Fara í innihald

Les voleurs du Marsupilami

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Les voleurs du Marsupilami (íslenska: Gormdýrinu rænt) er fimmta Svals og Vals-bókin. Höfundur hennar var Franquin. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1952 og kom út á bókarformi árið 1954. Hún hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Bókin er beint framhald af Baráttunni um arfinn og hefst á því að Svalur og Valur fá bakþanka yfir að hafa látið loka gormdýrið inni í dýragarði. Dýrinu er rænt og kemst þjófurinn undan þeim félögum á flótta eftir æsilegan eltingaleik í dýragarðinum.

Í ljós kemur að þjófurinn er snjall knattspyrnumaður, Valentin Mollet, sem var þvingaður til ódæðisins af fyrrum yfirmanni sínum, forstjóra í fjölleikahúsi Sabaglíónís. Svalur og Valur dulbúast sem starfsmenn fjölleikahússins, en eru stöðvaðir áður en þeim tekst að hafa upp á gormdýrinu, sem slær þegar í gegn hjá áhorfendum.

Félagarnir vita ekki sitt rjúkandi ráð, en rekast þá fyrir tilviljun á Sveppagreifann. Hann útbýr fyrir þá töfraseyði sem gerir mönnum kleyft að skipta litum. Svalur og Valur eru snarlega ráðnir í fjölleikahúsið sem undrabræðurnir Cam & Leon. Áður en Sval og Val tekst að endurheimta gormdýrið eru þeir handsamaðir af stjórnanda fjölleikahússins og þrjótum hans. Knattspyrnukappinn Valentin kemur til bjargar á síðustu stundu og með dyggri aðstoð gormdýrsins og Pésa tekst þeim að yfirbuga skúrkana.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Um miðbik bókarinnar lenda Svalur og Valur á landamærastöð þar sem tollverðirnir gera þeim lífið leitt með því að skoða bílinn gaumgæfilega. Að lokum verða félagarnir svo reiðir á seinagangnum að þeir lenda í hörkuslagsmálum við embættismennina og dúsa í fangaklefa um nóttina. Daginn eftir sættast þeir og tollverðirnir yfir ölkrús og skilja sem mestu mátar.
  • Sveppagreifinn kemur við sögu í bókinni, í annað sinn í bókaflokknum. Persóna hans er ekki fullmótuð og sama má segja um útlit hans. Þannig er hann íklæddur tennisfötum í stað gráu jakkafatanna sem fylgdu honum síðar meir.
  • Splint & Co. 1950-1952. Egmont Serieforlaget. 2008. ISBN 978-87-7679-323-4.
  • De Blieck Jr., Augie „Spirou and Fantasio v5: “The Marsupilami Thieves”“, Pipelinecomics, 2. október 2017.