Love Guru

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Love Guru er hliðarsjálf Dodda litla sem gaf út tónlist frá 2003 til 2007 og hefur verið virkur síðan 2009.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Love Guru fæddist í útvarpsþættinum Ding Dong Pétur Jóhann stjórnaði og Doddi var tæknimaður fyrir á FM 957 árið 2003. Doddi heyrði lag með Justin Timberlake (Rock your body) og gerði lag úr "beat box" hluta lagsins. Lagið passaði ekki við þáttinn svo Doddi gerði það sjálfur, en þá var Pétur nýbúinn að nefna Dodda "hinn íslenska Love Guru" eftir að Doddi hafði reynt að herma eftir Barry White í einhverjum þættinum.[1]

Tæknimennirnir Ingólfur Guðni Árnason og Gassi Ólafsson Vídó gerðu tónlistina úr þessum beat box kafla Justins, Þóra Sif tók að sér að syngja viðlagið og úr varð klámvísan Ástarblossi. Flestum að óvörum lenti lagið í 3. sæti á Íslenska listanum,[1] með tileyrandi kvörtunum eldri hlustenda Fm 957 um að lagið væri of mikið um kynlífsathafnir.

Vegna fjölda áskoranna var endurhljóðblandað annað lag, "Groove is in the heart" með hljómsveitinni Deee-Lite. Lengri útgáfa af laginu var notuð, klippt niður og Love Guru söng með sama fólki og í fyrsta laginu nema dónaskapurinn var öllu minni. Aftur sló lagið í gegn með rapparanum og fótboltakonuninni Kristínu Ýr.[2] Þá vildu FM menn gera myndband sem Kristján Jónsson (Kiddi Bigfood) stjórnaði og tók þá við vesenið að hanna þessa persónu, Love Guru.

Doddi var með þá hugmynd að gera persónuna að andstæðu sinni, með áberandi klæðnaði, gullkeðjum, hringum, sólgleraugum, brúnku og Craig David skegginu. Fyrsta hugmyndin var að nota stóran og mikinn pels, en hann fannst ekki. Andrea Róberts (þá starfsmaður Íslenska Útvarpsfélagsins) lagði þá til að tala við Halldór Einarsson í Henson um að klæða Guruinn og hann var til í það.

Aftur sló lagið í gegn (aftur 3. sætið á Íslenska listanum) og upp frá því fór Love Guru að koma fram á dansleikjum og öðrum tónlistarviðburðum.

Love Guru kom þriðja laginu á Íslenska listann, "Hvað viltu gera fyrir mig" áður en hans lang vinsælasta lag var frumflutt. "1 2 Selfoss" var, eins og mögulega einhverjir tóku eftir, frumsýnt á Hlustenda verðlaunum FM957, þar sem Love Guru var valinn efnilegasti flytjandinn. Gert var rándýrt metnaðarfullt myndband, heitasti myndbanda leikstjóri þess tíma, Guðjón Jónsson var fenginn í verkið. Sjaldan hafa styrktaraðilarnir verið jafn áberandi í myndbandi og í Selfossinum.

Sumarið 2004[breyta | breyta frumkóða]

Eftir þetta var ferðast um landið þvert og endilangt og dansleikir haldnir út um allt land.

Söngkonan Eva María Glimmar var ráðin, ásamt dönsurunum Jóhönnu og Sigríði, plötusnúðinum Árna Má Vilmundarssyni og útsetjaranum Ingólfi Guðna Árnassyni. Ingólfur bjó til myndband sem var notað á dansleikjum, eftir erlendri fyrirmynd (sést vel í Love Guru myndabndinu "Sumar").

Platan "Party Hetja" kom út sumarið 2004 og náðu samtals 7 lög af plötunni inn á Íslenska listann.

Love Guru gengið (Love Guru Allstars) héldu áfram að gefa út tónlist og voru á tónlistarferðalagi um landið í 2 ár til viðbótar en árið 2007 var ákveðið að leggja upp laupana.

2007[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2007 var lokadans Love Guru Allstars á Gauki á Stöng[3] þar sem ungur og efnilegur söngvari Páll Óskar hitaði upp fyrir gengið.

Eftir þetta hefur hópurinn aldrei komið saman, Love Guru kom einstaka sinnum fram á mentaskólaböllum næstu þrjú árin en engin tónlist var gefin út.

Tónlistarhátíðin Kótelettan á Selfossi[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2009 fór grill og tónlistarhátíðin Kótelettan fram í fyrsta sinn og fékk umsjónarmaður hátíðarinnar, Einar Björnsson þá hugmynd að fá Love Guru til að koma á Selfoss og taka lagið. Þá hugmynd fékk hann á laugardagskvöldinu sem hátíðin stóð sem hæst og reyndi að fá kónginn austur það kvöld en ekki gekk það í það skiptið en hann fékk þó loforð um að hann kæmi að ári.

Frá árinu 2010 hefur Love Guru komið fram á Kótelettunni á hverju ári en Selfoss hefur alltaf verið heimavöllur Guru.

Árið 2013 kom út lagið Phatbull.

2019 kom svo út önnur plata Love Guru, "Dansaðu Fíflið þitt, Dansaðu!" þar sem mátti finna eitthvað af þeim lögum sem komu út frá árinu 2005 til ársins 2016 plús þrjú ný lög þar sem Love Guru vann meðal annars með Bigga Veiru úr GusGus, Unu Stef, Helga Sæmundi (úr Úlfur Úlfur), Cell7, Steinari Fjeldtsted (úr Quarashi), Felix Begsyni, Lísu Einarsdóttur, Karitas Hörpu og fleiri góðum.

Seinna sama ár kom út endurhljóðblandaða platan, "Dansaðu Meira... Fíflið þitt!". Þar má heyra ýmsar úgáfur af mörgum af vinsælustu lögunum og einnig endurgerði hann tvö lög, Ástarblossa (Blossi´19)  og 1 2 Selfoss sem nú heitir 3 4 Selfoss (Takk fyrir partýið) Síðan þá hafa komið út fleiri endurhljóðblandanir og ný lög eins og Partýlestin (með Karítas Hörpu), Sleik og Dans (með Villa Neto), Silly Hopp (með Begga úr Sóldögg).

2020 gaf Love guru út lagið "Desire", sem byggir á Bob Marley lagi.[4]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Tvöfalt líf Dodda Ding dong Fréttablaðið. 14. apríl 2003.
  2. „Hættur að gera bara leiðinlega tónlist“. Fréttablaðið. 9. apríl 2021.
  3. Love Guru gefur upp öndina um næstu helgi. Morgunblaðið. 6. nóvember 2007
  4. Fullt af ást og löðrandi erótík. Fréttablaðið. 20. júní 2020.