Margrét Hjálmarsdóttir kveður 33 rímnastemmur - Þetta er gamall þjóðarsiður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Margrét Hjálmarsdóttir kveður 33 rímnastemmur - Þetta er gamall þjóðarsiður
Forsíða Margrét Hjálmarsdóttir kveður 33 rímnastemmur - Þetta er gamall þjóðarsiður

Bakhlið Margrét Hjálmarsdóttir kveður 33 rímnastemmur - Þetta er gamall þjóðarsiður
Bakhlið

Gerð SG - 136
Flytjandi Margrét Hjálmarsdóttir
Gefin út 1980
Tónlistarstefna Rímnakveðskapur
Útgáfufyrirtæki SG - hljómplötur

Margrét Hjálmarsdóttir kveður 33 rímnastemmur - Þetta er gamall þjóðarsiður er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG - hljómplötum árið 1980. Á henni flytur Margrét Hjálmarsdóttir 33 rímnastemmur. Myndin á framhlið umslagsins er eftir franska listamanninn Auguste Mayer, sem kom til Íslands 1836. Hann gerði þá fjölda mynda af íslendingum og íslenzku landslagi.

Lagalisti[breyta | breyta frumkóða]

 1. Faxaríma - Lag - texti: Jón Magnússon 23 vísur - 4 stemmur Hljóðdæmi 
 2. Brama-Lífelexír - Lag - texti: Grímur Thomsen 8 vísur - 1 stemma
 3. Vorkoma - Lag - texti: María Bjarnadóttir 7 vísur - 2 stemmur
 4. Veiðiför - Lag - texti: Jón Thóroddsen 12 vísur — 2 stemmur
 5. Hjálmar og Ingibjörg (Hjálmarskviða) - Lag - texti: Sigurður Bjarnason 18 vísur - 4 stemmur
 6. Ferskeytlan - Lag - texti: María Bjarnadóttir 10 visur 2 stemmur
 7. Fyrsti maí - Lag - texti: Þorsteinn Erlingsson 12 vísur - 4 stemmur
 8. Göngu-Hrólfs rímur - Lag - texti: Bólu-Hjálmar 15 vísur - 3 stemmur
 9. Heiðin heillar og lausavísur - Lag - texti: Ásgrímur Kristinsson 12 vísur - 5 stemmur
 10. Í dögun - Lag - texti: Stephan G. Stephansson 19 vísur - 4 stemmur
 11. Vetur og sumar - Lag - texti: Bólu Hjálmar 6 vísur - 1 stemma
 12. Stökur - Lag - texti: Hallgrímur Jónasson 10 visur - 1 stemma.

Rímur[breyta | breyta frumkóða]

Rímur eru frásagnakvæði. Oft eru það mjög langar sögur, sem snúið er í bundið mál. Höfuðeinkenni rímna eru bragarhættir þeirra og afar fastbundið rímform. Vísurnar eru ýmist ferhendur, (4 ljóðlínur), þríhendur (þrjár ljóðlínur) eða tvíhendur (2 ljóðlínur). Eftir bragliðafjölda (lengd hverrar ljóðlínu) og fjölda ljóðlína hefir þeim verið skipt í flokka, en af þeim er til fjöldi rímafbrigða, sem öll hafa sín eigin nöfn. Bragarhættir rímna voru einnig hafðir við ýmiskonar aðra veraldlega vísnaflokka og lausavísur, og eru enn.

Elstu varðveittar rímur eru frá 14. öld og hafa menn í margar aldir skemmt með rímum í gömlu baðstofunum, á löngum vetrarkvöldum, meðan fólkið sat við kvöldvinnu sína. Rímurnar voru fluttar með sérstökum rímnalögum og var sönghreimurinn og raddbeitingin mjög hefðbundin, en meðferð kvæðamannsins á lögunum nokkuð frjáls og persónuleg. "Mikill fjöldi rímnalaga barst um landið og voru jafnt kveðin við rímur og aðrar veraldlegar vísur, sem kvæðahæfar voru, en hver lærði af öðrum. Önnur rímnalög voru meira bundin við ákveðna staði og jafnvel einstaka kvæðamenn.

Rímnakveðskapur og annar vísnakveðskapur með rímnalögum var í hávegum hafður fram undir lok 19. aldar en varð eftir það að láta undan síga fyrir áhrifum annars söngs og ljóðforma. Síðan hefir þessi þáttur íslenskrar arfleifðar verið í hættu og eru nú orðnir fáir, sem kunna að kveða með fornum hætti.

Margrét Hjálmarsdóttir ólst upp við hinn gamla hefðbundna kveðskap, þar sem foreldrar hennar og systkini voru öll góðir kvæðamenn og kveðskapurinn lærðist um leið og móðurmálið og á sama hátt og það. Margrét er þekkt fyrir kveðskap sinn, en hún hefir kveðið viða, m. a. í útvarp, bæði á Íslandi og erlendis, auk þess sem hún hefir kveðið á skemmtunum og ýmsum samkomum. Hún hefir mikið unnið að því að bjarga rímnakveðskapnum frá glötun, einkum með því að hljóðrita upp á segulbönd eftir gömlum kvæðamönnum og koma því á söfn til varðveislu. Margréti hefir tekist flestum betur að varðveita hinn upphaflega hreim og meðferð íslenskra rímnalaga.

