Mirabal-systurnar
Mirabal-systurnar (spænska: Las Hermanas Mirabal) voru fjórar systur frá Dóminíska lýðveldinu sem voru þekktar fyrir andóf gegn einræðisstjórn Rafaels Trujillo og stóðu fyrir ýmsum mótmælaaðgerðum gegn henni. Þrjár af systrunum, þær Patria, Minerva og Maria Teresa, voru myrtar þann 25. nóvember árið 1960 af útsendurum Trujillo-stjórnarinnar. Sú fjórða, Dedé, lést í hárri elli þann 1. febrúar 2014.
Systurnar gengu á sjötta áratugnum til liðs við andspyrnuhreyfingar gegn stjórn Trujillos og mynduðu eigin hóp sem þær kölluðu „Fiðrildin“ (spænska: Las Mariposas). Þær tóku þátt í því að gefa út dreifirit um fórnarlömb Trujillos og söfnuðu hráefnum í vopn og sprengiefni sem átti að nota þegar kæmi til uppreisnar. Systurnar voru oft handteknar fyrir aðgerðir sínar en héldu þeim jafnan áfram strax og þeim var sleppt úr haldi.
Morðið á Mirabal-systrunum gerði þær að „táknmynd hetjulegrar baráttu kvenna og fórnarlamba ofbeldis“ meðal Dóminíkumanna.[1] Árið 1999 kaus allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að lýsa dauðadag systranna, 25. nóvember, alþjóðlegan baráttudag gegn kynbundnu ofbeldi þeim til heiðurs.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Stefán Pálsson (25. nóvember 2017). „Dauði fiðrildanna“. Fréttablaðið. Sótt 24. febrúar 2019.