Menntakerfi Kína

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Komandi kynslóðir Kína munu njóta góðs af stórtækum framförum síðustu áratuga í menntakerfi landsins.
Komandi kynslóðir Kína munu njóta góðs af stórtækum framförum síðustu áratuga í menntakerfi landsins.
Embættispróf á tímum Songveldisins (960–1279); Myndskreyting frá 11. öld.
Embættispróf á tímum Songveldisins (960–1279); Myndskreyting frá 11. öld.
„Brautryðjendaæska Kína“ stendur heiðursvörð við minnisvarða um „hetjur fólksins“ á Torgi hins himneska friðar í Peking borg Kína.
Brautryðjendaæska Kína“ stendur heiðursvörð við minnisvarða um „hetjur fólksins“ á Torgi hins himneska friðar í Peking borg Kína.
Áheyrnarsalur Tsinghua háskóla, opinbers rannsóknarháskóla í Peking, sem þykir fremstur kínverskra háskóla og meðal virtustu háskóla veraldar. Margir forystumenn koma þaðan, meðal annars tveir síðustu leiðtogar Kína, verkfræðingarnir Hu Jintao og Xi Jinping.
Áheyrnarsalur Tsinghua háskóla, opinbers rannsóknarháskóla í Peking, sem þykir fremstur kínverskra háskóla og meðal virtustu háskóla veraldar. Margir forystumenn Kína koma þaðan, meðal annars tveir síðustu leiðtogar Kína, verkfræðingarnir Hu Jintao og Xi Jinping.[1] [2]

Kína hefur stærsta menntakerfi veraldar. Með 246,5 milljónir nemenda og 18,5 milljónir kennara í 532 þúsund skólum, að háskólastofnunum undanskildum, er menntakerfi Kína gríðarlega umfangsmikið og fjölbreytt.[3]

Í Kína er menntun skipt í þrjá flokka: Grunnmenntun, æðri menntun og fullorðinsfræðslu. Samkvæmt lögum skal hvert barn hafa níu ára skyldunám frá grunnskóla (sex ára) til unglingastigs (þrjú ár). Það skyldunám er frítt en það er ekki alltaf raunin, meðal annars vegna ólíkra fjárveitinga milli dreifbýlis og þéttbýlis, og mikillar valddreifingar í stjórnun fjárveitinga. Í dreifbýli greiða foreldrar þannig oft laun kennara.[4]

Menntun er að miklu leyti rekin fyrir opinbert fé, með fremur lítilli þátttöku einkaaðila í skólageiranum. Árið 2020 fór 4,2% af þjóðaframleiðslu Kína til menntamála.[5] Það var um 10,5% af ríkisútgjöldum Kína.[6] Einkareknir skólar eru þó að sækja mjög í sig veðrið[7] og numu þeir um 10% árið 2015.[8]

Sýslustjórnir sveitarfélaga bera meginábyrgð á stjórnun og framkvæmd skólamenntunar og héraðsyfirvöld hafa umsjón með æðri menntastofnunum.[9] Á undanförnum árum hefur menntamálaráðuneyti Kína, sem er efst í stjórnsýslunni, færst frá beinni stjórn til eftirlits með menntakerfinu. Ráðuneytið stýrir umbótum í menntamálum með lögum, áætlunum, fjárhagsáætlun og fjárúthlutun, upplýsingaþjónustu, stefnumótun. Í auknum mæli er áhersla á valddreifingu í kerfinu.

Almennt[breyta | breyta frumkóða]

Nemendur í framhaldsskóla í Haikou borg, Hainan héraði, Kína. Í stærsta menntakerfi heims eru 90,8 milljónir framhaldsskólanemar.
Nemendur í framhaldsskóla í Haikou, Hainan héraði, Kína. Í stærsta menntakerfi heims eru 90,8 milljónir framhaldsskólanemar.

Menntakerfið í Kína hefur tekið stakkaskiptum frá miðbiki síðustu aldar. Árið 1949 voru 80% kínverja taldir ólæsir. Árið 2018 höfðu 97% íbúa eldri en 15 ára hlotið menntun og þjálfun og töldust læsir.[10] Árið 1950 hafði einungis 20% þjóðarinnar hlotið formlega menntun. Árið 2018 lauk 94,2% grunnskólanemenda níu ára skólaskyldu.[11]

Menntakerfi Kína er að mestu byggt upp sem ríkisrekið opinbert menntakerfi sem heyrir undir menntamálaráðuneyti landsins,[12] og starfshóp Miðstjórnar kommúnistaflokksins á sviði menntunar.[13] Á undanförnum árum hefur menntamálaráðuneyti Kína færst frá beinni stjórn, meira til eftirlits með menntakerfinu. Ráðuneytið stýrir umbótum í menntamálum með mennta- og fjárhagsáætlunum, upplýsingaþjónustu og stefnumótun. Í auknum mæli er áhersla á valddreifingu í kerfinu.[14]

Sýslustjórnir sveitarfélaga bera meginábyrgð á stjórnun og framkvæmd grunnmenntunar en héraðsyfirvöld 33 héraða landsins hafa yfirumsjón með háskólastofnunum.[15]

Menntakerfið nær yfir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, og háskóla. Auk opinberu skólanna hefur víðtækt net einkaskóla myndast í Alþýðulýðveldinu Kína.

Menntakerfi Kína er risavaxið og fjölmennt. Árið 2020 voru alls 291.715 leikskólar í Kína, 162.601 grunnskólar, 77.455 framhaldsskólar, 2.738 almennar háskólastofnanir og 827 háskólastofnanir sem buðu framhaldsháskólagráður.[16]

Kínverskir nemar eftir menntunarstigi
Skólastig Viðmiðunaraldur Fjöldi nema Fjöldi stofnana
Leikskólastig 3 – 5 ára 48.182.634 291.715 leikskólar
Grunnskólastig 6 – 11 ára 107.508.746 162.601 grunnskólar
Framhaldsskólastig 12 – 17 ára 90.820.113 77.455 framhaldsskólar
Háskólastig 18 – 22+ ára 52.229.952 3.565 háskólastofnanir
298.741.445 535.336 stofnanir
Heimild: Hagstofa Kína - Árbók fyrir hagtölur Kína fyrir árið 2021. [3]

Tölfræðistofnun UNESCO birtir aðrar tölur:

1) Leikskólastig (52.098.459);

2) Grunnskólastig (103.463.951);

3) Framhaldsskólastig (99.401.975);

4) Háskólastig (85.993.451). - Samtals: 340.957.836 nemar.[17]

