Logi Ólafsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Logi á fundi KR-klúbbsins í apríl 2007

Logi Ólafsson (f. 14. nóvember 1954) er íslenskur knattspyrnuþjálfari sem þjálfar FH. Hann hefur þjálfað frá árinu 1987 en þá þjálfaði hann kvennalið Vals í tvö ár. Hann þjálfaði síðan Víkinga frá 1990 til 1992 og gerði liðið að Íslandsmeisturum árið 1991. Þá þjálfaði hann Íslenska kvennalandsliðið á árunum 1993-1994 og fór síðan til Skagamanna árið 1995 og gerði liðið að Íslandsmeisturum. Á árunum 1996-1997 stýrði hann Íslenska landsliðinu. Hann tók aftur við liði ÍA árin 1997-1998. Logi stýrði FH-ingum til sigurs í 1. deild árið 2000 og var þar til 2001. Á sama tíma stjórnaði hann kvennalandsliðinu. Árið 2001 varð hann aðstoðarþálfari Lilleström og tók síðan við Íslenska landsliðinu árið 2003 og var þar til ársins 2005 með Ásgeiri Sigurvinssyni.[1] Árið 2007 tók Logi við erfiðu búi Knattspyrnufélags Reykjavíkur og gerði þá meðal annars að bikarmeisturum 2008. Hann var þó rekinn árið 2010 eftir slæma byrjun í deildinni. Árið 2010 tók hann svo við liði Selfyssinga og kom þeim upp í úrvalsdeildin árið 2011 en féll með liðið árið 2012. Árið 2013 stýrði Logi liði Stjörnunnar í Garðabæ til besta árangurs í sögu félagsins. Vann hann jafnframt þátttöku fyrir félagið í evrópukeppni í fyrsta skipti en var samt sem áður látinn taka poka sinn eftir tímabilið. Árið 2017 þjálfaði Logi lið Víkings í úrvalsdeild frá miðju tímabili með ágætis árangri. Hann ákvað að hætta þjálfun að loknu tímabilinu 2018 en hélt áfram árið 2020 þegar honum bauðst að þjálfa FH.

Logi hefur um nokkurt skeið verið íþróttakennari við Menntaskólann við Hamrahlíð.[2]

Árið 2006 var Logi þjálfari KF-Nörd (Knattspyrnufélagið Nörd) í samnefndum sjónvarpsþáttum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]