Léon Bourgeois

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Léon Bourgeois
Léon Bourgeois árið 1917.
Forsætisráðherra Frakklands
Í embætti
1. nóvember 1895 – 29. apríl 1896
ForsetiFélix Faure
ForveriAlexandre Ribot
EftirmaðurJules Méline
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. maí 1851
París, Frakklandi
Látinn29. september 1925 (74 ára) Oger, Épernay, Frakklandi
ÞjóðerniFranskur
StjórnmálaflokkurRóttæki flokkurinn
HáskóliParísarháskóli
StarfStjórnmálamaður, erindreki
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1920)

Léon Victor Auguste Bourgeois (21. maí 1851 – 29. september 1925) var franskur stjórnmálamaður og um hríð forsætisráðherra Frakklands. Hugmyndir hans höfðu sterk áhrif á stefnur franska Róttæka flokksins. Bourgeois talaði meðal annars fyrir innleiðingu þrepaskatts, tekjuskatts og almannatrygginga í Frakklandi,[1] og fyrir efnahagsjöfnuði, auknum námsréttindum og alþjóðasamvinnu. Hann vildi jafnframt styrkja Þjóðabandalagið og efla það til þess að viðhalda friði með lögbundnum milligöngum, afvopnunum, efnahagsþvingunum og jafnvel alþjóðlegum friðargæsluher.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Bourgeois fæddist í París og var lögmenntaður. Eftir að hafa verið aðstoðarmaður í iðnaðarráðuneyti Frakklands árið 1876 varð hann fyrst umdæmisstjóri í Tarn (1882) og síðan í Haute-Garonne (1885). Hann sneri síðan heim til Parísar og tók við stöðu í franska innanríkisráðuneytinu. Hann varð lögreglustjóri í nóvember árið 1887 og gegndi því embætti á viðkvæmum tíma þegar Jules Grévy sagði af sér sem forseti landins. Á næsta ári var Bourgeois kjörinn á neðri deild franska þingsins fyrir Marne-kjördæmi. Þar gekk hann til liðs við róttæklinga og beitti sér gegn áhrifum hershöfðingjans Georges Ernest Boulanger. Hann var aðstoðarinnanríkisráðherra í ríkisstjórn Charles Floquet árið 1888 en sagði af sér ásamt öðrum ráðherrum stjórnarinnar næsta ár og gekk aftur á franska þingið fyrir Reims-kjördæmi. Í ríkisstjórn Pierre Tirard var hann innanríkisráðherra og síðan menntamálaráðherra í ríkisstjórn Charles de Freycinet frá 18. mars 1890. Bourgeois bar ábyrgð á ýmsum mikilvægum umbótum á franska framhaldsmenntakerfinu árið 1890.

Bourgeois hélt ráðuneyti sínu þegar Émile Loubet varð forsætisráðherra árið 1892 og varð dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Alexandre Ribot síðar sama ár. Í því embætti sá hann um málaferli gegn ráðherrum sem voru sakaðir um að þiggja mútur í tengslum við Panamahneykslið. Bourgeois var sakaður um að beita óeðlilegum þrýstingi á eiginkonu eins hinna ásökuðu til að afla sönnunargagna í málinu og sagði því af sér í mars árið 1893.

Í nóvember árið 1895 var Bourgeois falið að mynda eigin ríkisstjórn og skipaði hana eingöngu róttæklingum. Ríkisstjórn hans mætti harðri andstöðu hægrimanna á franska þinginu vegna áætlana sinna um að koma á almennum tekjuskatti í Frakklandi. Stjórnin féll eftir að þingið neitaði að greiða fjárframlög til hernaðarleiðangurs Frakka til Madagaskar.[2] Þingmennirnir höfðu þá reynt án árangurs að þrýsta á fjármálaráðherra Bourgeois, Paul Doumer, að hætta við tekjuskattsáætlunina.[3] Bourgeois var Frímúrari og sjö af ráðherrum hans voru einnig í Frímúrarareglunni.[4][5][6]

