Lumma

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lummur á diski.

Lumma eða klatti er lítil, íslensk pönnukaka en lummur eru oftast hafðar mun þykkari en venjulegar pönnukökur. Þær voru eitthvert algengasta bakkelsið áður fyrr, einkum áður en ofnar urðu algengir, og virðast vera það pönnusteikta kaffibrauð sem fyrst kemur til sögunnar hérlendis og er fyrst getið um þær á 18 öld.

Lummur með sírópi eða sykri voru með helstu veitingum í veislum á 19. öld og bornar fram á ýmsum stigum eins og sjá má í lýsingu á brúðkaupsveislum á Hornströndum frá síðari hluta aldarinnar: „... um morguninn fyrsta veizludaginn fá boðsmenn kaffi, lummur og brennivín nokkru seinna er morgunverður borinn á borð, »smurt« brauð og brennivín; þá er sunginn borðsálmur. Önnur máltíð um miðjan dag er steik, kaffi og lummur.“[1]. Í lýsingu á brúðkaupsveislum í Skagafirði nokkru fyrr segir: „Hinn venjulegi veizlumatur var bankabyggsgrautur með sýrópsmjólk út á, hangikjöt og bankabyggslummur, og nóg í staupinu, helzt brennivín.“[2] Einnig voru lummur eitt helsta jólabakkelsið á langflestum heimilum: „Aðfangadagsmorgun var byrjað að baka lummurnar. Það var dregið til lengstra laga, svo þær væru sem nýjastar, helst heitar. Þótti það ilt verk að baka lummur, því heldur vildi þeim súrna í augum,sem að því störfuðu.“[3]

Á ríkari heimilum voru lummur bakaðar úr hveiti og það er yfirleitt gert nú en algengast var á 19. öld að þær væru úr fínmöluðu byggi. Einnig voru oft notaðir grautarafgangar í þær, áður bygggrautur en núna yfirleitt grjónagrautur, og kallast slíkar lummur grautarlummur. Í riti Lærdómslistafélagsins 1781 segir frá því að Skaftfellingar geri lummur úr mjöli möluðu úr melgresi.

Lumma getur haft bæði jákvæða og neikvæða merkingu í orðtökum. Sagt er að eitthvað sem er mjög vinsælt renni út eða seljist eins og heitar lummur en það sem er ofnotað og útþvælt er oft kallað gömul lumma eða sagt vera lummulegt (lummó). Lumma hefur líka orðið gælunafn á Íslandi fyrir munntóbak.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ferðasaga frá Vestfjörðum. Andvari, 13. árgangur 1887.
  2. Fyrir 40 árum. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 13. árgangur 1892.
  3. Jól í sveit fyrir 30-40 árum. Morgunblaðið, 24. desember 1913.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hallgerður Gísladóttir (1999). Íslensk matarhefð. Mál og menning.
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu