Mary Wortley Montagu

Lafði Mary Wortley Montagu, fædd Pierrepont (15. maí 1689 – 21. ágúst 1762), var ensk hefðarkona, rithöfundur, skáld og baráttukona fyrir ónæmissetningum í Bretlandi, mörgum áratugum á undan Edward Jenner.[1] Hún var af breskum háaðli og fæddist í Nottinghamskíri þar sem hún hlaut litla formlega menntun. Hún giftist Edward Wortley Montagu árið 1712. Árið 1715 smitaðist hún af bólusótt eftir að hún fluttist til eiginmanns síns í London. Þremur árum áður hafði bróðir hennar látist úr sjúkdómnum. Hún lifði af en andlit hennar bar greinileg merki sjúkdómsins.[2]
Árið 1716 var Edward skipaður sendiherra Breta við hirð Tyrkjasoldáns í Konstantínópel. Lafði Mary skrifaði bæði bréf og dagbækur frá ferðum þeirra þangað og dvölinni í Tyrkjaveldi. Þar varð hún vitni að aðferð við ónæmissetningu sem fólst í því að taka vessa úr bólu sjúklings með bólusótt og smita aðra með honum með nál. Þau sem smituðust með þessari aðferð fengu miklu vægari sjúkdómseinkenni og varanlegt ónæmi í kjölfarið.[3] Í kjölfarið tók hún ákvörðun um að nota þessa aðferð á son þeirra Edwards, Edward Wortley Montagu yngri. Skömmu eftir að þau sneru aftur til Englands eftir tvö ár í Tyrkjaveldi gekk nýr bólusóttarfaraldur yfir Bretlandseyjar. Þá hóf hún að auglýsa þessa aðferð og lét ónæmissetja dóttur sína opinberlega. Hún sannfærði Karólínu af Ansbach, prinsessu af Wales, um að nota þessa aðferð á dætur sínar, eftir prófanir á föngum og munaðarleysingjum. Þessi aðferð var harðlega gagnrýnd af Torýum sem þá voru í stjórnarandstöðu og lafði Mary var sökuð um að auglýsa alþýðulækningar úr kerlingabókum frumstæðra þjóða.[4]
Á seinni árum skrifaðist hún á við skáldið Alexander Pope, en hann snerist gegn henni og réðist harkalega á hana í kvæðinu Dunciad 1728. Árið 1741 hélt hún í ferðalag um Evrópu án eiginmanns síns og settist loks að í Feneyjum.[5] Edward lést árið 1761. Þá sneri hún aftur til Englands í gegnum Holland (þar sem Frakkland átti í stríði við Breta). Þar hitti hún dóttur sína og barnabörn áður en hún dó í ágúst 1762, líklega úr krabbameini. Eftir lát hennar lét dóttir hennar brenna dagbækur hennar af ótta við hneyksli, en áður hafði hún skilið handrit að uppkasti með dagbókarfærslum og afritum af bréfum eftir hjá enskum presti í Rotterdam. Þetta handrit kom síðar út sem Turkish Embassy Letters og vakti mikla athygli.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Donna Ferguson (28. mars 2021). „How Mary Wortley Montagu's bold experiment led to smallpox vaccine – 75 years before Jenner“. The Guardian.
- ↑ Isobel Grundy, ritstjóri (1997). Lady Mary Wortley Montagu: Selected Letters. Penguin Books.
- ↑ Lindemann, Mary (2013). Medicine and Society in Early Modern Europe. Cambridge University Press. bls. 74. ISBN 978-0521732567.
- ↑ Grundy, Isobel (2000). „Montagu's variolation“. Endeavour. 24 (1): 4–7.
- ↑ Grundy, Isobel (2004). „Montagu, Lady Mary Wortley [née Lady Mary Pierrepont] (bap. 1689, d. 1762), writer“. Oxford Dictionary of National Biography (online ed.). Oxford University Press. doi:10.1093/ref:odnb/19029.
- ↑ Halsband, Robert (1956). The Life of Lady Mary Wortley Montagu. Clarendon Press. bls. 289. ISBN 978-0198115489.