Lenín Moreno
Lenín Moreno | |
---|---|
Forseti Ekvador | |
Í embætti 24. maí 2017 – 24. maí 2021 | |
Varaforseti | Jorge Glas María Vicuña Otto Sonnenholzner María Alejandra Muñoz |
Forveri | Rafael Correa |
Eftirmaður | Guillermo Lasso |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 19. mars 1953 Nuevo Rocafuerte, Ekvador |
Þjóðerni | Ekvadorskur |
Stjórnmálaflokkur | PAIS-bandalagið |
Maki | Rocío González (g. 1974) |
Börn | 3 |
Háskóli | Miðháskólinn í Ekvador |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Lenín Boltaire Moreno Garcés (f. 19. mars 1953) er fyrrverandi forseti Ekvadors. Hann var forseti landsins frá árinu 2017 til ársins 2021, en þar áður var hann varaforseti landsins frá 2007 til 2013 í forsetatíð forvera síns, Rafaels Correa.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Moreno varð fyrir byssuskoti árið 1998 þegar brotist var inn á heimili hans og hefur upp frá því notast við hjólastól. Hann var eini þjóðarleiðtogi í heimi sem notar hjólastól og á varaforsetatíð sinni varð hann kunnur fyrir að vinna að bættum aðstæðum fyrir bæklaða Ekvadora. Meðal annars stuðlaði hann að því að kvótar voru settir á ekvadorsk fyrirtæki til að auðvelda fötluðum að hljóta vinnuráðningu og að því að framlög ekvadorska ríkisins til aðstoðar fatlaðra voru hækkuð fimmtíufalt. Vegna starfa Morenos í þágu fatlaðra tilnefndu Ekvadorar búsettir í Noregi hann til friðarverðlauna Nóbels árið 2012 en hann varð að endingu ekki fyrir valinu.
Moreno lét af embætti varaforseta árið 2013 en bauð sig fram til forseta Ekvador árið 2017 og vann nauman sigur með 51,16% atkvæða í annarri umferð kosninganna.[1][2][3] Moreno bauð sig fram fyrir hið vinstrisinnaða PAIS-bandalag, sem hafði stjórnað Ekvador frá því að Correa varð forseti árið 2007. Correa lagði í fyrstu blessun sína við að Moreno tæki við af honum en eftir að Moreno tók við embætti versnaði samband hans við forvera sinn verulega. Moreno nam úr gildi margar af róttækustu vinstriumbótunum sem framkvæmdar voru á forsetatíð Correa og fjarlægðist þannig nokkuð yfirlýsta stefnuskrá sína úr kosningabaráttunni.[4] Moreno reyndi einnig að bæta samband Ekvador við Bandaríkin, en samband þjóðanna var mjög stirt á valdatíð Correa. Í þessu skyni dró Moreno meðal annars Ekvador úr Bólivaríska bandalaginu fyrir Ameríkuþjóðir, bandalagi vinstrisinnaðra stjórna í Rómönsku Ameríku sem Hugo Chávez forseti Venesúela stofnaði árið 2004.[5]
Moreno fjarlægðist stefnu Correa enn frekar með framkomu sinni við Julian Assange, sem hafði hlotið hæli í sendiráði Ekvador í London árið 2012 með leyfi Correa. Árið 2018 setti Moreno strangari skilyrði fyrir því að Assange hefði áfram hæli í sendiráðinu, meðal annars með því að neita honum um internetaðgang. Í mars árið 2019 ákvað Moreno loks að svipta Assange hæli í sendiráðinu og úthýsa honum fyrir ítrekuð brot. Correa brást illa við ákvörðun Morenos og kallaði hann „mesta landráðamann í sögu Ekvador og Suður-Ameríku“.[6]
Í október árið 2019 tilkynnti Moreno að stjórn hans hygðist hætta niðurgreiðslum á eldsneyti í Ekvador til þess að geta tryggt lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fyrirætlanir Morenos leiddu til þess að þúsundir Ekvadora mótmæltu í höfuðborginni Quito og ríkisstjórnin neyddist af öryggisástæðum til að flytja starfsemi sína til borgarinnar Guayaquil.[7] Til ofbeldis kom á milli lögreglu og mótmælenda og að minnsta kosti fimm létust á meðan á mótmælunum stóð.[8] Þann 13. október féllst Moreno á kröfur mótmælendanna um að hætta við fyrirætlunina um að hætta niðurgreiðslunum.[9]
Moreno bauð sig ekki fram til endurkjörs í forsetakosningunum árið 2021. Í kosningunum vann frambjóðandi miðhægrimanna, Guillermo Lasso, sigur. Lasso tók við af Moreno í forsetaembætti þann 24. maí.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „El Futuro Es Ahora“.
- ↑ „CNE informa "resultados irreversibles": Moreno 51.16% – Lasso 48.84%“ (spænska). Ecuavisa. 4. apríl 2017. Sótt 12. apríl 2019.
- ↑ „Moreno nýkjörinn forseti Ekvador“. mbl.is. 3. apríl 2017. Sótt 12. apríl 2019.
- ↑ „¿Cuáles son las siete preguntas del referéndum y la consulta popular del 4 de febrero del 2018 en Ecuador?“ (spænska). El Comercio. Sótt 12. apríl 2019.
- ↑ Ecuador leaves Venezuelan-run regional alliance. 23. ágúst 2018. The Seattle Times. Skoðað 12. apríl 2019.
- ↑ Þórgnýr Einar Albertsson (12. apríl 2019). „Svipting hælis Assange hættulegt fordæmi“. Fréttablaðið. Sótt 12. apríl 2019.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (8. október 2019). „Mikil ólga í Ekvador“. RÚV. Sótt 15. október 2019.
- ↑ Ásgeir Tómasson (10. október 2019). „Fimm látnir í mótmælum í Ekvador“. RÚV. Sótt 15. október 2019.
- ↑ Róbert Jóhannsson (14. október 2019). „Samkomulagi náð í Ekvador“. RÚV. Sótt 15. október 2019.
Fyrirrennari: Rafael Correa |
|
Eftirmaður: Guillermo Lasso |