Fara í innihald

Luís Montenegro

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Luís Montenegro
Montenegro árið 2024.
Forsætisráðherra Portúgals
Núverandi
Tók við embætti
2. apríl 2024
ForsetiMarcelo Rebelo de Sousa
ForveriAntónio Costa
Persónulegar upplýsingar
Fæddur16. febrúar 1973 (1973-02-16) (52 ára)
Porto, Portúgal
ÞjóðerniPortúgalskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
MakiCarla Neto Montenegro (g. 2000)
Börn2
HáskóliKaþólski háskólinn í Portúgal

Luís Filipe Montenegro Cardoso de Morais Esteves (f. 16. febrúar 1973) er portúgalskur stjórnmálamaður. Hann hefur verið forseti portúgalska Jafnaðarmannaflokksins (PPD/PSD) frá árinu 2022 og forsætisráðherra Portúgals frá 2. apríl 2024.

Montenegro var kjörinn á þing í kjördæminu Aveiro árið 2002. Hann var þingflokksleiðtogi PPD/PSD frá 2011 til 2017, fyrst í stjórnartíð Pedro Passos Coelho, og svo í stjórnarandstöðu gegn stjórn sósíalistans António Costa. Árið 2022 var Montenegro kjörinn forseti Jafnaðarmannaflokksins og tók við af Rui Rio.

Árið 2024, þremur vikum eftir sigur kosningabandalags PPD/PSD í þingkosningum, myndaði Montenegro minnihlutastjórn og varð forsætisráðherra Portúgals.

Menntun og starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Montenegro útskrifaðist með mastersgráðu í lögfræði og framhaldsgráðu í gagnavernd frá Kaþólska háskólanum í Portúgal. Hann starfaði sem lögmaður og stofnaði til tengsla við stjórnendur ýmissa portúgalskra fyrirtækja.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Luís Montenegro hóf stjórnmálaferil sinn í sveitarstjórnarmálum. Hann var nokkrum sinnum kjörinn í sveitarstjórn Espinho fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Montenegro var kjörinn á portúgalska þingið í fyrsta skipti árið 2002 fyrir kjördæmi í Aveiro. Hann átti sæti á þinginu þar til hann sagði af sér þingmennsku árið 2018.[1] Á þeim tíma var hann þingflokksforingi PSD frá þingkosningum ársins 2011 til ársins 2017.[2]

Forseti Jafnaðarmannaflokksins

[breyta | breyta frumkóða]

Í janúar 2020 tilkynnti Montenegro framboð sitt til leiðtoga PSD gegn þáverandi forseta flokksins, Rui Rio. Í leiðtogakjöri flokksins náði Montenegro í aðra umferð[3] en tapaði í seinni umferðinni með 46,8% greiddra atkvæða.[4] Eftir ósigur PSD í þingkosningum ársins 2022 og afsögn Rio bauð Montenegro sig fram til leiðtoga flokksins á ný. Í þetta sinn náði hann kjöri með 72,5% greiddra atkvæða í maí 2022.[5]

Eftir að Montenegro varð leiðtogi PSD tilkynnti flokkurinn að hann myndi ekki mynda ríkisstjórn með öfgahægriflokknum Chega eftir næstu kosningar.[6]

Árið 2024, eftir að tilkynnt var að þingkosningar yrðu haldnar þann 10. apríl það ár, myndaði Montenegro kosningabandalag PSD með CDS – Þjóðarflokknum og Konungssinnaða þjóðarflokknum. Með þessu bandalagi endurstofnaði hann Lýðræðisbandalagið sem Francisco Sá Carneiro, fyrsti leiðtogi PSD, hafði leitt á níunda áratugnum.

