Fara í innihald

Lakshmibai

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samtímamynd af Lakshmibai.

Lakshmibai eða Laxmibai, líka þekkt sem drottning (rani) Jhansi (fædd Manikarnika Tambe; 1828 eða 1835 – 18. júní 1858) var eiginkona furstans af Jhansi, Gangadhar Rao, frá 1843 þar til hann lést 1853. Þegar uppreisnin á Indlandi braust út 1857 gerðist hún leiðtogi uppreisnarmanna og barðist við Breta í mörgum orrustum. Hún er í dag álitin þjóðhetja og mikilvæg persóna fyrir indverska þjóðernishyggju.

Hún kom frá Marattafjölskyldu frá Varanasi og giftist ung furstanum (raja) af Jhansi. Við það fékk hún nafnið rani Lakshmibai (frú hindúagyðjunnar Lakshmi). Þau eignuðust einn son sem dó ungur. Þegar Gangadhar lá fyrir dauðanum ættleiddi hann því ungan ættingja, Damodar Rao af Jhansi, sem eftirmann sinn. Breska Austur-Indíafélagið, sem Jhansi heyrði undir, neitaði hins vegar að samþykkja þessar ríkiserfðir og innlimaði Jhansi samkvæmt lögmálinu um niðurfellingu ríkiserfða, þrátt fyrir áköf mótmæli Lakshmibai við landstjórann James Broun-Ramsay.[1]

Árið 1857 gerðu indverskir hermenn í Jhansi uppreisn og myrtu flesta Breta sem þeir náðu til í borginni. Deilt er um að hve miklu leyti drottningin tók þátt í þessum atburðum. Hún tók hins vegar við stjórn Jhansi í kjölfarið og viðaði að sér her til að verjast innrásum utan frá.[2] Í byrjun voru Bretar hlutlausir gagnvart henni, en ákváðu síðar að líta á hana sem óvin. Herforinginn Hugh Rose, 1. barón af Strathnairn hertók Jhansi í mars og apríl 1858. Drottningin slapp á hestbaki og flúði til annarra uppreisnarmanna í Kalpi. Rose sigraði þau 22. maí, en þau flúðu til Gwalior-virkis þar sem Lakshmibai féll í lokaorrustu.

Eftir uppreisnina varð Lakshmibai að þjóðhetju í augum Indverja sem börðust fyrir sjálfstæði landsins. Hún er enn mikilvægt tákn sjálfstæðisbaráttu Indlands og ævi hennar hefur verið efni fjölmargra frásagna, skáldsagna og kvikmynda. Einna þekktust eru kvæðið Jhansi Ki Rani eftir Subhadra Kumari Chauhan frá 1930[3] og skáldsagan Jhansi ki Rani Lakshmi Bai eftir Vrindavan Lal Verma frá 1946.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Singh, Harleen (2014). The Rani of Jhansi: Gender, History, and Fable in India. Cambridge: Cambridge University Press. ISBN 978-1-1073-3749-7.
  2. Lebra, Joyce (1986). The Rani of Jhansi: A Study in Female Heroism in India (PDF). Honolulu: University of Hawai'i Press. ISBN 978-0-8248-0984-3.
  3. Singh, Harleen (2020). „India's Rebel Queen: Rani Lakshmi Bai and the 1857 Uprising“. Women Warriors and National Heroes: Global Histories. London: Bloomsbury Academic. bls. 23–38. ISBN 978-1-3501-2113-3.
  4. Deshpande, Prachi (2008). „The Making of an Indian Nationalist Archive: Lakshmibai, Jhansi, and 1857“. The Journal of Asian Studies. 67 (3): 855–879. doi:10.1017/S0021911808001186.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.