Menntakerfi Kína fylgir (líkt og Ísland) viðurkenndum alþjóðlegum samræmdum stöðlum um menntakerfi og skólastig. Alþjóðlega menntunarflokkunin (ISCED) var tekin upp í Kína árið 1997.[18] Hún byggir á tveimur megin flokkunarleiðum sem eru innbyrðis sjálfstæðar, en saman segja til bæði um stig náms og menntunar, eftir stöðu í menntakerfinu frá leikskóla til doktorsgráðu, svo og um svið, eftir innihaldi náms.[19] [20]

Leikskólaaldur[breyta | breyta frumkóða]

Grunnskólabörn í Guilin borg í sjálfstjórnarhéraðinu Guangxi í Suður-Kína.
Grunnskólabörn í Guilin borg í sjálfstjórnarhéraðinu Guangxi í Suður-Kína.
Börn frá Huanglong í norðvesturhluta Sesúan héraðs í Kína. Leikskólapláss skortir mjög í dreifbýli Kína.
Börn frá Huanglong í norðvesturhluta Sesúan héraðs í Kína. Leikskólapláss skortir mjög í dreifbýli Kína.

Í kínverskri menningu er gerður greinarmunur á milli tveggja stiga í lífi barna: „sakleysisaldurs“ og „skilningsaldurs“.[21] Samkvæmt Konfúsíus eru nýfædd börn gjafir frá guðunum og því ber að virða meðfætt eðli þeirra. Á þessum „sakleysistíma“ sem nær yfir fyrstu 5-7 ár ævinnar, samkvæmt hugmyndum Konfúsíusar, skortir börn enn greind til að geta lært mikið. Þau eru því meðhöndluð af mildi og gjarnan dekruð. Þegar „öld skilnings“ er náð tekur við mikill agi.  – Í nútímanum þegar foreldrar hafa uppgötvað í auknum mæli hæfileika ungra barna til að læra, er umskiptin yfir í „skilningsaldurinn“ oft mun fyrr en áður.[21]

Í Kína innritast nemendur venjulega í leikskóla við tveggja eða þriggja ára aldur, og kveðja leikskólann sex ára. Leikskólamenntun er ekki skylda og margir leikskólar eru í einkaeigu. Opinbert markmið kínverskra leikskóla er að undirbúa börnin uppeldislega og félagslega undir grunnskólagöngu. Áherslan er á aldurshæft tilfinningalegt uppeldi. Leikskólakennarar sækja verkmenntaskóla í fjögur ár og kenna síðan að meðaltali 35 barna hópum.[22]

Á árinu 2020 voru um 48.182.634 börn á aldrinum 3 – 5 ára í 291.715 leikskólum í Kína. Þar voru 2.913.426 leikskólakennarar í fullu starfi auk 5.198.165 annarra starfsmanna.[3]

Litið er á leikskólakennslu í Kína sem mikilvæga félagsleg þjónustu sem stjórnvöld eiga að veita. Sýslustjórnir sjá um leikskólakennslu á meðan ríkisvaldið mótar lög, reglugerðir, stefnu og þróunaráætlanir. Sveitarstjórnir á öllum stigum bera ábyrgð á að samræma þróun svæðisbundinna áætlana. Menntamálaráðuneyti Kína mótar stefnu og staðla, sem og stjórnendur og fagmenn viðkomandi leikskóla. Sérstakri aðgerðaráætlun um „þriggja ára leikskóla“ er ætlað að auðvelda þessa uppbyggingu og tryggja meira fjármagn til málaflokksins.[23] [24]

Undanfarin ár hefur aukin áhersla verið á leikskólastigið í Kína. Árið 2021 voru um 88,1% barna á leikskólaaldri í Kína skráð í leikskóla. Það markar verulegar framfarir. Hins vegar eru enn hindranir fyrir leikskólabörn afskekktra héraða og enn er verulegt bil á milli framboðs og eftirspurnar eftir leikskólanámi á landsbyggðinni.[25]

Grunnskólastig[breyta | breyta frumkóða]

Grunnskólakennsla í Xinjiang-héraði í vesturhluta Kína.
Grunnskólakennsla í Xinjiang-héraði í vesturhluta Kína.
„Brautryðjendaæska Kína“ við skólasetningu árið 2009. Flestir grunnskólar Kína krefjast þess að nemendur gangi til liðs við þessi pólitísku samtök fyrir 6-14 ára börn. Rauður hálsklútur ungra brautryðjenda eru algeng sjón í Kína.
Brautryðjendaæska Kína“ við skólasetningu. Flestir grunnskólar Kína krefjast þess að nemendur gangi til liðs við þessi pólitísku samtök fyrir 6-14 ára börn. Rauður hálsklútur ungra brautryðjenda eru algeng sjón í Kína.
Kínverskar skólarútur í Shenzhen borg Guangdong héraði árið 2016.
Kínverskar skólarútur í Shenzhen borg Guangdong héraði árið 2016.

Í Kína verða nemendur að ljúka níu ára skyldunámi. Grunnskólanám hefst við sex ára aldur og flestir verja þar sex árum.

Á árinu 2020 voru 107.508.746 grunnskólanemar í alls 162.601 grunnskólum. Þar voru 6.441.585 grunnskólakennarar í fullu starfi, auk 5.979.329 annarra starfsmanna.[3]

Skólaskylda kínverskra barna sem var kynnt til sögunnar árið 1986, nær til níu ára hið minnsta og að hámarki tólf ára. Það þýðir að börnin hafa níu ára skyldunám frá grunnskóla (alls sex ár) til unglingastigs (þrjú ár).[26]

Þrátt fyrir lög um skyldunám er grunnmenntun án skólagjalda ennþá markmið frekar en veruleiki í Kína. Margar fjölskyldur eiga í erfiðleikum með að borga skólagjöld og því neyðast sum börn til að yfirgefa skóla fyrir níu ára skyldumarkmiðið.[27]

Námsárið[breyta | breyta frumkóða]

Skólabúningar eru skylda í mörgum kínverskum skólum. Hér eru nemendur í Haikou borg, Hainan héraði Kína árið 2012.
Skólabúningar eru skylda í mörgum kínverskum skólum. Hér eru nemendur í Haikou borg, Hainan héraði Kína.