Forsætisráðherra Portúgals

[breyta | breyta frumkóða]

Jafnaðarmannaflokkurinn lenti í fyrsta sæti í þingkosningunum 2024, án þess þó að vinna hreinan meirihluta. Montenegro ítrekaði það loforð sitt að vinna ekki með Chega og myndaði þann 2. apríl 2024 minnihlutastjórn þar sem hann varð forsætisráðherra Portúgals.[7]

Undir lok febrúar 2025 birti dagblaðið Correio da Manhã frétt um að fyrirtækið Spinumviva, sem Montenegro hafði stofnað og er stýrt af eiginkonu hans, gæti grætt á fyrirhuguðum lagabreytingum stjórnar hans. Montenegro hafnaði því að hann ætti í hagsmunaárekstri og að tengsl væru á milli starfsemi Spinumviva og lagabreytinganna þrátt fyrir hávær gagnrýni stjórnarandstöðunnar.[8] Montenegro stóð af sér tvær vantrauststillögur sem lagðar voru fram af þingmönnum Chega og Kommúnistaflokksins en tilkynnti engu að síður að hann myndi sjálfur leggja tillögu um traustsyfirlýsingu gegn stjórn sinni til samþykktar þingsins.[9] Marcelo Rebelo de Sousa, forseti lýðveldisins, kunngerði að ef traustsyfirlýsingin yrði ekki samþykkt myndi hann rjúfa þing.[10] Þann 11. mars 2025 hafnaði þingið traustsyfirlýsingunni[11] og því var efnt til kosninga þann 18. maí næstkomandi.[12]

Kosningabandalag Montenegro vann sigur í kosningunum sem haldnar voru 18. maí 2025 en hlaut enn ekki hreinan meirihluta þingsæta.[13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Luís Montenegro sai do Parlamento e deixa avisos a Rio - Renascença“. Rádio Renascença (evrópsk portúgalska). 17 febrúar 2018. Sótt 14 janúar 2024.
  2. „Luís Montenegro eleito líder parlamentar do PSD“. web.archive.org. 21 október 2014. Sótt 14 janúar 2024.
  3. „PSD. Rio vence por 0,56% e vai disputar segunda volta com Montenegro“. PSD. Rio vence por 0,56% e vai disputar segunda volta com Montenegro (portúgalska). 13 janúar 2020. Sótt 14 janúar 2024.
  4. „Resultados finais: Rui Rio venceu segunda volta com 53,2% dos votos, mais 2.071 do que os conseguidos por Montenegro“. Observador (evrópsk portúgalska). Sótt 14 janúar 2024.
  5. „Luís Montenegro é o novo líder do PSD“. ECO (evrópsk portúgalska). 28 maí 2022. Sótt 14 janúar 2024.
  6. Carrapatoso, Miguel Santos. „Montenegro: "Não vamos governar com o apoio da extrema-direita". Observador (evrópsk portúgalska). Sótt 14 janúar 2024.
  7. Arcand, Philippe Bernier (5 apríl 2024). „L'exemple portugais“. Acadie Nouvelle (franska). Sótt 6 apríl 2024.
  8. Inês Escobar Lima (21 febrúar 2025). „Le Premier ministre portugais confronté à une motion de censure au sujet de la société immobilière de sa famille“. Euractiv. Sótt 9. mars 2025..
  9. Sara Madeira (6. mars 2025). „Le Premier ministre portugais demande un vote de confiance mais le soutien du parlement reste incertain“. Euractiv. Sótt 9. mars 2025..
  10. Fabien Cazenave (7. mars 2025). „Le Portugal risque des élections anticipées“. Ouest-France. Sótt 9. mars 2025..
  11. AFP (11. mars 2025). „Portugal : le gouvernement de centre-droit tombe après avoir échoué à obtenir un vote de confiance“. Le Figaro. Sótt 11. mars 2025..
  12. „Portugal : après la chute du gouvernement, le président convoque des élections législatives anticipées le 18 mai“. Le Monde (franska). 13. mars 2025. Sótt 14. mars 2025.
  13. Markús Þ. Þórhallsson (18. maí 2025). „Stjórnarflokkurinn hafði sigur í þingkosningum“. RÚV. Sótt 20. maí 2025.


Fyrirrennari:
António Costa
Forsætisráðherra Portúgals
(2. apríl 2024 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti