Fara í innihald

María Corina Machado

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
María Corina Machado
María Corina Machado árið 2023.
Fædd7. október 1967 (1967-10-07) (58 ára)
ÞjóðerniVenesúelsk
MenntunUniversidad Católica Andrés Bello (BS)
Instituto de Estudios Superiores de Administración (MS)
FlokkurVente Venezuela (frá 2012)
MakiRicardo Sosa Branger (sk. 2001)
Börn3
VerðlaunVáclav Havel-mannréttindaverðlaunin (2024)
Sakharov-verðlaunin (2024)
Friðarverðlaun Nóbels (2025)
Undirskrift

María Corina Machado Parisca (f. 7. október 1967) er venesúelsk stjórnmálakona. Hún er einn stofnenda kosningaeftirlitshópsins Súmate[1] og sat á þingi frá 2011 til 2014 fyrir annað kjördæmið í fylkinu Miranda.

Machado er einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar gegn Nicolás Maduro forseta. Þrátt fyrir að hafa oft orðið fyrir hótunum dvelst hún enn í Venesúela en fer huldu höfði. Hún hlaut Václav Havel-verðlaunin frá Evrópuráðsþinginu og Sakharov-verðlaunin frá Evrópuþinginu árið 2024 og friðarverðlaun Nóbels næsta ár.

Æska og menntun

[breyta | breyta frumkóða]
George W. Bush tekur á móti Maríu Corinu Machado í Hvíta húsinu þann 31. maí 2005.

María Corina Machado fæddist í Karakas þann 7. október 1967. Hún var elst fjögurra systkina.[2] Faðir hennar, Henrique Machado Zuloaga, er viðskiptamaður sem erfði raforkufyrirtækið Electricidad de Caracas og stáliðnaðarfyrirtækin Siense (stærstu einkareknu stálframleiðslu í Venesúela og Sidetur (dótturfyrirtæki Sivensa, sem var þjóðnýtt árið 2010).[2] Móðir hennar, Corina Parisca, er sálfræðingur.[2]

María Corina Machado gekk í fínan kaþólskan stúlknaskóla í Karakas og hlaut styrk til að ganga í Wellesley-háskóla í Massachusetts.[3] Í viðtali við New York Times lýsti hún æsku sinni sem svo að hún hafi verið „vernduð fyrir snertingu við veruleikann“.[4]

Machado útskrifaðist með gráðu í verkfræði frá Kaþólska Andrés-Bello-háskólanum og mastersgráðu í fjármálum frá stjórnsýsluháskólanum Instituto de Estudios Superiores de Administración. Hún hóf starfsferil sinn hjá fjölskyldufyrirtækinu Sivensa en vann síðan með móður sinni á barnaheimili.[2][3]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

María Corina Machado hóf feril í stjórnmálum árið 2002 þegar hún tók þátt í stofnun samtakanna Súmate, sem hafa það að markmiði að tryggja kosningaréttindi og vakta kosningar. Samtökin studdu valdaránstilraunina gegn Hugo Chávez forseta árið 2002 og Marúa Corina Machado var viðstödd í forsetahöllinni þegar Pedro Carmona var svarinn í embætti forseta til bráðabirgða af valdaránsmönnum.[3] Hún skrifaði undir „Carmona-tilskipunina“ þar sem fyrirskipað var að þing skyldi rofið og kjörnum stjórnmálamönnum vikið úr embætti.[5]

Árið 2004 safnaði Machado þremur milljónum undirskrifta á lista þar sem þess var krafist að Hugo Chávez segði af sér. Henni var í kjölfarið bannað að yfirgefa Venesúela.[6] Árið 2005 var hún sökuð um landráð ásamt öðrum fulltrúum Súmate fyrir að hafa tekið við fjármagni frá bandarísku samtökunum National Endowment for Democracy, sem vinna að eflingu frjálslynds lýðræðis. Beita átti fjármununum, sem námu 31.150 Bandaríkjadölum, í kosningaherferð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um brottvikningu Hugo Chávez úr embætti sem haldin var árið 2004.[7] Þar sem fjölskylda Machado varð fyrir líflátshótunum sendi hún börn sín til að búa með móður hennar í Bandaríkjunum.[6]