Námsári grunnskólans er að jafnaði skipt í tvær annir: Sú fyrri er frá febrúar fram í miðjan júlí. Þá er sex vikna sumarfrí. Seinni önnin er frá september fram í miðjan/lok janúar. Þá tekur við fjögurra vikna vetrarfrí.[28]

Venjulegur skóladagur í Kína er langur, samkeppni mikil og álagið eftir því. Starfsdagur flestra skóla byrja snemma á morgnana (um 7:30) og nær til kvölds (um 18:00) með tveggja tíma hádegishléi. Margir skólar bjóða síðan upp á sjálfsnám á kvöldin frá 19-21 svo nemendur geta klárað heimavinnuna sína og undirbúið sig fyrir sífelld próf. Bjóði skólarnir ekki upp á sjálfsnám á kvöldin þurfa nemendur engu að síður að ljúka heimavinnunni. Það getur verið allt til kl. 22.[29]

Að meðaltali verja grunnskólanemendur um sjö til átta klukkustundum í skólanum á meðan framhaldsskólanemar eru um tólf til fjórtán klukkustundir í skólanum séu hádegis- og kvöldtímar eru meðtaldir.[29]

Skólabúningar eru skylda í mörgum kínverskum skólum.[30] Í grunnskólum Kína mæta nemendur í fánahyllingu hvern mánudagsmorgun og þurfa að vera í skólabúningnum þann dag. Auk búningsins er algengt að skólabörn séu með rauðan trefil um hálsinn, sem táknar kínverska fánann, auk þess að hafa gult höfuðfat utan skólabyggingarinnar til umferðaröryggis.[31]

Zhongkao prófið[breyta | breyta frumkóða]

Grunnskólanemendur gangast undir samræmt opinbert próf sem kallast Zhongkao fyrir inngöngu í framhaldsskóla. Stigakerfi eru mismunandi eftir héruðum. Algengast er að nemendur séu prófaðir í kínversku, stærðfræði, ensku, eðlisfræði, efnafræði, stjórnmálafræði og íþróttum.[32] Prófaniðurstöður úr Zhongkao eru síðan notaðar til að skipa nemendum í ólíka framhaldsskóla.

„Brautryðjendaæska Kína“[breyta | breyta frumkóða]

Enskukennsla Yucai skólanum í Chongqing, í Sesúan héraði Kína árið 2015.
Enskukennsla í Yucai skólanum í Chongqing borg, Sesúan héraði Kína.

Flestir grunnskólarnir krefjast þess að nemendur, að þeim yngstu undanskildum, gangi til liðs við „Brautryðjendaæsku Kína“, pólitísk samtök barna á aldrinum sex til fjórtán ára. Hugmyndafræði samtakanna „byggir á fræðilegu kerfi sósíalismans með kínverskum einkennum“. Mottóið er: „Til baráttu fyrir málstað kommúnismans, vertu viðbúinn!“. Háttsemi ungra brautryðjenda á að byggja á „heiðarleika, hugrekki, lífskrafti, og einingu“.[33] [34]

Skuldbinding ungra brautryðjenda (og þar með flestra kínverskra gunnskólanema) við aðildina er:

„Ég er meðlimur í Brautryðjendaæsku Kína. Undir fána ungra brautryðjenda sver ég Kommúnistaflokki Kína ást mína, móðurlandinu og fólkinu. Ég mun leggja hart að mér í námi, efla og undirbúa, svo styrkur minn verði til málstaðs kommúnismans.“[33]

Rauður hálsklútur ungra brautryðjenda er eini einkennisklæðnaður félagsmanna. Við vígsluathöfn binda núverandi meðlimir klútana á nýliðana. Börn klædd rauðum hálsklútum eru algeng sjón í Kína.

Við útskrift eru flestir grunnskólanemendur orðnir félagar í Brautryðjendaæskunni. Við fjórtán ára aldur hætta þeir sjálfkrafa aðild að samtökunum og geta þá gengið í Æskulýðsfylkingu Kínverska Kommúnistaflokksins (CCP). Áætlað er í dag séu um 130 milljónir félagsmanna í Brautryðjendaæsku Kína.[33]

Framhaldsskólastig[breyta | breyta frumkóða]

Listar yfir nýnema birtir fyrir utan menntaskóla í Linxia borg, Gansu héraði. Á listunum kemur fram prófskor „Gaokao“ lokaprófsins ásamt veittum aukastigum vegna þjóðernis eða fjölskyldustærðar.
Listar yfir nýnema birtir fyrir utan menntaskóla í Linxia borg, Gansu héraði. Á listunum kemur fram prófskor „Gaokao“ lokaprófsins ásamt veittum aukastigum vegna þjóðernis eða fjölskyldustærðar.
Fulltrúar Xian háskóla í höfuðborg Shaanxi héraðs, taka á móti nýnemum í básum fyrir utan lestarstöð borgarinnar.
Fulltrúar Xian háskóla í höfuðborg Shaanxi héraðs, taka á móti nýnemum í básum fyrir utan lestarstöð borgarinnar.

Framhaldsnám eftir grunnnám í Kína skiptist í þrjú ár í unglingaskóla (hluti af skólaskyldu) og önnur þrjú ár í framhaldsskóla. Að loknu skyldunáminu geta nemendur valið hvort haldið sé áfram með framhaldsskólamenntun. Flestir útskriftarnemar á unglingastigi halda áfram námi. Framhaldsskólinn tekur að meðaltali þrjú ár.

Á árinu 2020 voru um 90.820.113 nemar á aldrinum 12 –17 ára í framhaldsskólum Kína, sem skiptust niður á 77.455 framhaldsskóla. Þar voru 6.654.481 framhaldsskólakennarar í fullu starfi auk 8.538.842 annarra starfsmanna.[3] Þessir framhaldsskólar skiptust í 52.998 skóla á neðra stigi framhaldsskóla (unglingaskóla) og 24.457 framhaldsskóla á efra stigi. Efra stigið skiptist síðan í æðri framhaldsskóla (14.561) og æðri verkmenntaskóla (9.896).[3]

Fimm tegundir framhaldsskóla[breyta | breyta frumkóða]

Nemendur og skólastjóri Guangdong Zhaoqing menntaskólans í Duanzhou hverfi Zhaoqing borgar, í Guangdong héraði, Kína.
Nemendur og skólastjóri Guangdong Zhaoqing menntaskólans í Duanzhou hverfi Zhaoqing borgar, í Guangdong héraði Kína.

Í Kína eru fimm tegundir framhaldsskóla: Almennir menntaskólar eða framhaldsskólar; Tæknilegir eða sérhæfðir framhaldsskólar; Framhaldsskólar fyrir fullorðna; Starfsnáms-framhaldsskólar; og Handiðnaðarskólar. - Síðustu fjórir eru verkmenntaskólar.

Frá og með 11. bekk gefst nemendum almenna miðskólans kostur á að velja á milli vísinda- eða hugvísindastefnu. Fög kennd í almennum framhaldsskólum eru: kínverska, stærðfræði, eitt erlent skyldumál (aðallega enska), eðlisfræði, efnafræði, líffræði, verkfræði, upplýsingatækni, íþróttakennsla, listir, tónlist, siðfræði, hagfræði, saga og landafræði. Munurinn á námskránni felst í því að allt að átta kennslueiningar í stjórnmálum, siðfræði og sögu eru kenndar í hugvísindaskor, en í náttúrufræðiskor eru hins vegar eðlisfræði og efnafræði ríkjandi.

