Fara í innihald

Menningar- og minningarsjóður kvenna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Menningar- og minningarsjóður kvenna er íslenskur sjóður sem stofnaður var þann 27. september 1941.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti hugmyndina að stofnun sjóðsins og var honum ætlað að styrkja konur til náms, bæði hér á landi sem og erlendis með náms- og ferðastyrkjum. Sjóðnum var einnig ætlað að styrkja konur til ritstarfa eða verðlauna ritgerðir um þjóðfélagsmál er varða áhuga kvenna. Í skipulagsskrá sjóðsins var nefnt að „komi þeir tímar, að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu vinnu og sömu aðstæður til menntunar, efnalega, lagalega og samkvæmt almenningsáliti, þá skulu bæði kynin hafa jafnan rétt til styrkveitinga úr sjóði þessum."[1]

Sjóðurinn var formlega stofnaður 27. september 1941 en þann dag hefði Bríet orðið 85 ára gömul en hún lést rúmu ári áður. Börn Bríetar þau Laufey Valdimarsdóttir og Héðinn Valdimarsson lögðu fram tvö þúsund krónur í stofnframlag sem dánargjöf frá móður þeirra.[2] Um árabil var það árviss viðburður að á stofndegi sjóðsins færi fram merkjasala og önnur fjáröflun til handa sjóðnum. Helsta tekjulind sjóðsins voru hins vegar minningar- og dánargjafir og fylgdi sjóðnum sérstök bók sem í voru geymd nöfn, myndir og helstu æviatriði þeirra sem minnst var með framlögum í sjóðinn.[1]

Áherslur sjóðsins hafa verið mismunandi frá ári til árs. Árið 2009 var óskað eftir umsóknum frá atvinnulausum konum 30 ára eða eldri sem áætluðu að hefja nám árið 2009.[3] Árið 2011 auglýsti sjóðurinn eftir umsóknum frá einstæðum mæðrum í námi á framhaldsskólastigi sem áttu ekki rétt á námsláni[4] og árið 2014 úthlutaði sjóðurinn ferðastyrkjum til kvenna sem sinna ritstörfum er lúta að þjóðfélagslegum rannsóknum er varða stöðu og réttindi kvenna.[5]

Sjóðurinn er í vörslu Kvenréttindafélags Íslands.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Svafa Þorleifsdóttir, „Menningar- og minningarsjóður kvenna“, Melkorka, 2. tbl. 6. árg. 1950.
  2. „Menningar- og minningarsjóður kvenna 50 ára“ Morgunblaðið, 27. september 1991 (skoðað 27. september 2019)
  3. Felagsradgjof.is, „Menningar- og minningarsjóður kvenna“ Geymt 27 september 2019 í Wayback Machine (skoðað 27. september 2019)
  4. Gamla.fns.is, „Minningar- og menningarsjóður kvenna auglýsir eftir styrkumsóknum“ Geymt 27 september 2019 í Wayback Machine (skoðað 27. september 2019)
  5. Kvenrettindafelag.wordpress.is, „Fjórar konur fengu styrk frá Menningar- og minningarsjóði kvenna“ (skoðað 27. september 2014)