Fara í innihald

Marcus Aemilius Lepidus (ræðismaður 46 f.Kr.)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynt með mynd af Lepidusi

Marcus Aemilius Lepidus (um 89 f.Kr. – 12 eða 13 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður og herstjórnandi, þekktastur fyrir að hafa tekið þátt í síðara þremenningasambandinu.

Lepidus var stuðningsmaður Júlíusar Caesars og stýrði Rómaborg á meðan Caesar var á Grikklandi að berjast við Pompeius. Þegar Caesar hafði tryggt sér völdin í Rómaveldi sá hann til þess að hann og Lepidus voru kosnir ræðismenn árið 46 f.Kr.. Einnig gerði Caesar Lepidus að meistara hestsins (magister equitum), ásamt Marcusi Antoniusi, og voru þeir tveir þá helstu aðstoðarmenn Caesars. Þegar Caesar var myrtur árið 44 f.Kr. vildi einn helsti samsærismaðurinn, Gaius Cassius Longinus, einnig myrða Lepidus og Marcus Antonius en Marcus Junius Brutus hnekkti þeirri ákvörðun og Lepidus slapp því. Eftir dauða Caesars tók Lepidus við embætti æðsta trúarleiðtoga (pontifex maximus) og hélt hann því embætti til dauðadags.

Árið 43 f.Kr. myndaði Lepidus síðara þremenningasambandið með Marcusi Antoniusi og Octavíanusi, erfingja Caesars. Þremenningasambandið var stofnað til fimm ára og tóku þeir í raun öll völd í vesturhluta Rómaveldis. Samkvæmt samkomulaginu tók Lepidus við stjórn Hispaníu og Gallíu Narbonensis. Á meðan var austurhluti Rómaveldis á valdi Brutusar og Cassiusar, morðingja Caesars. Þremenningasambandið var í raun stofnað til höfuðs Brutusi og Cassiusi og því fóru Octavíanus og Marcus Antonius til Grikklands til að mæta þeim og börðust fylkingarnar í orrustunni við Filippí. Octavíanus og Antonius höfðu betur í orrustunni en á meðan herferðinni stóð var Lepidus í Róm. Að orrustunni lokinni var heimsveldinu öllu deilt upp í valdasvæði þremenninganna og að þessu sinni hlaut Lepidus stjórn yfir Africu og Numidiu á meðan Octavíanus og Antonius hlutu báðir mun stærri yfirráðasvæði. Staða Lepidusar innan þremenningasambandsins varð veik við þetta og dvínuðu völd hans jafnt og þétt. Eftir að hafa deilt við Octavíanus um völd yfir Sikiley yfirgáfu flestir stuðningsmenn Lepidusar hann og í kjölfarið missti hann öll sín embætti að undanskildu embætti pontifex maximus.