Kennslan er 45 mínútur í senn; alls 35 kennslustundir á viku og gert ráð fyrir að lágmarki tveimur stundum til sjálfsnáms til viðbótar.[35]

„Gaokao“ lokaprófið[breyta | breyta frumkóða]

Nemendur streyma út að loknu „Gaokao“ inntökuprófinu fyrir háskóla. Árið 2022 tóku 11.930.000 „Gaokao“ sem er sagt mikilvægasta próf sem tekið er í Kína.
Nemendur Yali skólans í Changsha borg, Hunan héraði, streyma út að loknu „Gaokao“ inntökuprófinu fyrir háskóla.[36] Árið 2022 tóku um 12 milljónir nemenda „Gaokao“, sem er sagt mikilvægasta próf sem tekið er í Kína.

Að lokinni tólf ára skólagöngu taka allir nemar lokapróf „Gaokao“ en það er inntökupróf sem krafist er fyrir háskólanám í Kína. Þessi próf sem eru haldin eftir fyrstu viku júní, taka um níu klukkustundir á tveggja til fjögurra daga tímabili, allt eftir því í hvaða héraði þau er haldin. Öll eiga þau sameiginlegt að prófa í kínverskri tungu og stærðfræði, en að auki er prófað í erlendu tungumáli, eðlisfræði, efnafræði, stjórnmálum, sögu, landafræði og líffræði.[37] Gefin er einkunn frá 1 til 100 og nemendur þurfa 60 eða meira til að hafa staðist. Prófgreinar til inntökuprófs í háskóla eru kjarnagreinar kínverska, stærðfræði og enska. Nemendur á náttúrufræðibraut velja tvær greinar úr eðlisfræði, líffræði eða efnafræði og nemendur í hugvísindum velja tvær greinar úr stjórnmálum, sagnfræði eða landafræði.[38]

Árið 2022 tóku 11.930.000 „Gaokao“ inntökuprófið.[37] „Gaokao“ er sagt mikilvægasta próf sem tekið er í Kína.[39]

Fyrir prófið halda margir skólar þrjá til fjóra aukatíma á laugardögum í náttúrufræði og stærðfræði. Ef skólar bjóða ekki kennslu á laugardagsmorgnum er líklegt að margir foreldrar sendi börnin sín í dýrt aukanám í skólum um helgar eða skipuleggi einkakennslu fyrir börnin um helgar. Svo langt hefur þessi samkeppni gengið að stjórnvöld hafa varað við miklu vinnuálagi nemenda.[40]

Þar sem niðurstöður prófsins geta ráðið miklu um framtíð nemenda er margir þeirra – og forráðamenn- undir gríðarlegu andlegu álagi.[41] Prófið hefur meðal annars verið tengt aukinni tíðni sjálfsmorða nemenda.[42]

Verkmenntaskólar[breyta | breyta frumkóða]

Sjálfsnám nemenda í framhaldsskóla í Sjanghæ borg.
Sjálfsnám nemenda í framhaldsskóla í Sjanghæ borg.

Auk almennu framhaldsskólanna sem undirbúa háskólanám eru starfræktar- og tækniskólar. Þessir sérstöku tækniskólar eru reknir á sveitarstjórnar- eða héraðsstigi. Fjórar tegundir verkmenntaskóla eru í Kína (árið 1987)[43][44]:

  • Tækniskólar sem bjóða fjögurra ára nám að loknu unglingastigi og tveggja ára nám á framhaldsstigi á sviðum eins og verslun, myndlist eða skógrækt;
  • Fjölbrautaskólar sem bjóða upp á 2ja ára fjölbreytt nám, t.d. smíði eða logsuðu;
  • Sértækir tækniskólar sem bjóða upp á eins til þriggja ára iðnnám, t.d. í matreiðslu, saumaskap, ljósmyndun o.fl.;
  • Landbúnaðarskólar sem bjóða grunn í búskapartækni.

Margir tækniskólarnir eru reknir af stórum fyrirtækjum.[45] Þeir þjálfa til að mynda nema fyrir stáliðnað, textíliðnað eða olíuiðnað. Einnig bjóða þeir upp á þjálfunartækifæri fyrir skrifstofufólk eða miðstig á sviði lögfræði, fjármála, heilsugæslu, lista og íþrótta. Lengd námsins er að meðaltali þrjú ár. Ólíkt öðrum menntastofnunum er námskrá tækniskólanna ekki ákveðin beint af ríki eða sveitarfélögum, heldur miðast við þarfir viðkomandi fyrirtækis eða atvinnugreinar. Framtíðarnemar eru valdir með hæfnisprófum í viðkomandi námsgrein.

Hin síðari ár hefur aðsókn að verkmenntun aukist. Á árinu 2021 náði fjöldi nýskráninga í æðri starfsmenntaskóla 5,6 milljónum, sem er 180 prósent aukning frá síðasta áratugi. Meira en 70 prósent starfsmanna í nútíma framleiðslufyrirfyrirtækjum og nýjum vaxandi atvinnugreinum eru útskrifaðir úr iðn- og verkmenntaskólum.[46]

Æskulýðsfylking Kínverskra Kommúnista[breyta | breyta frumkóða]

Við fjórtán ára aldur hætta ungmenni sjálfkrafa aðild að „Brautryðjendaæsku Kína“ og geta þá gengið til liðs við Æskulýðsfylkingu Kínverskra Kommúnista (CYLC). Það er ungliðahreyfing fyrir fólk á aldrinum 14 til 28 ára sem rekin er af Kommúnistaflokki Kína (CCP). Æskulýðsfylkingin er einnig leiðbeinandi í starfsemi Brautryðjendaæskunnar. Hugmyndafræði samtakanna byggir á Marx-Lenínisma, „hugsunum“ Maó Zedong og „fræðilegu kerfi sósíalismans með kínverskum einkennum.“[47] Árið 2017 voru félagsmenn um 81.246.000, þar á meðal 57.951.000 nemendur.[48]

Háskólamenntun í Kína[breyta | breyta frumkóða]

Bekkjarmynd nemenda við bókmenntadeild Renmin háskóla í Peking í Kína.
Bekkjarmynd nemenda við bókmenntadeild Renmin háskóla í Peking í Kína.

