Fara í innihald

Neytendaaðgerðastefna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Neytendaaðgerðastefna eða neytendaaktívismi er form þrýstiaðgerða sem neytendur eða hagsmunasamtök beita fyrirtæki eða stjórnvöld til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þátttakendur eru neytendaaðgerðasinnar[1][2].

Í nokkrum tilvikum geta neytendaaðgerðasinnar og hreyfingar þeirra komið því til leiðar að almenningur, fyrirtæki eða stofnanir sniðgangi algerlega vöru eða vörumerki. Með tilkomu internetsins hefur það orðið auðveldara fyrir neytendaaðgerðasinna að koma boðskap sínum á framfæri og er algengt að neytendaaðgerðir séu framkvæmdur bæði á netinu sem og meðal fólksins. Auk þess hefur tilkoma internetsins gert landamæri óljósari eins og í flestum öðrum þáttum sem internetið kemur inn á[3].

Ástæður neytendaaðgerða

[breyta | breyta frumkóða]

Beinist spjót neytendaaðgerðasinna að fyrirtækjum er það vegna þess að fyrirtækin stuðla að starfsháttum sem ekki þykja mannúðlegir, svo sem barnaþrælkun, þrælahald, notkun eiturefna við framleiðslu án viðeigandi hlífðarfatnaðar. Enn fremur getur ástæðan verið viðskipti hins sniðgengna fyrirtækis við birgja á landsvæðum þar sem mannréttindi eru ekki virt. Eins geta ástæður verið stjórnmálalegs eðlis[4].

Reykjavíkurborg sniðgengur vörur frá Ísrael

[breyta | breyta frumkóða]

Dæmi um neytendaaðgerð er þegar Félagið Ísland-Palestína beindi þeim tilmælum í september 2015 til íslendinga að sniðganga ísraelskar vörur vegna meintra mannréttindabrota stjórnvalda í Ísrael gegn Palestínumönnum [5]. Lögð var fram tillaga í Borgarstjórn Reykjavíkur þess efnis að borgin sniðgengi vörur frá Ísrael. Var tillagan samþykkt [6]. Í kjölfarið snérist vopnið gegn íslenskum vörum þegar Twitterátakið #boycottIceland[7] var sett af stað. Fréttir bárust af því að ferðamenn væru farnir að afbóka ferðir til Íslands og að íslenskar vörur væru farnar að hverfa úr hillum í Bandaríkjunum [8].

Herferð Greenpeace gegn Nestlé

[breyta | breyta frumkóða]

Annað dæmi er þegar Greenpeace árið 2010 setti í gang áróðursherferð gegn sælgætisframleiðandanum Nestlé, þar sem fyrirtækið var sakað um að kaupa pálmaolíu frá Indónesískum fyrirtækjum í Kit Kat súkkulaðið. Voru neytendur hvattir til að sniðganga súkkulaðið þar sem framleiðendur pálmaolíunnar hafa breytt regnskógum í Indónesíu í ræktarland fyrir pálmatré og þar með eyðilagt heimkynni órangútan apa. Herferðinni var beitt gegn einum framleiðanda, Sinar Mas Group. Ein af áhrifaríkustu aðferðum Greenpeace í þessari herferð var skopstæling á auglýsingum fyrir súkkulaðið þar sem slagorðið var „Have a break“ sem myndi líklega þýðast best sem „Brjóttu upp tilveruna.“ Greenpeace gerði sjónvarpsauglýsingu sem sett var á YouTube þar sem spurt var hvort ekki væri ráð að brjóta upp vinnubrögðin og vernda regnskógana. Í kjölfarið á herferð Greenpeace sleit Nestlé viðskiptasambandi við Sinar Mas og hét því að á árinu 2015 myndi fyrirtækið eftirleiðis skyldi notuð pálmaolía sem væri unnin á þann veg að regnskógar myndu ekki hljóta skaða af [9].

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Kristiaan Helsen, Hong Kong University of Science and Technology
  2. Neytendaaðgerðasinni er einstaklingur sem vinnur að því að vernda rétt neytenda, til dæmis með ráðgjöf, vöruprófun eða með því að betrumbæta regluverk vegna sölu neysluvara.
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. september 2015. Sótt 21. janúar 2016.
  4. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. september 2015. Sótt 21. janúar 2016.
  5. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. febrúar 2016. Sótt 21. janúar 2016.
  6. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/15/samthykkti_snidgongu_a_israelskum_vorum
  7. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/18/byrjad_ad_nota_boycotticeland
  8. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/18/islenskar_vorur_teknar_ur_hillum
  9. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. september 2015. Sótt 21. janúar 2016.