 

Rímnastemmurnar[breyta | breyta frumkóða]

1. Faxaríma - Langhenda - Jón Magnússon. Um afbragðs hest, sem heitir Faxi. Fátækur bóndi gleymir amstri daganna við að rifja upp gleðistundirnar með hestinum sínum og minnist svaðilfara þeirra og samverustunda í blíðu og stríðu.

2. Brama-lífselexír - Ferskeytla - Grímur Thomsen. Gamanvísur um undralyfið Brama-lífselexír, eða „Brama", sem vinsælt var á 19. öld og átti að gera óþörf öll önnur lyf. Jafnvel bestu læknar eru óþarfir og Braminn bætir öll mein skáldsins og gerir það máske ódauðlegt.

3. Vorkoma 1912 - Hringhenda — María Bjarnadóttir. Íslenskir vetur eru langir og harðir og fagnaðarljóð um komu vorsins er sígilt yrkisefni. Jörðin losnar úr klakaböndum og allt, sem lifir vaknar sem af blundi og syngur dýrðaróð um vorkomuna, meðan sólin hækkar á loftí og dagar lengjast uns ekki er lengur nótt og myrkur.

4. Veiðiför (upphaf) - Afhending (tuíhenda) - Jón Thoroddsen. Gamanvísur, þar sem skáldið lýsir sér sem fiskimanni á bát skáldaguðsins. Fyrst er að rísa upp og gá til veðurs og athuga hvað aðrir ætla að gera. Líklega ætla þeir að róa og þá er rétt að búa sig af stað líka.

5. Hjálmar og Ingibjörg (Hjálmarskviða) - Hringhenda - Sigurður Bjamason. Ríma, ort 1860 út af kafla úr sögu af Örvar-Oddi, sem er ein af Fornaldarsögum Norðurlanda. Tólf berserkir ryðjast inn í jólaveislu hjá svíakonungi til að biðja Ingibjargar kóngsdóttur einum þeirra til handa, en Ingibjörg hafnar bónorðinu, þar sem hún er heitbundin Hjálmari ,,hugumstóra". Berserkimir reiðast og einn þeirra skorar Hjálmar á hólm. Seinna í rímunni segir frá því er þeir berjast, berserkurinn og Hjálmar og falla báðir, en Ingibjörg springur af harmi.

6. Ferskeytlan - Hringhenda - María Bjamadóttir. Ferskeytlan er fjögurra hendinga vísa og algengasta vísnaformið. Hér telur skáldið, að ferskeytlan hafi best hjálpað þjóðinni til að halda við tungu sinni og harmar að hún virðist á undanhaldi fyrir nýrri ljóðaformum og tísku.

7. Fyrsti maí - Nýhenda — Þorsteinn Eriingsson. Skáldið, sem býr í Danmörku, sér skógarþröst sitja þögulan á grein og minnist þá þrastasöngsins á sumarkvöldum, heima á Íslandi. Það er komið sumar í Danmörku og bráðum fer að vora á norðurslóðum, en þá mun þrösturinn fljúga til hinna björtu nátta sumarheimkynnanna og hefja þar sinn dillandi söng á hríslu í dalnum grænum.

8. Gönguhrólfs-rímur - Hagkveðlingaháttur - Bólu-Hjálmar. Þetta er kafli úr löngum rímum og segir frá því að Göngu-Hrólfur er liðfár að berjast við ofurefli, þegar að landi sigla víkingaskip og á land ganga 1500 kappar til liðs við þá Hrólf. Hefst þá hinn grimmilegasti bardagi.

9. Heiðin heillar og lausavísur - Hringhenda - Ásgrímur Kristinsson. Heiðin heillar eru minningar bóndans um haustferðirnar inn á heiðar til að smala fénu. Frelsið og fjallasýnin á heiðunum heillar gangnamennina svo þeir hleypa hestunum á sprett, en gneistar hrjóta undan skeifum er þær glymja við grjóti. Lausavísur eru lýriskar stemningar.

10. Í dögun - Hringhenda — Stephan G. Stephansson. Vesturíslenska skáldið lýsir hér af hrifningu hvernig náttúran vaknar við sólaruppkomuna, skuggar næturinnar flýja fyrir andliti sólar og næturþokan læðist í burtu, en í ljós kemur fegurð náttúrunnar, sem lyftir anda skáldsins á flug og léttir því vanda lífsins.

11. Vetur og sumar - Sléttubönd - Bólu-Hjálmar. Sléttubönd er vandasamur bragarháttur, sem má fara með jafnt afturábak sem áfram og jafnvel á fleiri vegu, án þess rím og efni breytist. Hér má „velta" vísunum á fjóra vegu, eins og segir í síðustu vísunni. Skáldið lýsir hér andstæðum áhrifum veturs og sumars á náttúruna.

12. Stökur - Braghenda (þríhenda) — Hallgrímur Jónasson. Skáldið yrkir um hinn vinsæla bragarhátt, ferhenduna, sem fylgir íslendingum hvar sem þeir fara og speglar tilfinningar þeirra í gleði og sorg. Ferhendan hefir lifað með þjóðinni kynslóð eftír kynslóð og þennan gamla þjóðarsið má ekki leggja niður.