Í febrúar 2010 hætti Machado störfum hjá Súmate og lýsti yfir framboði á venesúelska þingið. Hún var kjörin árið 2010 í öðru kjördæmi Miranda-fylkis.[8] Þann 13. janúar 2012 fordæmdi Machado Chávez í þingræðu í beinni útsendingu og kallaði hann þjóf vegna eignaupptöku stjórnarinnar á fyrirtækjum án endurgjalds.[6] Árið 2012 sagði flokkur hennar upp aðild að kosningabandalagi stjórnarandstöðunnar, Mesa de la Unidad Democrática (MUD), og gagnrýndi það fyrir valdboðshneigð og „félagslegt sambandsleysi“.[9]

Í mars 2014 var Machado vikið úr þingsæti sínu fyrir að hafa verið í sendinefnd erlends ríkis, Panama, á fundi Samtaka Ameríkuríkja, sem kjörnum þingmönnum er bannað að gera samkvæmt stjórnarskrá Venesúela. Henni var bannað að koma á þingið 1. apríl 2014 og lögregla tvístraði mótmælahópi stuðningsmanna hennar með táragasi þegar hæstiréttur landsins staðfesti embættissviptinguna. Machado sagði þetta staðfesta að í Venesúela ríkti einræði og kallaði ákvörðunina þungt högg gegn stjórnarskránni.[10]

Árið 2014 stofnaði Machado ásamt Leopoldo López hreyfinguna La Salida til að skipuleggja mótmæli gegn Nicolás Maduro forseta, eftirmanni Chávez, sem Machado neitaði að viðurkenna sem réttkjörinn forseta.[5] Árið 2019 studdi hún tilkall Juans Guaidó til forsetaembættisins.[6]

María Corina Machado á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Rio de Janeiro árið 2011.

Þann 22. október 2023 hlaut Machado 93,13 % atkvæða[11] í prófkjöri sem stjórnarandstaðan skipulagði fyrir forsetakosningar Venesúela árið 2024.[12] Ríkisendurskoðandi Venesúela hafði hins vegar gert opinbera úttekt á fjármálum Machado og bannað henni í júní 2023 að gegna opinberu embætti til ársins 2030.[13] Hann sakaði hana um fjármálamisferli og um að styðja efnahagsþvinganir sem Bandaríkin höfðu lagt á Venesúela.[11] Þann 27. janúar 2024 bannaði Hæstiréttur Venesúela Machado að gefa kost á sér í forsetakosningunum.[14] Þann 24. mars 2024 tilkynnti Maria Corina Machado að Corina Yoris myndi bjóða sig fram fyrir hana í forsetakosningunum 28. júlí[15] en þetta framboð var einnig ógilt. Að endingu varð Edmundo González Urrutia frambjóðandi sameinaðrar stjórnarandstöðu í kosningunum og Machado lýsti yfir stuðningi við hann. Í skoðanakönnun Datincorp í apríl 2024 mældist González Urrutia með 50% fylgi en Nicolás Maduro aðeins með 18%.[16][17] Þrátt fyrir að verða fyrir hótunum í Venesúela ákvað María Corina Machado að vera áfram í landinu en láta lítið fyrir sér fara og búa á leynilegum stað svo hún gæti haldið áfram að ferðast um landið og breiða út boðskap sinn gegn stjórnvöldum.[18][19]

Þann 30. september 2024 hlaut Machado Václav Havel-verðlaunin frá Evrópuráðsþinginu fyrir störf í þágu mannréttinda.[20] Þann 24. október hlaut hún jafnframt Sakharov-verðlaunin frá Evrópuþinginu ásamt Edmundo González Urrutia fyrir „djarfa baráttu þeirra fyrir endurreisn frelsis og lýðræðis í Venesúela“.[21]

Þann 10. október 2025 hlaut hún friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína fyrir lýðræði og réttlæti gagnvart einræði í Venesúela.[19][22] Hún tileinkaði verðlaunin Donald Trump Bandaríkjaforseta og þakkaði honum fyrir „einarðan stuðning“ hans.[23]