Bourgeois virðist hafa haldið að almenningsálit myndi koma í veg fyrir að efri deild þingsins beitti sér gegn ríkisstjórninni með þessum hætti, sem Bourgeois taldi brot á stjórnarskránni. Þvert á vonir hans lét almenningur sér fátt um finnast og þingið fékk vilja sínum framgengt. Fall ríkisstjórnarinnar skaðaði mjög stjórnmálaferil Bourgeois. Hann varð menntamálaráðherra í stjórn Henri Brisson árið 1898 og skipulagði námskeið fyrir fullorðna í grunnskólamenntun. Eftir þá stuttu ráðherratíð var hann fulltrúi Frakka á friðarráðstefnu í Haag árið 1899 og var árið 1903 útnefndur í Fasta gerðardóminn til að ráða úr deilum stríðandi þjóða.

Bourgeois hélt sig fjarri pólitískum deilum innan næstu ríkisstjórna og ferðaðist mikið erlendis. Árið 1902 og 1903 var hann kjörinn forseti franska þingsins. Árið 1905 varð hann öldungadeildarþingmaður fyrir Marne-fylki og árið 1906 varð hann utanríkisráðherra Frakklands. Hann stýrði utanríkisstefnu Frakka á Algeciras-ráðstefnunni árið þar sem Frakkar deildu við Þjóðverja vegna Marokkókreppunnar. Milliríkjadeilan leiddi til mun nánara sambands milli Frakka og Breta. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var Bourgeois fulltrúi á friðarráðstefnunni í París 1919 og studdi þar frumvarp Japana um viðurkenningu á jafnrétti kynþátta, sem Bourgeois kallaði „óumdeilanlega forsendu fyrir réttlæti“.[7]

Eftir stríðið varð Bourgeois fyrsti forseti Þjóðabandalagsins árið 1920 og vann til friðarverðlauna Nóbels sama ár fyrir störf sín í þágu þess.

Bourgeois var félagssinni og reyndi að feta milliveg milli sósíalisma og kapítalisma með stefnu sem hann kallaði „samstöðuhyggju“ (franska: solidarisme). Hann leit svo á að hinir fátæku ættu inni tiltekna samfélagsskuld hjá hinum ríku sem þeim bæri að greiða með tekjuskatti og þannig fjármagna samfélagshjálp með milligöngu ríkisins.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. J. E. S. Hayward, "The Official Philosophy of the French Third Republic: Leon Bourgeois and Solidarism," International Review of Social History, (1961) 6#1 bls. 19-48
  2. „« La carrière du nouveau président »“ (franska). Le Petit Journal. 14. maí 1931. Sótt 11. ágúst 2019.
  3. Lorin Amaury (2013). Une ascension en République (franska). Paris: Dalloz. ISBN 978-2247126040.
  4. Edward A. Tiryakian (2009). For Durkheim: Essays in Historical and Cultural Sociology. Ashgate. bls. 93.
  5. He was initiated at "La Sincerité", lodge of Grand Orient de France (Paul Guillaume, « La Franc-maçonnerie à Reims (1740-2000) », 2001, p. 333)
  6. Jean-Marie Mayeur; Madeleine Rebirioux (1988). The Third Republic from Its Origins to the Great War, 1871-1914. Cambridge U.P. bls. 164.
  7. Conférence de paix de Paris, 1919–1920, Recueil des actes de la Conférence, "Secret," Partie 4, pp. 175–176. as cited in Paul Gordon Lauren (1988), Power And Prejudice: The Politics And Diplomacy Of Racial Discrimination Westview Press ISBN 0-8133-0678-7 p.92


Fyrirrennari:
Alexandre Ribot
Forsætisráðherra Frakklands
(1. nóvember 189529. apríl 1896)
Eftirmaður:
Jules Méline