Lekamálið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lekamálið er mál sem kom upp 20. nóvember 2013 og varðaði innanríkisráðuneytið undir stjórn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Málið náði hápunkti þann 21. nóvember 2014 þegar Hanna Birna sagði af sér ráðherraembætti eftir að Gísli Freyr Valdórsson aðstoðarmaður hennar játaði að hafa lekið trúnaðarupplýsingum í formi minnisblaðs um nígeríska hælisleitandann Tony Omos úr ráðuneytinu í fjölmiðla.

Lekamálið snerist í fyrstu um hver hafði lekið trúnaðarupplýsingunum, en ráðuneytið og ráðherra neituðu í fyrstu að minnisblaðið hefði nokkurn tíman verið til í ráðuneytinu. Eftir að rannsókn innan ráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu að minnisblaðið hafði ekki ratað í fjölmiðla úr innanríkisráðuneytinu fór í gang formleg lögreglurannsókn. Lekamálið þróaðist í nýja átt eftir að Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu sagði af sér og fullyrt var í DV að hann hefði gert það vegna afskipta Hönnu Birnu af lögreglurannsókninni. Samskipti hennar við lögreglustjórann eru enn til athugunar hjá Umboðsmanni Alþingis.

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Tony Omos kom til Íslands frá Sviss í október 2011 sem flóttamaður og óskaði eftir hæli. Þegar hann sótti um hæli átti hann unnustu í Kanada sem var einnig frá Nígeríu og hafði hann greint frá því upprunalega að hann ætlaði sér að fara til hennar. Útlendingastofnun synjaði beiðni hans og til stóð að senda hann aftur til Sviss en í nóvember sama ár samþykktu stjórnvöld þar í landi að taka við hælisumsókn hans á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Sú niðurstaða var kærð af talsmanni hans og efnislegrar meðferðar á umsókn hans var krafist. Innanríkisráðuneytið staðfesti loks í október 2013 að Omos fengi ekki hæli. Í kjölfar þess var krafist að Omos fengi að áfrýja til dómstóla en hann átti þá að eiga von á barni með konu sem einnig var nígerískur hælisleitandi. Auk þess hafði hann stöðu grunaðs manns í lögreglumálum í umdæmi Lögreglustjórans á Suðurnesjum en rannsókn hafði ekki verið lokið og beið Omos enn eftir að geta hreinsað nafn sitt.[1] Lögmaður hans sagði hann eiga von á barni með unnustu sinni sem var líka nígerískur hælisleitandi og hélt því fram að það myndi brjóta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tryggir börnum „samvistir við báða foreldra.“[2] Ráðuneytið hafnaði einnig þessari kröfu og boðað var að Omos yrði fluttur úr landi þann 19. nóvember 2013 en í kjölfar þess fór hann í felur. Samtökin No Borders sem berjast fyrir stöðu hælisleitenda á Íslandi boðuðu mótmæli fyrir utan Innanríkisráðuneytið þann 20. nóvember til stuðnings við Omos og til þess að mótmæla „sundrun fjölskyldu frá Nígeríu.“[1]

Lekinn[breyta | breyta frumkóða]

Óformlegt minnisblað um hælisleitandann Tony Omos var tekið saman þann 19. nóvember 2013 af skrifstofustjóra og lögfræðingi í innanríkisráðuneytinu og vistað á opnu drifi innanríkisráðuneytisins eftir að venjulegum vinnutíma lauk. Það var lesið yfir af tveimur öðrum lögfræðingum og síðan sent af skrifstofustjóra í tölvupósti til ráðherra, aðstoðarmanna hennar og ráðuneytisstjóra.[3]

