Fara í innihald

Monsún

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Monsúnvindar)
Monsúnrigning í Mumbai

Monsún, monsúnvindar einnig misserisvindar, var upphaflega notað um árstíðabundnar breytingar vinda á norðanverðu Indlandshafi, í Suður- og Austur-Asíu og suður með austurströnd Afríku.

Hugtakið monsún hefur á síðari áratugum einnig verið notað yfir aðrar árvissar hringrásarbreytingar sem tengjast því að land og sjór hitna og kólna mishratt við árstíðaskipti. Einkum tala fræðimenn um Afríku-, Ástralíu- og Ameríkumonsúna fyrir utan Asíumonsúna.

Orðið monsún kom inn í íslensku gegnum dönsku, monsun, sem er dregið af portúgalska orðinu monção, en það er upphaflega tekið úr arabísku mawsim (موسم „árstíð“). Orðið mausam þýðir „veður“ á hindí (मौसम), úrdú (موسم) og fjölda annarra tungumála á Norður-Indlandi.

Forsendur monsúnvinda

[breyta | breyta frumkóða]

Monsúnvindarnir eru í eðli sínu það sama og nefnt er sólfarsvindar og myndast á sama hátt. Það er að segja gangur sólarinnar skapar mishitun á landsyfirborði og sjávaryfirborði og ræður þar með vindátt. Monsúnvindarnir skapast af misjafnri sólarhæð að sumri og vetri sem hefur áhrif á hitun og kólnun lands og sjávar. Yfirborð lands hitnar mun fyrr en yfirborð sjávar af sólargeislun. Landið tapar hins vegar varmanum fljótt en yfirborð sjávar mun hægar. Þetta stafar af því að sjór hefur meiri varmarýmd en þurrlendi og er því yfirleitt nokkuð jafnheitur allt árið um kring. Mjög mikill munur er á umfangi meginlandanna á norður- og suðurhveli jarðar. Norðan miðbaugs er landmassinn mun meiri um sig en fyrir sunnan hann. Stærstu úthöfin, það er að segja Atlantshafið og Kyrrahafið spanna bæði stóran hluta hnattarins frá suðri til norðurs, frá Suðurskautslandinu og norður undir heimskautsbaug og gætir því hitamunar árstíða fremur lítið á þessum höfum. Öðru máli gegnir um Indlandshaf sem sem er að langstærstum hluta fyrir sunnan miðbaug, en norðan við hafið tekur við stærsti landmassi á jörðinni, meginland Asíu.

Asíumonsúnar

[breyta | breyta frumkóða]

Oft er hugtakið monsún sérlega notað um það tímabil ársins þegar sumarmonsúninn gengur inn yfir suður- og suðausturhluta Asíu. Með honum fylgir rigningartíminn sem beðið er með eftirvæntingu. Rigningartíminn leysir af hólmi heitt þurrkaskeið og verði mikil seinkun á monsúnkomunni veldur það uppskerubresti. Of mikil monsúnrigning veldur hins vegar flóðum. Sumarmonsúninn stendur venjulega frá því í maí-júní og fram í september allt eftir svæðum. Ekki rignir þó samfellt heldur skiptast á vikur með meiri eða minni úrkomu á víxl.

  • „Hvað er monsún og hvernig myndast hann?“. Vísindavefurinn.