Lada Sport (hljómsveit)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Lada Sport
Lada Sport 2005.jpg
Lada Sport árið 2005.
Bakgrunnur
Fæðingarnafn Óþekkt
Önnur nöfn Óþekkt
Fædd(ur) Óþekkt
Dáin(n) Óþekkt
Uppruni Íslandi
Hljóðfæri Óþekkt
Tegund Óþekkt
Raddsvið Óþekkt
Tónlistarstefnur Popp/Rokk
Titill Óþekkt
Ár 20022008, 2010
Útgefandi Geimsteinn, Record Records
Samvinna Óþekkt
Vefsíða Óþekkt
Meðlimir
Núverandi Friðrik Sigurbjörn Friðriksson
Haraldur Leví Gunnarsson
Jón Þór Ólafsson
Stefnir Gunnarsson
Fyrri Heimir Gestur

Lada Sport er Íslensk hljómsveit sem á rætur að rekja til Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð af þeim Haraldi Leví Gunnarssyni og Stefni Gunnarssyni sumarið 2002 eftir að önnur hljómsveit sem þeir voru í leystist upp. Hljómsveitin spilaði poppað rokk undir áhrifum Nada Surf, Dinosaur Jr. og The Flaming Lips og varð hvað þekktust fyrir þá stefnu. Lada Sport lenti í 2. sæti í músíktilraunum árið 2004 og gaf í framhaldi út stuttskífuna Personal Humour.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2002 leystist upp hljómsveitin Ekkasog en innan hennar voru þeir Haraldur Leví Gunnarsson og Stefnir Gunnarsson. Í framhaldi var stofnuð ný hljómsveit sem fékk nafnið Lada Sport. Mjög fljótt unnu þeir sér upp tónleikaprógram af frumsömdum ósungnum lögum og fóru að spila á öllum þeim stöðum sem buðust í Hafnarfirði á þeim tíma. Um jólin 2002 óskaði Haraldur eftir bassaleikara í gegnum samskiptasíðuna hugi.is. Friðrik Sigurbjörn Friðriksson, reykvíkingur, sem þá var meðlimur hljómsveitarinnar Íbúfen,[1] svaraði auglýsingunni og byrjaði í framhaldi af því að æfa með hljómsveitinni árið 2003.

Fyrstu tónleikar Lödu Sport sem tríó voru hluti af fimmtudagsforleik Hins Hússins. Þegar hér er komið sögu voru öll lög, sem hljómsveitin hafði samið, enn ósungin og beinskeitt gítardrifin rokklög. Hljómsveitin spilaði við öll tækifæri sem henni gefast og Haraldur Leví notfærði sér öll sín tengsl í Hafnarfirðinum til þess. Hingað til hafði Lada Sport aðeins æft í bílskúr foreldra Haralds en þurfti þegar líða tók á veturinn að færa sig um set þar sem æfingarnar voru farnar að aukast. Þá fengu þeir aðstöðu á vegum Hafnarfjarðarbæjar, gamalt bifreiðaverkstæði sem hafði verið innrétt með nokkrum herbergjum gagngert fyrir hljómsveitir að æfa í. Þessi æfingaraðstaða hét Músík & Mótor. Þegar hausta tók byrjaði Stefnir meðvitað að þjálfa strák að nafni Heimi Gest sem gítarleikara til að koma honum inn í hljómsveitina, sem varð svo raunin í árslok 2003.

Hljómsveitin hafði nokkrum sinnum reynt að fá til sín söngvara en ekkert gengið í þeim efnum og í kringum áramótin fór Stefnir að fikta við það sjálfur á æfingum samhliða gítarleiknum. Þau lög sem samin voru í ársbyrjun 2004 hentuðu þeim stíl sem Stefnir hafði kosið að syngja með og fyrsta lagið sem tekið var upp hét „Blame It on the Dead Guy“.

Músíktilraunir, Personal Humour og 2004-2005[breyta | breyta frumkóða]

Í framhaldi af hversu fljótt Lada Sport náði að þétta sig upp í ársbyrjun 2004 ákváðu þeir að sækja um þátttöku í músíktilraunum, sem haldnar voru á vegum Hins Hússins. Hljómsveitin var sett á annað tilraunkvöldið af fimm sem haldin voru í Tjarnarbíói og komst hún áfram á vali dómnefndar. Á úrslitakvöldinu, sem haldið var í Austurbæ, spilaði hljómsveitin í beinni á Rás 2 og þrátt fyrir vandamál með gítarmagnara lenti Lada Sport í 2. sæti.[2] Þeir sáu á eftir 1. sætinu til hinnar mjög svo ungu hljómsveitar Mammút en Tony the Pony frá Húsavík fékk það þriðja.

