Fara í innihald

Landvinningar múslima

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útþensla kalífatsins:
  Undir Múhameð, 622–632
  Undir kalífadæmi hinna réttlátu, 632–661
  Undir Ommejödum, 661–750

Landvinningar múslima (arabíska: الْفُتُوحَاتُ الإسْلَامِيَّة, al-Futūḥāt al-ʾIslāmiyya) eða landvinningar Araba[1] hófust í tíð Múhameðs spámanns sem stofnaði fyrsta íslamska ríkið í borginni Medína á Arabíuskaga. Ríkið stækkaði hratt í valdatíð Rasídúna og Ommejada þar til það stóð í þremur heimsálfum, allt frá Íberíuskaga í vestri að Indlandsskaga í austri.

Ríkið náði hátindi sínum undir stjórn Ommejada á síðari helmingi 7. aldar og fyrri helmingi 8. aldar. Múslimar lögðu undir sig Persíu Sassanída og unnu lönd af Austrómverska ríkinu. Stöðug átök höfðu veikt bæði þessi ríki.[2] Múslimar nýttu sér þann veikleika og réðu um tíma yfir einu stærsta heimsveldi sögunnar. Landvinningar múslima gerðu íslam að heimstrúarbrögðum og höfðu varanleg áhrif á menningu Norður-Afríku og Vestur-Asíu. Þegar Abbasídar tóku við af Ommejödum árið 750 dróst ríkið saman vegna innbyrðis átaka og seinna vegna árása Seljúka og Mongóla á 10. og 13. öld. Eftir það klofnaði heimsveldið í mörg minni ríki.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Þórir Jónsson Hraundal (8.11.2018). „Hvernig breiddist íslam út?“. Vísindavefurinn.
  2. Gardner, Hall; Kobtzeff, Oleg, ritstjóri (2012). The Ashgate Research Companion to War: Origins and Prevention. Ashgate Publishing. bls. 208–209.