Morguninn 20. nóvember 2013 birti Fréttablaðið trúnaðarupplýsingar um Tony Omos sem sneru að hælisbeiðni hans, tengsl hans við þrjár konur, faðerni hans að ófæddu barni og mögulegri aðild hans að mansali. Báðar greinar voru byggðar á upplýsingum sem fréttastofurnar höfðu fengið úr óformlegu minnisblaði úr ráðuneytinu. Samtökin No Borders sem skipulagt höfðu mótmæli til stuðnings Omos fyrir utan ráðuneytið sama dag birtu tilkynningu þar sem þau minntu á að ráðuneytinu væri ekki heimilt að tjá sig um slík mál, en sama dag neitaði annar aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að minnisblaðið hefði komið úr ráðuneytinu.[4] Í minnisblaðinu sem barst dagblöðunum tveimur komu fram upplýsingar um hælisbeiðni Omos en einnig fullyrðingar að meint barnsmóðir Omos Evelyn Glory Joseph hafi haldið því fram að hún væri mansalsfórnarlamb. Í minnisblaðinu var haldið fram að Omos væri grunaður um að hafa neytt hana til að halda því fram að hann væri faðir barns hennar til þess að fá hæli.[5] Joseph átti hinsvegar eftir að taka það fram síðar í fjölmiðlum að Omos hefði aldrei beitt hana neinum þrýstingi og ekkert hefði bent til þess þó að það hefði komið fram í minnisblaðinu.[6]

Gísli Freyr Valdórsson, annar aðstoðarmanna Hönnu Birnu, sagði fyrst í viðtali við fjölmiðla að mögulegt væri að einhver óbreyttur starfsmaður innanríkisráðuneytisins hefði lekið persónuupplýsingum um Omos í fjölmiðla en sagði jafnframt að skjalið sjálft sem lekið hefði verið væri ekki til í ráðuneytinu.[6][7]

Þann 22. nóvember sendi ráðuneytið frá sér yfirlýsingu þar sem greint var frá því að „ekkert [benti] til þess að slík gögn hafi verið afhent frá embættismönnum innanríkisráðuneytisins.“ Í sömu yfirlýsingu var það tekið fram að upplýsingarnar úr minnisblaðinu hefðu getað borist fjölmiðlum frá „mörgum stofnunum, embættum og einstaklingum.”[8]

Rannsókn[breyta | breyta frumkóða]

Í byrjun janúar 2014 lagði Stefán Karl Kristjánsson lögmaður Omos fram kæru á hendur innanríkisráðherra og öllum starfsmönnum ráðuneytisins vegna lekans.[9]

Afsögn Stefáns Eiríkssonar[breyta | breyta frumkóða]

Stefán Eiríksson, þvertekur fyrir að hafa hætt störfum vegna þrýstings frá innanríkisráðherra og taldi það tímabært að skipta um starf.[10]

Ólöf Nordal tók við embætti Hönnu Birnu sem utanþingsráðherra

Aðkoma Hönnu Birnu[breyta | breyta frumkóða]

Viðbrögð Hönnu Birnu við lekanum og framkoma hennar við fjölmiðla, Alþingi, lögreglu og eftirlitsstofnanir á borð við Umboðsmann Alþingis voru eitt helsta bitbein lekamálsins frá upphafi til enda.

Þegar dró á rannsókn málsins fór að birtast vilji meðal almennings um að hún segði af sér sem ráðherra. Mikil gagnrýni beindist að því, sérstaklega eftir afsögn Stefáns Eiríkssonar, að hún skyldi enn vera starfandi sem ráðherra yfir dómsmálum. Þegar Gísli Freyr var loks ákærður, þann 15. ágúst 2014, sendi hún frá sér tilkynningu þar sem kom fram að hún hefði beðið forsætisráðherra um að færa dómsmál og ákæruvald yfir til annars ráðherra í ríkisstjórn.[11][12] Mikill meirihluti aðspurðra í skoðanakönnunum vildi hinsvegar að hún myndi víkja sem innanríkisráðherra þar á meðal um helmingur kjósenda Framsóknarflokksins og 45% kjósenda Sjálfstæðisflokksins.[13]

