Nýr vettvangur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Nýr vettvangur var stjórnmálahreyfing sem varð til árið 1990 og bauð fram lista til borgarstjórnar Reykjavíkur í sveitarstjórnarkosningunum árið 1990. Listinn fékk tvo borgarfulltrúa kjörna. Framboðið var sameignlegt framboð Alþýðuflokksins, klofningshóps úr Alþýðubandalaginu og fleiri aðila.

Framboðið[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndin að framboðinu mun hafa komið frá Alþýðuflokknum en upphaflega hugmyndin var að bjóða fram sameinaðan lista stjórnarandstöðuflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Kvennalista en ekki náðist samstaða um slíkt meðal flokkanna.[1]

Valið var á listann í prófkjöri í byrjun apríl árið 1990 en fulltrúaráð alþýðuflokksfélaganna í Reykjavík, Félag ungra alþýðubandalagsmanna, Reykjavíkurfélagið, Samtök um borgarmál og Samtök um nýjan vettvang stóðu að prófkjörinu.[2] 22 frambjóðendur gáfu kost á sér en sigurvegari prófkjörsins varð Ólína Þorvarðardóttir og leiddi hún lista framboðsins í borgarstjórnarkosningunum sem fram fóru þann 26. maí 1990.

Nýr vettvangur bauð fram undir listabókstafnum H en helstu áherslumál framboðsins voru úrbætur í leikskólamálum, fjölgun kaupleiguíbúða í Reykjavík og aukið gegnsæi í stjórnkerfi borgarinnar.[3]

Kosningaúrslit[breyta | breyta frumkóða]

Í aðdraganda kosninganna gáfu skoðanakannanir til kynna að framboðið gæti átt von á að ná 3-4 kjörnum fulltrúum í borgarstjórn.[1] Niðurstaða kosninganna varð sú að Nýr vettvangur hlaut 8282 atkvæði eða 14,76% og hlaut tvo borgarfulltrúa kjörna, þær Ólínu Þorvarðardóttur og Kristínu Á. Ólafsdóttur sem áður hafði verið borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Ingólfur Margeirsson, „Hvað verður um Nýjan vettvang?“, Alþýðublaðið 30. maí 1990 (skoðað 29. nóvember 2019)
  2. „Nýr vettvangur: 22 ætla í prófkjör“, Morgunblaðið, 3. apríl 1990 (skoðað 28. nóvember 2019)
  3. „Nýr vettvangur: Viljum taka á málum með hlýju og nærgætni - segir Bjarni P.“, Morgunblaðið, 15. maí 1990 (skoðað 28. nóvember 2019)
  4. Kosningasaga.wordpress.com, „Reykjavík 1990“ (skoðað 28. nóvember 1990)