Æðri menntun – háskólamenntun – í Kína er skipt í tvo flokka: Í fyrsta lagi nám við háskóla sem bjóða upp á fjögurra ára eða fimm ára grunnnám til að veita akademískar gráður; og í öðru lagi nám við framhaldsskóla sem bjóða upp á þriggja ára diplómanám bæði í bóklegum og verklegum greinum. Doktorsnám er aðeins í boði í háskólum og krefst fimm ára náms eftir BS gráðu, og þriggja ára eftir meistaranám.[6]

Á síðustu áratugum hefur háskólastofnunum fjölgað í Kína. Mjög hefur verið hvatt til alþjóðlegs hreyfanleika og alþjóðasamvinnu. Háskólakerfið í Kína hefur þannig orðið æ fjölbreyttara.

Háskólanám í Kína: Fjöldi nemenda og stofnana árið 2020
Háskólanemar Stofnanir
Framhaldsháskólanám 3.139.598 827
       Doktorsnám 466.549
       Meistaranám 2.673.049
Háskólanám 32.852.948 2.738
Háskólanám fyrir fullorðna 7.772.942 265
Háskólanám á Netinu 8.464.464
Einkaháskólar 788
Alls: 52.229.952 4.618
Heimild: Hagstofa Kína 2022: Árbók um hagtölur Kína fyrir 2021.[3]

Á árinu 2020 voru um 52.229.952 háskólanemar í Kína, flestir á aldrinum 18 –22 ára. Þeir námu við 2.738 háskólastofnanir. Þar voru 1.832.982 háskólakennarar í fullu starfi auk 2.668.708 annarra starfsmanna.[3]

Um 827 háskólastofnanir buðu framhaldsgráðu, meistaranám eða doktorspóf. Þær skiptust í 594 venjulegar háskólastofnanir og 233 stofnanir sem eingöngu sinntu rannsóknum.[3]

Árið 2020 voru 3.139.598 nemar í framhalds-háskólamenntun (í meistara- eða doktorsnámi). Árið 2019 voru 703.500 kínverskir nemar í framhaldsháskólamenntun utan Kína.[3]

Val inn í háskóla[breyta | breyta frumkóða]

Austur háskólasvæði Sun Yat-sen, eins af lykilháskólum Kína er staðsett í „Guangzhou háskólaborginni“ samfélag tíu háskólastofnana á eyju í Perlufljóti suður af miðborginni.
Austur-háskólasvæði Sun Yat-sen, eins af lykilháskólum Kína, er staðsett í „Guangzhou háskólaborginni“ samfélag tíu háskólastofnana á eyju í Perlufljóti suður af miðborginni.[49][50]

Talsvert fyrir „Gaokao“ prófið þurfa nemendur að ákveða hvaða grein þeir vilja læra og hvar. Námsplássum í háskólum er úthlutað eftir punktakerfi og fjöldatakmörkunum í deildir og fög (latína: „numerus clausus“).[51]

Góðar niðurstöður úr Gaokao prófi eru nauðsynlegar fyrir inngöngu í háskóla. En jafnvel þó að niðurstöður Gaokao nái yfir allt land, eru umsækjendur um háskólanám innan hvers héraðs valdir umfram þá sem koma utanhéraðs. Prófanámskrár og greinar geta verið mismunandi eftir héruðum. Þá njóta umsækjendur úr minnihlutahópum og frá minna þróuðum svæðum góðs af jákvæðri mismunun.[52]

Í grundvallaratriðum er háskólanám gjaldskylt, þó að nokkrir kostir séu fyrir hendi varðandi styrki, lán eða - sérstaklega fyrir íbúa á landsbyggðinni - niðurfellingu skólagjalda.[51] Upphæð háskólagjalda er mjög mismundandi eftir háskólum en árið 2016 voru meðalgjöldin um $2.200 bandaríkjadollara.[52]

Ókeypis háskólamenntun og tryggt starf að námi loknu lauk í Kína um miðjan tíunda áratuginn síðustu aldar. Það hefur dregið úr getu þeirra efnaminni að senda börnin í háskóla. Sama gildir um þá sem ekki hafa sterkt félagsnet til að tryggja börnum sínum atvinnu að námi loknu. Efnaminni námsmenn í dreifbýli sem verða fyrir atvinnuleysi geta erfilega endurgreitt námslán.[52]

Herþjálfun með námi[breyta | breyta frumkóða]

Herþjálfun nemenda Tsinghua háskóla.
Herþjálfun nemenda Tsinghua háskóla í Pekingborg.

Samkvæmt kínverskum lögum um herþjónustu þurfa allir kínverskir karlmenn á aldrinum 18-22 ára að skrá sig og ganga í skyldubundna herþjónustu. Hjá landhernum þurfa hermenn að þjóna í þrjú ár en fjögur ár í sjó- og flughernum.

Samkvæmt herþjónustulögum og ákvörðunum miðstjórnar Kommúnistaflokksins er hermenntun og herþjálfun í Kína er hluti af menntakerfinu. Skal hún fara fram í upphafi námsannar. Fram að framhaldsskóla æfa nemendur herfylkingu og hreyfingu; Framhaldsskólanemar æfa og læra neyðarrýmingu auk landvarna. Háskólanemar fá formlega herþjálfun og æfingu í neyðarrýmingu.[53]

Tilgangurinn er að efla ættjarðarást og auka skilning á landvörnum; þróa vilja og manngerð; móta heildarhyggju; kynna Kommúnistaflokk Kína; styrkja hugmyndafræði „sósíalisma með kínverskum einkennum“; og að gagnast í síðara námi.[53]

Herþjálfun í venjulegum framhaldsskólum stendur venjulega yfir í um viku og er oftast í upphafi fyrsta árs í framhaldsskólans. Lengd herþjálfunar í venjulegum framhaldsskólum og háskólum er mismunandi. Algengust er tveggja til þriggja vikna þjálfun.[54]

Tæknilega séð er herþjónusta skylda allra kínverskra ríkisborgara, en í reynd hefur lögboðin herþjónusta ekki verið innleidd frá 1949, þar sem ríkishernum, „Frelsisher fólksins“ hefur tekist að ráða nægan fjölda af fúsum og frjálsum vilja. Allir 18 ára karlmenn verða að skrá sig hjá stjórnvöldum. Það þýðir þó ekki í reynd að sá skrái sig þurfi að ganga herinn.[55]

„Tvíþætt forysta“ háskóla- og vísindasamfélags Kína[breyta | breyta frumkóða]

