Matthildur af Boulogne
Matthildur eða Maud (1105? – 3. maí 1152) var greifaynja af Boulogne í Frakklandi og drottning Englands frá 1135 til dauðadags, kona Stefáns Englandskonungs og einn öflugasti stuðningsmaður hans í borgarastyrjöldinni um miðja 12. öld.
Matthildur var fædd í Boulogne og var dóttir Eustace 3. greifa af Boulogne og konu hans, Maríu af Skotlandi, dóttur Melkólfs 3. Skotakonungs og heilagrar Margrétar af Skotlandi. Hún var einkabarn foreldra sinna. Árið 1125 giftist hún Stefáni af Blois og þá sagði faðir hennar af sér og gekk í klaustur en Matthildur og Stefán tóku við stjórn Boulogne. Þau dvöldu þó oft í London því bæði áttu miklar eignir í Englandi og Stefán var í uppáhaldi hjá móðurbróður sínum, Hinrik konungi 1.
Þegar Hinrik dó 1135 flýtti Stefán sér til Englands og tókst að fá sig samþykktan sem konung þótt Hinrik hefði ætlað dóttur sinni, Matthildi keisaraynju, krúnuna og fengið aðalsmenn, þar á meðal Stefán, til að sverja henni hollustu. Matthildur keisaraynja var mjög ósátt við að missa krúnuna úr höndum sér og brátt kom til borgarastyrjaldar sem stóð í mörg ár og hefur verið kölluð Stjórnleysið. Matthildur keisaraynja náði Stefáni konungi á sitt vald vorið 1141 og hélt honum föngnum en Matthildur drottning hvatti fylgismenn hans til dáða og tókst að kveða upp herafla og náði hálfbróður og herforingja Matthildar keisaraynju, Róbert hertoga af Gloucester, á sitt vald og gat haft fangaskipti á honum og Stefáni konungi. Matthildur var mun meiri skörungur en maður hennar, sem þótti lítill stjórnandi.
Árið 1151 afhenti Matthildur Eustace, eldri eftirlifandi syni þeirra hjóna og líklegum ríkisarfa Englands, greifadæmið Boulogne. Hún dó svo ári síðar. Eustace dó skyndilega 1153 og þá erfði Vilhjálmur, yngri bróðir hans, Boulogne en varð hins vegar ekki Englandskonungur eftir föður sinn. Vilhjálmur dó barnlaus og María, eina eftirlifandi barn Matthildar og Stefáns, var þá þvinguð til að yfirgefa klaustrið sem hún hafði dvalist í frá barnsaldri og giftast til að tryggja hertogadæminu erfingja.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Matilda of Boulogne“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. ágúst 2010.