Eftir músíktilraunir streymdu lögin út úr Stefni, sem fram að þessu hafði séð um allar lagasmíðar einn síns liðs. Um sumarið 2004 var komið að því að reyna koma út tónlistinni í einhvers konar föstu formi. Haraldur hafði komið sér upp aðstöðu í fyrrnefndum bílskúr foreldra sinna þar sem upptökur á fyrstu plötu Lada Sport, Personal Humour fóru fram. Um verslunarmannahelgina var hljómsveitinni boðið að spila á Bindindismótinu í Galtalæk. Þar kynntust strákarnir hljómsveitinni Tony the Pony betur sem leiddi af sér ferð norður á land til Akureyrar og Húsavíkur seinna það haust. Platan Personal Humour kom út í 200 eintökum í september og upplagið var fjármagnað og gefið út af þeim sjálfum.

Í árslok 2004 missti hljómsveitin æfingaraðstöðu sína í Músík & Mótor og var hún þá þvinguð til að troða sér aftur inn í títtnefndan bílskúr, þar sem drög að nýjum lögum urðu til. Verðlaunum músíktilrauna árið áður, tímar í Stúdíó Sýrlandi var varið í upptökur á laginu „Summertime in Outer Space“ snemma 2005 en það var Axel Flex Árnason sem sá um upptökur og eftirvinnslu. Það var þó ekki fyrr en þegar draga fór á vorið sem Lada Sport fann sér nýtt æfingarpláss í Garðabænum. Þrátt fyrir lög eins og „Summertime in Outer Space“ og „Royal Suits & Wine“ reyndist mjög erfitt fyrir hljómsveitina að athafna sig á nýja staðnum. Æfingum fór að fækka og Heimir Gestur ákvað að kúpla sig út til þess að ganga til liðs við hljómsveitina Jakobínarína, sem hafði nokkrum dögum áður sigrað músíktilraunir.[3]

Sín á milli voru þrír eftirstandandi meðlimir Lada Sport sammála um að bandið væri hætt. Haraldur fékk í byrjun sumars 2005 Helga Rúnar Gunnarsson til liðs við sig til að reyna stofna nýja hljómsveit. Fljótlega þróaðist þetta þó þannig að Lada Sport ákvað að halda áfram með Helga innanborðs. Upptakan af laginu „Summertime in Outer Space“ fór að hljóma á útvarpsstöð X-ins og spilað var á nokkrum tónleikum það sumar með bandið í þessari mynd.

Nýr gítarleikari og árið 2006[breyta | breyta frumkóða]

Líkt og með Heimi Gest á undan hafði Stefnir, án þess að láta Harald og Friðrik vita byrjað að þróa nýtt tónlistartengt samband við gítarleikarann Jón Þór Ólafsson, þá meðlim hljómsveitarinnar Isidor. Æfingar hófust með Jóni, sem kom í stað Helga Rúnars á nýjum stað og með nýjum áherslum. Hljómsveitin leigði herbergi með annarri hljómsveit Helga Rúnars, Benny Crespo's Gang í Tónlistarþróunarmiðstöðin úti á Granda í Reykjavík haustið 2005. Til urðu á þessum tíma nokkur ný lög þar sem Jón Þór var farinn að taka við nokkrum línum í söngnum. Hljómsveitin hélt áfram að spila reglulega á tónleikum, þar á meðal kíkti hún aftur norður á land það haust sem og spilaði í fyrsta sinn á Iceland Airwaves hátíðinni. Í kringum jólin 2005 var svo hrært í myndband við lagið „Royal Suits & Wine“ þar sem Katrína Mogensen söngkona Mammút söng með Stefni.

Vorið 2006 dróg Lada Sport töluvert úr tónleikahaldi og það var svo ekki fyrr en í byrjun sumars sem margt small saman, undir miklum áhrifum frá hljómsveitinni The Flaming Lips samdi Jón Þór lagið „Love Donors“. Lag sem varð núllpunktur plötu sem kæmi svo út rúmlega ári seinna. Vel víraðir með nýjar hugmyndir í pokahorninu byrjaði hljómsveitin að spila á tónleikum með svokölluðu „Playbacki“, þar sem hljóðgervlar og allskonar aukahljóð sem bandið gat ekki framkallað sjálft var látið flakka af tölvu sem Haraldur hafði umsjón með. Fyrstu slíku tónleikarnir voru haldnir í Vestmannaeyjum um mitt sumar.

Þegar hér er komið sögu voru Stefnir og Jón Þór meðvitað farnir að skipta á milli sín lagasmíðum Lada Sport. Hljómsveitin spilaði seinna um haustið aftur á Iceland Airwaves hátíðinni fyrir fullum sal á staðnum Grand Rokk, þar sem Faktorý er nú til húsa. Þegar fór að dragast nær jólum römbuðu strákarnir á lag á miðri æfingu sem þeir ákváðu að yrði að vera jólalag. Birgir Örn Árnason, félagi hljómsveitarinnar og meðlimur hljómsveitarinnar Ókind, var þá kallaður til og laginu „A Night in Christmastown“ snarað inn á „teip“. Lagið var gefið út fyrir jólin 2006.[4] Það sem eftir var af árinu hélt hljómsveitin áfram að púsla saman lögum fyrir plötuútgáfu.