Eftir dauða Maó Zedong árið 1976 voru gerðar ráðstafanir til að koma á reglu og stöðugleika, bæta gæði menntunar og reka háskólastofnanir á skilvirkari hátt. Nokkrir tugir „lykilháskóla“ fengu sérstaka fjármögnun og hæfustu nemendurna fengu meir framgang óháð fjölskyldubakgrunni eða stjórnmála. Smá saman fjölgaði á listi yfir „Lykilháskóla Kína“ sem hafði verið settur saman af stjórnvöldum og fyrst birtur árið 1959. Pólitíkin í Kína tók miklum breytingum undir forystu Deng Xiaoping sem kynnti til sögunnar „fjögur skref til nútímavæðingar“ til að umbylta efnahag landsins. Það voru markmið um framþróun landbúnaðar, iðnaðar, varnarmála og vísinda og tækni í Kína.[56] [57]

Skuldbinding um nútímavæðingu krafðist verulegra framfara í vísindum og tækni. Auka þyrfti akademísk gæði, og skipa yrði vísindum, rannsóknum og þjálfun hærri sess. Opinberir fjármunir til háskóla og til rannsókna jukust verulega og hvatt var til nýsköpunar og alþjóðasamvinnu.[58]

Til að styrkja háskólasamfélagið hafa kínversk stjórnvöld ráðist í nokkur umfangsmikil átaks- og stefnuverkefni á síðustu tveimur áratugum. Þekktust þeirra eru áætlun um „lykilháskóla Kína“[59] [60], „211 verkefnið“[61][62] [63], „C9 deildin“[64], og svokallað „985 verkefni“[65][66].

Öll þessi verkefni um framþróun æðri menntunar hafa nú verið sameinuð í nýja áætlun sem nefnd hefur verið „Tvíþætt forysta“ (enska: „Double First-Class Initiative“).[67] Þar eru markmiðin tvenn: Annars vegar er stefna sett á „háskóla í heimsgæðum“ og hins vegar á að stuðla að „fyrsta flokks akademískri uppbyggingu vísindagreina“[68]. Sameiginlega hefur þetta verið kallað „hin tvíþætt forysta“ kínverskra úrvalsháskóla. Alls verða 140 kínverskir háskólar þróaðir sem elítuháskólar og fyrir árið 2050 er þeim ætlað að komast á lista virtustu háskóla veraldar.[69][70][71]

Staða háskóla Kína í dag[breyta | breyta frumkóða]

Kínverskir háskólar eru margir og ólíkir að gæðum en það segir nokkra sögu að nokkrir þeirra hafa verið að færa sig ofar á alþjóðlegum listum yfir bestu háskóla veraldar. Nokkrir þeirra eru komnir meðal hundrað bestu háskóla heims. Samkvæmt þeim alþjóðlegu listum er meta gæði og árangur háskóla, á borð við „Time Higher Education World University Rankings“[72] (THE), „Shanghai Ranking“[73] (ARWU), „Leiden Ranking“[74] (CWTS) og „U.S. News & World Report“[75] (US News).

Kínverjar er þannig farnir að véfengja ofurvald Vesturlanda á alþjóðamarkaði háskóla. Efstu kínversku háskólarnir hafa nú bætt verulega stöðu sína í alþjóðlegri uppröðun háskóla heimsins.[76]

Einkareknar menntastofnanir[breyta | breyta frumkóða]

Arkitektúr- og tæknistofnun Jilin er einkarekin háskólastofnun í Changchun borg Jilin héraðs í Kína. Árið 2020 voru 1.564 einkareknar háskólastofnanir í Kína.
Arkitektúr- og tæknistofnun Jilin er einkarekin háskólastofnun í Changchun borg, Jilin héraði Kína. Árið 2020 voru 1.564 einkareknar háskólastofnanir í Kína.[77]

Í Alþýðulýðveldinu Kína, sem byggir á kommúnisma, er menntakerfið fyrst og fremst á vegum hins opinbera. Betri efnahagur margra hefur kallað eftir meiri fjölbreytni menntakerfisins. Einkaskólakerfi hrfur því byggst upp smám saman og er orðið talsvert. Það á ekki síst við leikskólastigið og ýmsa sérskóla. Ríkisvaldið hefur bæði leyft og stutt við einkarekstur menntastofnana og þá fræðsluaðila er starfa í hagnaðarskyni. Fyrstu „lögin um eflingu einkamenntunar“ tóku gildi haustið 2003.

Þessi framrás einkaskóla hefur þýtt aukið námsframboð, þar sem reynt er að mæta menntunarþörfum hraðar. Einkaskólar hafa einnig verið brautryðjendur í alþjóðasamstarfi, margir einkareknir leikskólar hafa tekið upp tvítyngda kennslu og ýmsir erlendir háskólar hafa byggt upp aðstöðu í Kína.

Árið 2021 sóttu 56.000.000 nemendur 190.000 einkarekna skóla, þar af 12.000 á grunn- og/eða unglingastigi. Þessir nemendur voru um 20% allra nemenda í Kína.[78] [79]

Mestu munar hér um leikskólastigið. Árið 2020 voru 167.956 einkareknir leiksskólar í Kína með um 23.785.506 börn. Á sama tíma sóttu 9.660.348 nemendur 6.187 einkarekna grunnskóla í Kína. Einkareknir framhaldsskólar voru alls 11.798 með um 13.696.521 nemendur og 8.559.552 háskólanemar stunduðu nám við 1.564 einkareknar háskólastofnanir. Þá voru starfsþjálfunarstofnanir einkaaðila alls 39.516 með 9.896.564 nemendur.[80] - Það er því ljóst að umfang einkageirans á sviði menntunar hefur vaxið mjög í Kína.

Svo hröð hefur þessi þróun verið að í ársbyrjun 2017 lýstu stjórnvöld því yfir að efla yrði forystu kínverska kommúnistaflokksins yfir einkaskólum með því að stofna flokkssamtök í einkaskólum sem ættu að gegna pólitísku kjarnahlutverki og stjórna einkaskólunum af festu í anda sósíalisma.[81] Stjórnvöld fullyrtu að þetta væri gert til að styðja við einkarekna menntun.[82]

