Monroe-kenningin
Monroe-kenningin er stefna í utanríkismálum Bandaríkjanna sem gengur út á andstöðu við nýlendustefnu Evrópuríkja á vesturhveli jarðar. Samkvæmt kenningunni eru afskipti utanaðkomandi af stjórnmálum landa í Ameríka sögð geta verið fjandsamleg Bandaríkjunum.[1] Kenningin hefur haft mikil áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sér í lagi á 20. öldinni.[2]
James Monroe, fimmti forseti Bandaríkjanna varð fyrstur til þess að setja fram kenninguna 2. desember 1823 í árlegri stefnuræðu sinni í þinginu. Kenningin var þó ekki nefnd eftir honum fyrr en 1850.[3] Kenningin var þó ekki síður hugarsmíð John Quincy Adams sem þá var utanríkisráðherra í Monroe-stjórninni en hann varð síðar sjálfur forseti. Á þessum tíma höfðu næstum allar spænsku nýlendurnar í Ameríku annaðhvort náð sjálfstæði eða stefndu þangað. Monroe fullyrti að nýi heimurinn og gamli heimurinn ættu að vera aðgreind áhrifasvæði,[4] þar sem evrópsku nýlenduveldin ættu ekki að reyna að stýra eða hafa áhrif á fullvalda ríki á svæðinu. Litið yrði á slíkt sem ógn við öryggi Bandaríkjanna.[5][6] Á móti myndu Bandaríkin þá viðurkenna og ekki hafa afskipti af þáverandi evrópskum nýlendum sem eftir voru né skipta sér af innanríkismálum evrópuríkja.
Þegar kenningin var sett fram fyrst var hún að mestu hunsuð af nýlenduveldunum, enda höfðu Bandaríki þá ekki yfir að ráða voldugum flota eða landher. Bretar töldu þó kenninguna falla ágætlega að sínum hagsmunum og vísuðu til hennar þegar þeir framfylgdu sinni eigin Pax Britannica stefnu. Önnur Evrópulönd brutu þó nokkrum sinnum gegn henni á 19. öldinni, einkum Frakkar með íhlutun sinni í Mexíkó.
Með vaxandi styrk Bandaríkjanna við upphaf 20. aldarinnar fór kenningin að fá meira vægi þar sem landið gat nú framfylgt henni með valdi, til dæmis í stríði Spánar og Bandaríkjanna 1898. Kenningin hefur verið túlkuð með ýmsum hætti í gegnum tíðina og vísað var til hennar alla 20. öldina af bandarískum forsetum og öðrum ráðamönnum. Í forsetatíð Theodore Roosevelt í upphafi 20. aldar var gerð sú breyting á inntaki Monroe-kenningarinnar að Bandaríkin áskildu sér rétt til að grípa inn í innnanríkismál ríkja í Mið- og Suður-Ameríku til að viðhalda stöðugleika og „leiðrétta“ stefnu stjórnvalda þar ef ástæða væri til. Í Kalda stríðinu gripu bandarísk stjórnvöld einnig gjarnan til Monroe-kenningarinnar til að réttlæta inngrip í innanríkismálum Ameríkuríkja þegar talið var að kommúnistaöfl væru að ná völdum með stuðningi Sovétríkjanna.[7] John F. Kennedy vitnaði til dæmis til kenningarinnar til að réttlæta átök við Sovétríkin í Kúbudeilunni.[8]
Sú gagnrýni hefur oft komið fram að Monroe-kenningin hafi verið notuð til að réttlæta heimsvaldastefnu Bandaríkjanna sjálfra, þó að kenningin hafi í upphafi verið sett fram í andstöðu við slíka stefnu evrópsku heimsveldanna.[9][10]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Mark T. Gilderhus, "The Monroe doctrine: meanings and implications." Presidential Studies Quarterly 36.1 (2006): 5–16 online Geymt 25 september 2022 í Wayback Machine
- ↑ Sexton, Jay (2023). „The Monroe Doctrine in an Age of Global History“. Diplomatic History. 47 (5): 845–870. doi:10.1093/dh/dhad043. ISSN 0145-2096.
- ↑ „Monroe Doctrine“. Oxford English Dictionary (3rd. útgáfa). 2002.
- ↑ New Encyclopædia Britannica. 8. bindi (15th. útgáfa). Encyclopædia Britannica. bls. 269. ISBN 1-59339-292-3.
- ↑ „Monroe Doctrine“. HISTORY (enska). Sótt 2. desember 2021.
- ↑ „The Monroe Doctrine (1823)“. Basic Readings in U.S. Democracy. United States Department of State. Afrit af upprunalegu geymt þann 8 janúar 2012.
- ↑ Dominguez, Jorge (1999). „US–Latin American Relations During the Cold War and its Aftermath“ (PDF). The United States and Latin America: The New Agenda. Institute of Latin American Studies and the David Rockefeller Center for Latin Americas Studies. bls. 12. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 9. mars 2012. Sótt 4 ágúst 2010.
- ↑ „The Durable Doctrine“. Time. 21. september 1962. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2009. Sótt 15 júlí 2009.
- ↑ Chomsky, Noam (2004). Hegemony Or Survival. Henry Holt. bls. 63–64. ISBN 978-0-8050-7688-2. Sótt 20. desember 2008.
- ↑ Sexton, Jay (15. mars 2011). The Monroe Doctrine: Empire and Nation in Nineteenth-Century America (enska). Farrar, Straus and Giroux. bls. 2–9. ISBN 9781429929288.