Stjórnmálaskoðanir

[breyta | breyta frumkóða]

María Corina Machado lýsti sjálfri sér sem miðjumanneskju í prófkjöri stjórnarandstöðunnar árið 2023 en franska blaðið Le Monde skilgreindi hana sem hluta af hægri væng stjórnarandstöðunnar í ljósi frjálshyggjusinnaðrar efnahagsstefnu hennar og fyrirætlana um að einkavæða ríkisolíufélagið PDVSA.[11]

Machado hefur tekið harða afstöðu gegn ríkisstjórn Venesúela. Hún styður efnahagsþvinganir Bandaríkjanna gegn landinu[24] og hefur biðlað til Bandaríkjahers að steypa Nicolás Maduro af stóli. Aðrir stjórnarandstæðingar Venesúela hafa gagnrýnt hana fyrir þetta.[25]

Machado lýsti yfir stuðningi við Iván Duque í forsetakosningum Kólumbíu árið 2018, sem hann vann. Hún birtist með honum á kosningasamkomum og varaði við því að forsetaframbjóðandi vinstrimanna, Gustavo Petro, myndi leiða Kólumbíu á sömu braut og Venesúela og Kúba hafa farið.[26]

Machado skrifaði árið 2020 undir svonefnda Madríd-yfirlýsingu, sem spænski stjórnmálaflokkurinn Vox hafði átt frumkvæði að. Yfirlýsingin hafði það að markmiði að sameina róttæka hægriflokka á Spáni og í Rómönsku Ameríku gegn „eiturlyfja-kommúnisma“, vinstrihreyfingum og glæpahreyfingum.[27]

Machado óskaði Javier Milei til hamingju með sigur hans í forsetakosningum Argentínu í nóvember 2023 og sagði árangur hans vera sigur í baráttu Rómönsku Ameríku fyrir breytingum og frelsi.[28]

María Corina Machado styður innlimun Venesúela á Essequibo, héraði sem tilheyrir Gvæjana, en hafnar beitingu hervalds til að ná þessu fram.[29] Hún sakaði Hugo Chávez um að hafa snúið baki við „endurreisn Essequibo“ af pólitískum ástæðum.[30]