Hanna Birna fékk þó lengst af mikinn stuðning frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins, og þá sérstaklega frá formanninum Bjarna Benediktssyni sem lýsti því ítrekað yfir að hún nyti „óskoraðs trausts“ frá honum.[14] Staða hennar innan flokksins tók þó að veikjast eftir að Gísli Freyr var ákærður og síðan þegar hann játaði verknaðinn í nóvember. Þingmenn flokksins sögðu undir nafnleynd í samtali við blaðamenn Fréttablaðsins að staða hennar hefði veikst og það vakti athygli eftir að gagnrýni umboðsmanns Alþingis var birt að þingflokkurinn skyldi ekki lýsa yfir stuðningi við hana sem ráðherra eins og áður hefði verið gert.[15][16]

Viðbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Viðbrögð ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Ögmundur Jónasson formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis boðaði umfjöllun um málið í nefndinni og Hanna Birna afþakkaði boð um að ræða málið fyrir nefndinni gagnrýndi Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins að halda ætti áfram að rannsaka málið. Jafnframt kallaði hún þá sem vildu að nefndir Alþingis myndu ræða ýmsa anga lekamálsins „vinstri hrægamma.“[17]

Viðbrögð stjórnarandstöðu[breyta | breyta frumkóða]

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis birtu í apríl 2015 skýrslu um aðkomu Hönnu Birnu að lekamálinu þar sem niðurstaða þeirra var að framkoma hennar sem innanríkisráðherra hafi verið „alvarleg og í hæsta máta ámælisverð.”[18]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Morgunblaðið, Margt óljóst í máli hælisleitanda, Skoðað 29. desember 2014.
  2. RÚV, Nígerískur flóttamaður í felum, Skoðað 29. desember 2014.
  3. Fréttablaðið, Minnisblaðið vistað á opnu drifi innanríkisráðuneytisins, Skoðað 29. desember 2014.
  4. Morgunblaðið, Átelja að viðkvæmum upplýsingum hafi verið lekið, Skoðað 29. desember 2014.
  5. RÚV, Flóttamaður grunaður um aðild að mansali, Skoðað 29. desember 2014.
  6. 6,0 6,1 DV, Lögmenn orðlausir yfir leka ráðuneytis á persónuupplýsingum Geymt 25 nóvember 2013 í Wayback Machine, Skoðað 30. desember 2014.
  7. DV, Aðstoðarmaður tvísaga og ólga innan ráðuneytisins Geymt 25 nóvember 2013 í Wayback Machine, Skoðað 29. desember 2014.
  8. Morgunblaðið, Ekki frá embættismönnum ráðuneytisins, Skoðað 29. desember 2014.
  9. RÚV, Hanna Birna kærð, Skoðað 30. desember 2014.
  10. „Stefán: Hætti ekki vegna þrýstings“. www.mbl.is. Sótt 29. janúar 2020.
  11. „Yfirlýsing frá Hönnu Birnu: Aðstoðarmaður ákærður og leystur frá störfum; grein af Eyjunni.is 2014“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. ágúst 2014. Sótt 15. ágúst 2014.
  12. Gísli Freyr ákærður í lekamálinu; grein af Rúv.is 2014
  13. Eyjan, Skoðanakönnun: Ríflegur meirihluti vill að Hanna Birna víki Geymt 24 júní 2016 í Wayback Machine, Skoðað 3. nóvember 2015.
  14. Kjarninn, Þingflokkurinn lýsir yfir breiðum stuðningi við Hönnu Birnu, Skoðað 3. nóvember 2015.
  15. Fréttablaðið, Bjarni um Hönnu Birnu: "Ég ber til hennar gott traust." Skoðað 3. nóvember 2015.
  16. Fréttablaðið, Tvísýn staða Hönnu Birnu, Skoðað 3. nóvember 2015.
  17. RÚV, "Vinstri hrægammarnir" eltast við Hönnu Birnu, Skoðað 4. nóvember 2015.
  18. RÚV, "Alvarleg og í hæsta máta ámælisverð," Skoðað 4. nóvember 2015.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.