðskiptahöfn á síðari hluta 5. aldar, þegar kóreskir sjófarendur töldu hana hentuga fyrir samskipti við höfuðborgarinnar Jiankang (nú borgin Nanjing). Á tímum Tangveldisins, ættarveldisins sem ríkti yfir Kína frá 618 til 907, hélt hélt þessi umferð áfram. Þrátt fyrir að opinber samskipti féllu niður eftir 838 héldu einkaviðskipti áfram í stórum stíl. Á 11. öld varð Ningbo miðstöð strandverslunar. Mikilvægi þess jókst með stofnun höfuðborgarinnar Nan Song í Hangzhou árið 1127, þegar erlend viðskipti höfuðborgarinnar streymdu í gegnum Ningbo. Staðurinn óx hratt á valdatíma Song (960–1279).

Á tíma Suður-Song ættarveldisins (1127 -1279) bjuggu arabískir kaupmenn í Ningbo, þá þekkt sem Mingzhou. Annað nafn á Mingzhou eða Ningbo var Siming. Staðurinn var þekktur sem viðskiptamiðstöð hafskipa. Þessir farkaupmenn blönduðust ekki innfæddum Kínverjum, þeir iðkuðu eigin siði og trú og bjuggu í einangruðum hverfum. Þeir reyndu ekki að boða Kínverjum íslam. Það var einnig stórt gyðingasamfélag í Ningbo, eins og sést af þeirri staðreynd að eftir að mikið flóð árið 1642 eyðilagði Torah bókarollur í hinni fornu borg Kaifeng, voru ný helgirit gyðingdómsins sótt til Ningbo.

Þéttbýlið hélt nafninu Yin Xian í gegnum mongólska Júanveldið (1206–1368). Árið 1381 fékk það nafnið Ningbo og hélt því nafni þar til 1912, uns það tók aftur upp formlega nafnið Yin Xian. Nafnið Ningbo var svo aftur tekið upp við stjórnsýslubreytingar til að mynda nýja borg árið 1949.

Á tíma Mingveldisins

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrri hluti valdatíma Mingveldisins (1368–1644) var Ningbo erfiður. Erlend viðskipti voru skert af stjórnvöldum; smíði hafskipa bönnuð; og strandverslun takmörkuð. Japanskir ​​sjóræningjar réðust á Ningbo.[2] Staðurinn staðnaði fram að síðasta fjórðungi 15. aldar, uns nærliggjandi héruð réttu úr kútnum. Hagvöxtur jókst þegar Portúgalar hófu viðskipti í Ningbo árið 1522, fyrst ólöglega en síðar (eftir 1567) löglega. Borgina hafði lengi eftir það hið portúgalska nafn „Liampó“. Seinna bættust hollenskir ​​og breskir kaupmenn í hópinn. Kaupmenn Ningbo fóru að eiga viðskipti upp eftir Kínaströnd allt frá Mansjúríu í Norðaustur Kína, til Guangzhou, sem og Filippseyjar og Taívan. Ningbo var verslunarstöð strandsléttunnar austan Shaoxing og úthöfn fyrir ósasvæði Jangtse-fljóts (Bláá), sem það var tengt við með Zhedong skurðinum (Hangzhou–Ningbo) sem var hluti Miklaskurðar og tengdi sem leiddi til Shaoxing og Qiantang árnar. Fyrir vikið varð Ningbo mikilvægur staður fyrir innri viðskipti Kína á 17. og 18. öld.

Ningbo „sáttmálahöfn“

[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfar ópíumstríðanna 1839–1842 var kínversku stjórnina neydd til að opna fyrir utanríkisviðskipti í fimm hafnarborgum með undirritun Nanking-sáttmálans svokallaða árið 1842. Ningbo var ein þessara „sáttmálahafna“ og árið 1843 var borgin því opnuð fyrir utanríkisviðskipti. Síðar dró úr viðskiptum þar og viðskiptin færðust meir til Sjanghæ sem liggur um 220 kílómetra norður af Ningbo.[3]

Samtímaborgin

[breyta | breyta frumkóða]
Tianyi torgið í Haishu hverfi Ningbo borgar.
Hangzhou-flóabrúin er sexakreina tollbrú sem styttir flutningstíma á þjóðveginum milli Ningbo og Sjanghæ úr fjórum klukkustundum í tvær.
Ningbo Zhoushan höfnin er stærsta höfn í heimi hvað varðar árlega farmflutning í tonnum talið.
Háhraðalest í Ningbo borg.

Í dag er Ningbo er staðbundin verslunarmiðstöð og annasöm höfn í norðausturhluta Zhejiang héraðs.[4]

Góðar járnbrautar- og hraðbrautartengingar er við Sjanghæ borg um Hangzhou og nýja Hangzhou-flóabrú sem opnuð var árið 2008 og tengir Ningbo beint við Sjanghæ-svæðið. Hangzhou-flóabrúin er 36 kílómetrar að lengd og er ein lengsta sjóbrú heims.

Ningbo Zhoushan höfnin

[breyta | breyta frumkóða]
Landakort er sýnir staðsetningu Ningboborgar (rauðmerkt) í Zhejiang héraði (appelsínugult).

Ningbo Zhoushan höfnin er í Beilun hverfinu, austur af borginni á suðurströnd Hangzhou-flóa, er ein stærsta djúpsjávarhöfn Kína sérstaklega útbúin fyrir gámaflutninga. Hún er stærsta höfn í heimi hvað varðar árlega farmflutning í tonnum talið. Árið 2019 náði farmflutningurinn 1.119 milljónum tonna og var stærst í heiminum 11 árið í röð. Höfnin er langstærsta umskipunarhöfn fyrir járngrýti og hráolíu í Kína. Um 40% olíuafurða Kína, 30% járngrýtis, og 20% af kolabirgða Kína fara um höfnina. Hún er mikilvæg geymslu- og flutningsstöð fyrir ýmis fljótandi efni, kola- og korngeymslustöð.

Ningbo er einnig miðstöð strandferða of vatnsflutninga um viðamikla skipaskurði í nágrenni borgarinnar. Borgin er söfnunarstöð fyrir bómull og aðrar landbúnaðarafurðir á sléttunni, fyrir sjávarafurðir staðbundins sjávarútvegs og fyrir timbur frá nálægum fjöllunum. Borgin er einnig dreifingarstöð fyrir kol, olíu, vefnaðarvöru og ýmsa neytendavörur.

Árið 1984, þegar kínversk stjórnvöld boðuðu meira frjálslyndi, var Ningbo útnefnd ein af „opnum borgum“ Kína fyrir erlenda fjárfestingu.

Fyrir síðari heimsstyrjöldina voru bómullarspunaverksmiðjur, mjölmyllur, vefnaðarvöruverksmiðjur og tóbaksverksmiðjur stofnaðar og frá 1949 hélt sú iðnvæðing áfram. Textíliðnaðurinn hefur stækkað mjög með nýjum prjóna- og litunarverksmiðjum. Matvælavinnsla með vinnslu mjöls og hrísgrjóna, olíuvinnsla, víngerð er mikilvæg atvinnustarfsemi í borginni.[5]

Verksmiðjur borgarinnar framleiða dísilvélar, landbúnaðarvélar og aðrar vélar, svo sem rafala. Varmaorkustöðvar framleiða rafmagn fyrir allt nágrennið.


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Ningbo | China | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 18. júlí 2022.
  2. „Ningbo | China | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 19. júlí 2022.
  3. „Ningbo | China | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 19. júlí 2022.
  4. „Ningbo | China | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 19. júlí 2022.
  5. „Ningbo | China | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 19. júlí 2022.