Magnús Hj. Magnússon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Magnús Hj. Magnússon

Magnús Jörundur Hjaltason Magnússon, jafnan skrifaður Magnús Hj. Magnússon (6. ágúst 1873 - 30. desember 1916) var skáld og fræðimaður. Magnús var fæddur og uppalinn á Vestfjörðum, og dvaldi þar lengstum. Hann stundaði alla ævi skáldskap og vísnagjörð, siðar fleiri ritstörf, og hélt dagbók í mörg ár sem síðar varð Halldóri Laxness uppspretta að Heimsljósi.

Magnús var fæddur að Tröð í Súðavíkurhreppi, en uppalinn í Önundarfirði. Hann var þreklítill og heilsuveill í æsku, en bráðgjör að gáfum, húslestrarfær 6 vetra og byrjaður að búa til vísur. Hann las hverja bók, sem hann náði í og safnaði sér þannig ýmsum fróðleik. Rímum og alþýðukveðskap varð hann snemma handgenginn og tók jafnframt að stunda skáldskap og vísnagjörð, siðar fleiri ritstörf, og hélt dagbók í mörg ár.

Magnús unni ritstörfum og lagði kapp á þau, að hætti fræðimanna fyrri tíma. Þau voru honum hvíld frá erfiði, skemmtun í tómstundum, fróun í sjúkdómi og armæðu. Hann ritaði því og las þegar hann komst höndunum undir „sér til hugarhægðar en hvorki sér til lofs né frægðar". Hann hélt sér lítt á lofti; bældi örbyrgð og lasleiki hann niður, enda var honum allt yfirlæti fjarri skapi.

Magnús bjó með Guðrúnu Önnu Magnúsdóttur en gat ekki gifst henni þar sem hann hafði þegið sveitarstyrk og þurfti að greiða hann upp til að mega ganga í hjónaband. Það tókst honum aldrei og voru þau í óvígðri sambúð til æviloka og áttu saman sex börn en aðeins tvö komust á legg. Magnús stundaði barnakennslu öðru hverju. Árið 1910 var hann dæmdur í eins árs fangelsi fyrir nauðgun, en hann hafði misnotað stúlkubarn sem var nemandi hans, og sat hann dóminn af sér í fangelsinu í Reykjavík.

Magnús var helsta fyrirmyndin að Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi í Heimsljósi eftir Halldór Laxness, sem nýtti sér dagbækur Magnúsar. Árið 1956 gaf Gunnar M. Magnúss út ævisögu Magnúsar og kallaði hana Skáldið á Þröm. Og árið 1998 komu dagbækur Magnúsar út undir heitinu Kraftbirtingarhljómur guðdómsins.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.