Upptökur, Time and Time Again og „endalokin“[breyta | breyta frumkóða]

Þegar árið 2007 var gengið í garð var Lada Sport í óða önn að leggja drög að hvernig þeir ættu að fara að því að taka upp sína fyrstu stóru plötu. Einu kynni bandsins af alvörugefnum upptökustjóra var við Axel Flex Árnason og lá beint við að hann myndi bara sjá um þetta. Í febrúar var byrjað að taka upp fyrstu lögin fyrir það sem myndi verða að plötunni Time and Time Again. Hljómsveitinni hafði boðist að spila á tónleikum í Austin, TX í Bandaríkjunum samhliða tónlistarhátíðinni South by Southwest sem fór fram um miðjan mars. Hún þáði boðið og fékk útlistað fríu fari til New York á vegum Loftbrúar Icelandair.

Þegar komið var aftur heim var strax rennt í seinni törn upptökuferlisins. Hljómsveitin átti fund með Rúnari Júlíussyni varðandi útgáfu á plötu sinni sem endaði með því að Lada Sport skrifaði undir útgáfusamning við útgáfufélag Rúnars, Geimstein. Rétt fyrir seinna holl upptökuferlisins bað Friðrik, Jón og Stefni um að semja eitt lag til viðbótar fyrir plötuna, eitt svokallað sumarlag. Meira að segja varð bónin svo nákvæm að hann bað þá um að hafa það í stíl við eitt vel valið lag með hljómsveitinni Built to Spill. Nokkrum dögum seinna höfðu Jón og Stefnir kokkað upp lagið „The World Is a Place for Kids Going Far“ sem varð að fyrri útvarps smáskífu plötunnar Time and Time Again. Lagið náði 1. sæti á lista Radíó Reykjavík sem og 2. sæti hjá X-inu í nokkrar vikur.

Platan Time and Time Again kom loks út þann 9. júní á vegum Geimsteins.[5] Hljómsveitin fékk boð um að hafa lag í mynd Gunnars B. Guðmundssonar, Astrópíu. Lagið sem varð fyrir valinu var „Last Dance Before an Execution“ en Júlíus Kemp framleiðandi myndarinnar leikstýrði tónlistarmyndbandi við lagið. Þriðja árið í röð spilaði Lada Sport á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni, í þetta sinn á Nasa við Austurvöll.

Hljómsveitin æfði nú í mjög litlu æfingarrými í Hafnarfirði með hljómsveitinni Vicky. Nokkur lög voru samin það sem eftir var af ári og ákveðið var að reyna byrja strax að taka upp demo eða prufutökur af þessum nýju lögum til að það yrði ekki eins langt í næstu stóru plötu. Farið var í tvær ferðir suður til Keflavíkur í upptökuver Geimsteins til að koma þessu niður í tölvu. Stór áform voru gerð um hvert skildi fara á næstu plötu þrátt fyrir að í raun var farið að stirðna mjög á milli ákveðna meðlima bandsins. Ekkert varð úr þessum áformum og stuttu seinna ákveður Jón Þór að segja sig lausan frá hljómsveitinni. Þar með hættir Lada Sport formlega með lokatónleikum á skemmtistaðnum Organ í júní 2008.[6]

Eftirfari[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Lada Sport hætti störfum fór Jón Þór að einbeita sér að hinu verkefninu sínu Dynamo Fog, með Arnari Inga úr Isidor og Axel Flex Árnasyni upptökustjóra, sem seinna Sindri Eldon gekk til liðs við á bassa[7] í stað Axels. Haraldur Leví stofnaði sína eigin plötuútgáfu,[8] Record Records. Stefnir gerði sitt langtímaverkefni Japanese Super Shift að fullmannaðri hljómsveit, sem Friðrik sogaðist svo inn í á bassa.

Snemmsumars árið 2009 byrjuðu Jón Þór og Haraldur með útvarpsþáttinn Sonic á X-inu.[9] Þegar líða fór á árið fóru þeir að henda sín á milli hugmynd um að koma Lada Sport aftur í gang. Hugmyndum var fleygt fram en ekkert varð af þeim. Það er svo ekki fyrr en í mars 2010 sem Friðrik ýtti á alla meðlimi bandsins að koma sér saman og taka upp eitt lag sem samið hafði verið áður en hljómsveitin lagði upp laupana. Allir sem einn féllust þeir á það og tvö lög voru á endanum tekin upp, „Love Is Something I Believe In“ og „What If Heaven Is Not for Me?“ í upptökuveri Haralds undir stjórn Arons Þórs Arnarssonar. Um miðjan júní kom svo út 7" vínyl platan Love Is Something I Believe In,[10] sem inniheldur tvö fyrrnefnd lög. Í framhaldi spilaði Lada Sport á tveimur tónleikum, á þeim síðari með langtíma vinahljómsveitum, Bob og Coral í ágúst 2010.

Hljóðfæraskipan[breyta | breyta frumkóða]

Fyrrverandi Meðlimir

  • Heimir Gestur Valdimarsson / Gítar

Útgáfur[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]