Að sama skapi setja stjórnvöld auknar kröfur á hendur einkareknum menntastofnunum.[83] Árið 2021 þrengdi enn meir að einkareknum skólum þegar stjórnvöld tilkynntu um þjóðnýtingu nokkurra þeirra.[84]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fall í embættismannaprófum getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilu samfélögin. Ósáttur Hong Xiuquan, fékk taugaáfall eftir þriðju prófatilraun. Sú fjórða var líka fall. Hong leiddi síðar Taiping uppreisnina. Auk hans lágu miljónatugir í valnum.
Fall í embættismannaprófum getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilu samfélögin. Ósáttur Hong Xiuquan, fékk taugaáfall eftir þriðju prófatilraun. Sú fjórða var líka fall. Hong leiddi síðar Taiping uppreisnina. Þar lágu auk hans, miljónatugir í valnum.[85]
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Education in China“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. ágúst 2022.
  • „Education in China“ (PDF). Organisation for Economic Co-Operation and Development. 2016. Sótt 27. ágúst 2022.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Tsinghua University“, Wikipedia (enska), 30. ágúst 2022, sótt 2. september 2022
  2. „Tsinghua University“. www.tsinghua.edu.cn. Sótt 2. september 2022.
  3. 3,00 3,01 3,02 3,03 3,04 3,05 3,06 3,07 3,08 3,09 Hagstofa Kína 2022 (2022). „China Statistical Yearbook—2021: „21-5. Number of Schools by Type and Level"- „21-1 Number of Schools, Educational Personell and Full-Time Teachers by Type and level (2020)" – „21-2 Number of Students of Formal Education by Type and level (2020)". Hagstofa Kína. Sótt 27. ágúst 2022.
  4. „Système éducatif en république populaire de Chine“, Wikipédia (franska), 16. ágúst 2022, sótt 28. ágúst 2022
  5. Ministry of Education of the People's Republic of China (6. desember 2021). „MOE releases 2020 Statistical Bulletin on Education Spending“. Ministry of Education of the People's Republic of China. Sótt 26. ágúst 2022.
  6. 6,0 6,1 „China“. uis.unesco.org. 27. nóvember 2016. Sótt 28. ágúst 2022.
  7. Schulte, Barbara (2017). „Private schools in the People's Republic of China: Development, modalities and contradictions. (Published in: Private Schools and School Choice in Compulsory Education)“ (PDF) (enska). Lund University 2017. Sótt 27. ágúst 2022.
  8. Virginie Mangin (24. desember 2015). „China's new found love of private education“. BBC (British Broadcasting Corporation) - Worklife. Sótt 27. ágúst 2022.
  9. „An Introduction to China's Public Education System“. Opportunity China. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. ágúst 2022. Sótt 28. ágúst 2022.
  10. UNESCO Institute for Statistics (uis.unesco.org). (júní 2022). „Literacy rate, adult total (% of people ages 15 and above)“. World Bank Group. Sótt 27. ágúst 2022.
  11. „Progress in Numbers - Ministry of Education of the People's Republic of China“. en.moe.gov.cn. Sótt 28. ágúst 2022.
  12. „Ministry of Education of the People's Republic of China“, Wikipedia (enska), 28. ágúst 2022, sótt 28. ágúst 2022
  13. „中央教育工作领导小组“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 13. ágúst 2022, sótt 28. ágúst 2022
  14. Ministry of Education of the People's Republic of China (2022). „MOE: What We Do“. Ministry of Education of the People's Republic of China. Sótt 27. ágúst 2022.
  15. „An Introduction to China's Public Education System“. Opportunity China. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. ágúst 2022. Sótt 28. ágúst 2022.
  16. Hagstofa Kína 2022. (2022). „China Statistical Yearbook—2021: „21-5. Number of Schools by Type and Level". Hagstofa Kína. Sótt 27. ágúst 2022.
  17. UNESCO Institute of Statistics (Júní 2022). „Education and Literacy: Country Profile - China“. UNESCO. Sótt 27. ágúst 2022.
  18. unesdoc.unesco.org https://unesdoc.unesco.org/ark:/48223/pf0000111387. Sótt 28. ágúst 2022. {{cite web}}: |title= vantar (hjálp)
  19. „Education Statistics“. datatopics.worldbank.org. Sótt 28. ágúst 2022.
  20. „Education Statistics“. datatopics.worldbank.org. Sótt 28. ágúst 2022.
  21. 21,0 21,1 „Erziehung in China“, Wikipedia (þýska), 26. janúar 2022, sótt 31. ágúst 2022
  22. „Schulsystem in der Volksrepublik China“, Wikipedia (þýska), 27. júlí 2022, sótt 29. ágúst 2022
  23. Organisation for Economic Co-Operation and Development. (2016). „Education in China- A snapshot“ (PDF). Organisation for Economic Co-Operation and Development. Sótt 27. ágúst 2022.
  24. The Systems Approach for Better Education Results (SABER) Country Report 2016 (2016). „China:Early Childhood Development - SABER Country Report 2016 - The Systems Approach for Better Education Results (SABER)“ (PDF). The World Bank Group. Sótt 27. ágúst 2022.
  25. Lu Mai/Shi Lijia (10. maí 2022). „First step up“. China Daily Global. Sótt 27. ágúst 2022.
  26. „中华人民共和国义务教育“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 5. maí 2022, sótt 29. ágúst 2022
  27. „Education in China“, Wikipedia (enska), 23. ágúst 2022, sótt 29. ágúst 2022
  28. „A brief introduction to the Chinese education system“. A brief introduction to the Chinese education system (enska). Sótt 29. ágúst 2022.[óvirkur tengill]
  29. 29,0 29,1 „A brief introduction to the Chinese education system“. A brief introduction to the Chinese education system (enska). Sótt 29. ágúst 2022.[óvirkur tengill]
  30. „These Chinese School Uniforms Have Korean Students Super Jealous“. Koreaboo (bandarísk enska). 2. september 2018. Sótt 29. ágúst 2022.
  31. „Système éducatif en république populaire de Chine“, Wikipédia (franska), 16. ágúst 2022, sótt 29. ágúst 2022
  32. „Senior High School Entrance Examination“, Wikipedia (enska), 8. maí 2022, sótt 29. ágúst 2022
  33. 33,0 33,1 33,2 „Young Pioneers of China“, Wikipedia (enska), 25. mars 2022, sótt 31. ágúst 2022
  34. „中国少年先锋队“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 25. júní 2022, sótt 31. ágúst 2022
  35. „Schulsystem in der Volksrepublik China“, Wikipedia (þýska), 27. júlí 2022, sótt 30. ágúst 2022
  36. Wikinews (8. júní 2006). „The 2006 college entrance examination in most provinces in mainland China has ended today“ (kínverska). Wikinews. Sótt 31. ágúst 2022.
  37. 37,0 37,1 „Gaokao“, Wikipedia (enska), 30. ágúst 2022, sótt 30. ágúst 2022