Hún sagðist styðja rétt Ísraels til að verja sig í stríðinu á Gaza frá árinu 2023 og sagði að sigra yrði hryðjuverkastarfsemi hvað sem það kostar. Hún á í nánu sambandi við ísraelska forsætisráðherrann Benjamín Netanjahú og stjórnmálaflokkur hennar, Vente Venezuela, skrifaði árið 2020 undir samstarfssamning við ísraelska Likud-flokkinn.[31]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Boustany, Nora. "Signing On To Challenge Hugo Chavez". The Washington Post. Washington, D.C.: 9. júlí 2004. bls. A.15. Skoðað 10. október 2025.
  2. 1 2 3 4 Moleiro, Alonso (28 febrúar 2023). „What is in store for María Corina Machado, the 'iron lady' of the Venezuelan opposition?“. EL PAÍS English (bandarísk enska). Sótt 24 október 2024.
  3. 1 2 3 Julie Turkewitz; Isayen Herrera (24 júlí 2024). „Meet the Woman Leading Venezuela's Opposition to Maduro“. The New York Times (enska).
  4. Juan Forero (18 nóvember 2005). „The woman who enrages Venezuela's leader“. the New York Times (enska).
  5. 1 2 „María Corina Machado, la acusada de un plan magnicida en Venezuela“. BBC News Mundo (spænska). 29 maí 2014.
  6. 1 2 3 4 Suzanne Chauvain (8 febrúar 2019). „María Corina Machado, 20 ans de lutte contre le chavisme“. Lepoint.fr..
  7. „Venezuela: Court Orders Trial of Civil Society Leaders“ (enska). Human Rights Watch. 7 júlí 2005..
  8. María Corina Machado fue la diputada electa con más votos en todo el país con el 85,28% Geymt 1 október 2010 í Wayback Machine.
  9. „Tres diputados rompieron con la Mesa de la Unidad - Nacional y Política - EL UNIVERSAL“. www.eluniversal.com. Sótt 13 júní 2016..
  10. „Venezuela: la députée d'opposition Machado interdite d'entrée au Parlement“. lepoint.fr. Sótt 10 október 2025.
  11. 1 2 3 „Au Venezuela, la libérale Maria Corina Machado remporte les primaires de l'opposition“. Le Monde (franska). 23 október 2023.
  12. „Présidentielle au Venezuela : Maria Corina Machado remporte les primaires de l'opposition“. France 24 (franska). 23 október 2023. Sótt 23 október 2023.
  13. „Politique. Au Venezuela, l'opposition "s'unit autour de María Corina Machado"… déclarée inéligible“. Courrier international (franska). 3 júlí 2023. Sótt 23 október 2023.
  14. „Présidentielle au Venezuela : la principale opposante écartée, les États-Unis envisagent des sanctions“. Le Parisien (franska). 27 janúar 2024. Sótt 21. mars 2024.
  15. Delcas, Marie (24. mars 2024). „Au Venezuela, une universitaire de 79 ans sera la candidate de l'opposition à l'élection présidentielle“. Le Monde (franska). Sótt 24. mars 2024.
  16. Pacífico Sánchez (28 apríl 2024). „Entrevista Dominical. Rafael Ignacio Montes de Oca: Edmundo González Urrutia es intachable, respetuoso y garante de una transición sin traumas #28Abr“. El Impulso (spænska). Sótt 17 júní 2024.
  17. Pénélope Quesada (16 júní 2024). „Au Venezuela, le candidat de l'opposition Edmundo Gonzalez Urrutia en tête des sondages face à Nicolas Maduro“. Le Monde (franska). Sótt 17 júní 2024.
  18. „Trois choses à savoir sur María Corina Machado, prix Nobel de la paix 2025“. 20 Minutes (franska). 10 október 2025. Sótt 10 október 2025.
  19. 1 2 „Le prix Nobel de la paix décerné à Maria Corina Machado, opposante vénézuélienne“. Le Monde (franska). 10 október 2025.
  20. „L'opposante vénézuélienne Maria Corina Machado récompensée par le prix Vaclav-Havel“. Le Figaro (franska). 30. september 2024. Sótt 30. september 2024.
  21. Communiqué de presse (24 október 2024). „María Corina Machado et Edmundo González Urrutia lauréats du Prix Sakharov 2024“ (html). Parlement européen. Sótt 10 október 2025.
  22. AFP (10 október 2025). „Pas de prix Nobel de la paix pour Donald Trump, la Vénézuélienne María Corina Machado récompensée“. Le Figaro (franska). Sótt 10 október 2025..
  23. „María Corina Machado dédie son Prix Nobel de la Paix à Donald Trump“. parismatch.com (franska). 10 október 2025. Sótt 10 október 2025.
  24. https://www.lemonde.fr/international/article/2024/01/29/au-venezuela-l-incertitude-apres-l-eviction-de-la-candidate-d-opposition-maria-corina-machado_6213661_3210.html
  25. https://www.lemonde.fr/international/article/2025/09/03/venezuela-les-etats-unis-envoient-des-troupes-pres-des-eaux-territoriales-au-nom-de-la-lutte-contre-le-narcoterrorisme_6638718_3210.html
  26. „Iván Duque, María Corina Machado y el fantasma de Venezuela“. El País (franska). 8. júní 2018..
  27. „Quiénes son los amigos internacionales de José Antonio Kast“. Interferencia (spænska). 24 október 2021.
  28. „María Corina Machado felicita a Javier Milei por su triunfo de la "libertad" en Argentina“. SWI swissinfo.ch (spænska). 20 nóvember 2023.
  29. Times, The Brussels. „Venezuelan opposition supports claims over oil-rich region in neighbouring Guyana“. www.brusselstimes.com (enska).
  30. „Venezuela's opposition criticizes Chavez's handling of Essequibo claim, opposes military intervention“ (bandarísk enska). 3 apríl 2025.
  31. https://www.theweek.in/news/middle-east/2025/10/10/nobel-peace-prize-winner-mara-corina-machado-supports-israel-s-war-and-benjamin-netanyahu-here-are-the-facts.html