Napóleon 2.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Napóleon II)
Napóleon 2.
Málverk af Napóleon 2. eftir Leopold Bucher.
Skjaldarmerki Napóleons 2. sem konungs Rómar Skjaldarmerki Napóleons 2. sem hertoga af Reichstadt
Fæddur20. mars 1811
Dáinn22. júlí 1832 (21 árs)
DánarorsökBerklar
TrúKaþólskur
ForeldrarNapóleon Bónaparte & Marie-Louise af Austurríki

Napoléon François Charles Joseph Bonaparte (20. mars 1811 – 22. júlí 1832) var sonur og arftaki Napóleons Bónaparte Frakkakeisara og annarrar konu hans, Marie-Louise af Austurríki. Sem keisaralegur krónprins hlaut hann heiðurstitilinn konungur Rómar við fæðingu.

Þegar Napóleon keisari sagði af sér í fyrsta sinn vegna hrakfara sinna í Napóleonsstyrjöldunum árið 1814 fór hann fram á að sonur sinn yrði settur á keisarastól í sinn stað. Ekki var hlustað á þessa kröfu keisarans og bandamennirnir sigursælu settu þess í stað Loðvík 18. af gömlu Bourbon-valdaættinni á konungsstól í Frakklandi. Napóleon var rekinn í útlegð til Elbu en sonur hans, konungur Rómar, varð eftir með móður sinni. Árið 1815, þegar Napóleon sneri aftur á keisarastól í hundrað daga, var sonur hans lýstur ríkiserfingi á ný uns Napóleon sagði aftur af sér eftir orrustuna við Waterloo. Á milli seinni afsagnar Napóleons og endurreisnar Loðvíks 18. á konungsstól ríkti hinn fjögurra ára sonur Napóleons að nafninu til yfir Frakklandi í fimmtán daga sem Napóleon II Frakkakeisari.[1] Franska þjóðþingið lýsti Napóleon II aldrei formlega keisara og hann réð því aldrei formlega yfir Frakklandi. Eftir að Napóleon var sendur í útlegð í annað sinn var sonur hans sendur til Austurríkis. Reynt var að þurrka út tengsl hans við Napóleon og gera hann þýskan fremur en franskan.[2] Hann hlaut titilinn fursti af Parma og hertogi af Reichstadt frá móðurafa sínum, Frans 1. Austurríkiskeisara.

Napóleon II eyddi því sem hann átti eftir ólifað í Austurríki. Það varð mjög kalt á milli Napóleons II og móður hans, Marie-Louise, þegar uppgötvaðist að Marie-Louise hafði gifst og eignast tvö börn með austurríska herforingjanum Adam Albert von Neipperg á meðan Napóleon eldri var enn á lífi. Napóleon II fyrirgaf móður sinni aldrei og lét þau orð falla að „Ef Jósefína hefði verið móðir mín hefði faðir minn ekki verið jarðsettur á Sankti Helenu“.[3] Þar til hann lést úr berklum, þá 21 árs að aldri, var hann viðurkenndur meðal stuðningsmanna Bonaparte-ættarinnar sem réttmætur erfingi krúnunnar í Frakklandi.

Eftir dauða sinn fékk Napóleon II gælunafnið l'Aiglon eða „arnarunginn“. Viðurnefnið varð vinsælt vegna leikritsins L'Aiglon eftir Edmond Rostant. Þegar Louis-Napóleon Bonaparte varð keisari árið 1852 tók hann sér titilinn Napóleon III til að viðurkenna stutta valdatíð frænda síns.[1]

Árið 1940 lét Adolf Hitler flytja kistu Napóleons II til Frakklands sem vináttuvott við Vichy-stjórnina sem þá var tekin við völdum. Hann var jarðsettur í Invalide-hvelfingunni ásamt föður sínum og öðrum meðlimum Bonaparte-ættar árið 1969.[3]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Bar einhver titilinn Napóleon II?“. Vísindavefurinn.
  2. „Konungurinn af Róm“. Vikan. 19. desember 1957. Sótt 31. maí 2019.
  3. 3,0 3,1 Hermann Lindqvist (2011). Napóleon. Hið íslenska bókmenntafélag. bls. 604.


Fyrirrennari:
Napóleon Bónaparte
Frakkakeisari
(að nafninu til)
(22. júní 18157. júlí 1815)
Eftirmaður:
Loðvík 18.
(sem konungur Frakklands)