  38. „Schulsystem in der Volksrepublik China“, Wikipedia (þýska), 27. júlí 2022, sótt 30. ágúst 2022
  39. Guo, Kai (ChinaDaily). „Scenes from the most important test in China“. www.chinadaily.com.cn. Sótt 30. ágúst 2022.
  40. „Pékin vote une loi pour réduire les devoirs des écoliers“. www.20minutes.fr (franska). Sótt 30. ágúst 2022.
  41. Benjamin Siegel (12. júní 2007). „Stressful Times for Chinese Students“. Þe Time - Hong Kong. Sótt 29. ágúst 2022.
  42. Lamer, Brook (31. desember 2014). "Inside a Chinese Test-Prep Factory". The New York Times. Sótt 29. ágúst 2022.
  43. „Système éducatif en république populaire de Chine“, Wikipédia (franska), 16. ágúst 2022, sótt 30. ágúst 2022
  44. „Education in China“, Wikipedia (enska), 23. ágúst 2022, sótt 30. ágúst 2022
  45. „Schulsystem in der Volksrepublik China“, Wikipedia (þýska), 27. júlí 2022, sótt 30. ágúst 2022
  46. Zou Shuo (25. maí 2022). „Vocational enrollments soar“. China Daily. Sótt 30. ágúst 2022.
  47. „Communist Youth League of China“, Wikipedia (enska), 23. ágúst 2022, sótt 31. ágúst 2022
  48. „中国共产主义青年团“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 22. júlí 2022, sótt 31. ágúst 2022
  49. „Sun Yat-sen University“, Wikipedia (enska), 15. ágúst 2022, sótt 2. september 2022
  50. „Guangzhou Higher Education Mega Center“, Wikipedia (enska), 2. júní 2022, sótt 2. september 2022
  51. 51,0 51,1 „Schulsystem in der Volksrepublik China“, Wikipedia (þýska), 27. júlí 2022, sótt 31. ágúst 2022
  52. 52,0 52,1 52,2 „Système éducatif en république populaire de Chine“, Wikipédia (franska), 16. ágúst 2022, sótt 31. ágúst 2022
  53. 53,0 53,1 „Military education and training in China“, Wikipedia (enska), 18. maí 2022, sótt 31. ágúst 2022
  54. „普通高等学校和高中阶段学校学生的军事训练“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 29. júní 2022, sótt 31. ágúst 2022
  55. „Conscription in China“, Wikipedia (enska), 22. júní 2022, sótt 31. ágúst 2022
  56. „Four Modernizations“, Wikipedia (enska), 26. maí 2022, sótt 1. september 2022
  57. „四个现代化“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 13. ágúst 2022, sótt 1. september 2022
  58. „Education in China“, Wikipedia (enska), 23. ágúst 2022, sótt 1. september 2022
  59. „National Key Universities“, Wikipedia (enska), 31. júlí 2022, sótt 1. september 2022
  60. „全国重点大学“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 2. júní 2022, sótt 1. september 2022
  61. SICAS (21. ágúst 2017). „Best Universities in China“. SICAS - EduChinaLINK Co. Sótt 31. ágúst 2022.
  62. „Project 211“, Wikipedia (enska), 27. ágúst 2022, sótt 1. september 2022
  63. „C9 League“, Wikipedia (enska), 22. ágúst 2022, sótt 1. september 2022
  64. „C9 League“, Wikipedia (enska), 22. ágúst 2022, sótt 1. september 2022
  65. „Project 985“, Wikipedia (enska), 27. ágúst 2022, sótt 1. september 2022
  66. „985工程“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 18. ágúst 2022, sótt 1. september 2022
  67. Zhu Ying- Xinhua News Agency (5. nóvember 2015). „World-class universities, what else is China lacking?“. Central government portal www.gov.cn 2015 - Xinhua News Agency. Sótt 31. ágúst 2022.
  68. China State Council -Guo Fa (2015) No. 64 - (5. nóvember 2015). „Circular of the State Council on Printing and Distributing the Overall Plan for Promoting the Construction of World-Class Universities and First-Class Disciplines“. Notice of the State Council on Printing and Distributing the Overall Plan for Promoting the Construction of World-Class Universities and First-Class Disciplines. Sótt 31. ágúst 2022.
  69. Ministry of Education of the People's Republic of China. (16. febrúar 2022). „China to further promote the Double First-Class Initiative“. Ministry of Education of the People's Republic of China. Sótt 31. ágúst 2022.
  70. „C9 League“, Wikipedia (enska), 22. ágúst 2022, sótt 1. september 2022
  71. „Double First Class University Plan“, Wikipedia (enska), 27. ágúst 2022, sótt 1. september 2022
  72. „World University Rankings“. Times Higher Education (THE) (enska). 25. ágúst 2021. Sótt 2. september 2022.
  73. ARWU (2022). „The Academic Ranking of World Universities (ARWU)-1000 Institutions“. The Center for World-Class Universities (CWCU), Graduate School of Education of Shanghai Jiao Tong University, China. Sótt 31. ágúst 2022.
  74. CWTS - Centre for Science and Technology Studies (2022). „CWTS Leiden Ranking 2022“. Centre for Science and Technology Studies, Leiden University, The Netherlands. Sótt 31. ágúst 2022.
  75. U.S. News & World Report (2022). „2022 Best Global Universities Rankings“. U.S. News & World Report. Sótt 31. agúst 2022.
  76. Ádám Török and Andrea Magda Nagy (16. október 2020). „China: A candidate for winner in the international game of higher education?“. Acta Oeconomica - Volume/Issue: Volume 70: Issue S. Sótt 31. ágúst 2022.
  77. „吉林建筑科技学院“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 11. ágúst 2021, sótt 2. september 2022
  78. „Education in China“, Wikipedia (enska), 23. ágúst 2022, sótt 2. september 2022
  79. Sun Yu (11. ágúst 2021). „Private school owners forced to hand institutions over to Chinese state“. Financial Times. Sótt 1. september 2022.
  80. Hagstofa Kína 2021 (2021). „„China Statistical Yearbook—2021: „21-3 Number of Schools, Educational Personnel and Full-time Teachers of Non-public Schools by Type Level (2020)" AND „21-4 Statistics on Students of Non-public by Type and Level (2020)" (enska). Hagstofa Kína. Sótt 1. september 2022.
  81. State Department (18. janúar 2017). „State Council on encouraging social forces to set up education - Several Opinions on Promoting the Healthy Development of Private Education- Guo Fa (2016) No. 81“ (kínverska). State Department. Sótt 1. september 2022.
  82. Source: Xinhua News Agency (7. nóvember 2016). „How much will the law revision affect private education?“ (kínverska). State Department.
  83. Xinhua News Agency (1. desember 2018). „Beijing gets tough with private education institutions“. Xinhua News Agency. Sótt 1. september 2018.
  84. Sun Yu (11. ágúst 2021). „Private school owners forced to hand institutions over to Chinese state“. Financial Times. Sótt 1. september 2022.
  85. „Imperial examination“, Wikipedia (enska), 16. ágúst 2022, sótt 1. september 2022