Fara í innihald

Múrinn (Goðheimar)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Múrinn (danska: Muren) er fjórtánda bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 2007. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans kom Henning Kure að gerð handritsins. Hún byggir á frásögnum úr Snorra-Eddu og Skírnismálum þar sem segir frá samdrætti Freys og jötnastúlkunnar Gerðar annars vegar en fæðingu Sleipnis hins vegar.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Bragðarefurinn Loki fyllist skelfingu og óttast að Ragnarök séu yfirvofandi þar sem jötnar gerast ágengir í grennd við Ásgarð. Hann kallar Þór og Óðinn til fundarhalda og hefur hvorugur þeirra því tíma til að setja mannadrengnum Þjálfa fyrir þraut sem manndómsvígslu hans. Þjálfi rekst í staðinn á Frey, sem hefur stolist í Hliðskjálf, hásæti Óðins sem gerir honum kleift að sjá um alla veröld. Freyr hefur fengið augastað á jötnastúlkunni Gerði og er hugfanginn af ást. Hann skipar Þjálfa að halda á fund Gerðar og sannfæra hana um að verða kona Freys. Sendiförin yrði manndómsvígsla piltsins, sem fær dulnefnið Skírnir.

Á leið sinni til Jötunheima hittir Þjálfi/Skírnir dularfullan mann, sem síðar kemur í ljós að er Óðinn í dulargervi. Sá býður piltinum að borða og segir honum sögu. Sagan gerðist í Ásgarði löngu fyrr, þar sem Æsir höfðu þungar áhyggjur af uppivöðslusamra jötna. Byggingarmeistari nokkur hafði, fyrir milligöngu Loka, boðist til að reisa varnarmúr umhverfis Ásgarð. Ásum bregður illilega þegar þeir frétta að verklaun byggingarmeistarans skyldi vera hönd Freyju, en Loki róar þá með því að það skilyrði hangi á spýtunni að verkinu skuli lokið innan tiltekins tíma og byggingarmeistarinn megi aðeins hafa hest sinn Svaðilfara sér til aðstoðar og væri það óvinnandi vegur.

Í ljós kemur að hesturinn er gríðarlega afkastamikill og þegar líður að lokadagsetningu óttast Æsir að smiðnum muni takast að reisa múrinn og hljóti verklaunin. Freyja stingur upp á því að Loki tæli hestinn á braut með því að klæða sig í merarham. Tælingin heppnast, hestur byggingarmeistarans stingur af og honum mistekst að ljúka verkinu í tíma. Síðar snýr Loki aftur með áttfætt folald í eftirdragi, var það gæðingurinn Sleipnir.

Í Jötunheimum hittir Þjálfi fyrir Gerði. Hún er náttúruunnandi þótt umhverfi hennar sé gróðursnautt að mestu. Hugmyndir hennar um umheiminn hefur hún allar frá föður sínum, sem reynist vera byggingarmeistarinn gamli. Þjálfi upplýsir Gerði um að í Ásgarði vaxi blóm á hverju strái. Með miklum fortölum tekst honum að sannfæra Gerði um að fara með sér og sleppa þau við illan leik undan Jötnahernum. Í Ásgarði hrífst Gerður af umhverfinu og samþykkir að ganga að eiga Frey. Faðir hennar gerir sér það að góðu og innrás jötna er afstýrt.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Múrinn er næstsíðasta bókin í sagnaflokknum en höfundarnir höfðu löngu ákveðið að honum lyki með fimmtándu bók sem fjalla myndi um Ragnarök. Því var ákveðið að steypa saman í eina sögu þeim tveimur goðsögnum sem helst voru taldar standa útaf. Í stað þess að kynna nýja persónu, Skírni, til sögunnar var ákveðið að láta Þjálfa taka að sér hlutverk hans.
  • Sagan birtist upphaflega í vefútgáfu Jyllands-Posten, ein síða á degi hverjum.
  • Jötnastráknum Karki bregður fyrir á einni mynd í bókinni, en hann var sjaldséður gestur í seinni verkum sagnaflokksins.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Múrinn kom út hjá Forlaginu árið 2024, í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar.

  • Valhalla - Den samlede saga 5. Carlsen. 2010. ISBN 978-87-114-2040-9.