Lada Sport (hljómsveit)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lada Sport
Lada Sport árið 2005.
Lada Sport árið 2005.
Upplýsingar
UppruniÍslandi
Ár20022008, 2010
StefnurPopp/Rokk
ÚtgefandiGeimsteinn, Record Records
MeðlimirFriðrik Sigurbjörn Friðriksson
Haraldur Leví Gunnarsson
Jón Þór Ólafsson
Stefnir Gunnarsson
Fyrri meðlimirHeimir Gestur

Lada Sport er íslensk hljómsveit sem á rætur að rekja til Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð af þeim Haraldi Leví Gunnarssyni og Stefni Gunnarssyni sumarið 2002 eftir að önnur hljómsveit sem þeir voru í leystist upp. Hljómsveitin spilar nýbylgjurokk undir áhrifum Nada Surf, Dinosaur Jr. og The Flaming Lips og varð hvað þekktust fyrir þá stefnu. Lada Sport lenti í 2. sæti í músíktilraunum árið 2004 og gaf í framhaldi út stuttskífuna Personal Humour. Eina breiðskífa sveitarinnar Time and Time Again kom síðan út árið 2007. Lada Sport lagðist síðan í dvala árið 2010 eftir hafa gefið út 7"-plötuna Love Is Something I Believe In.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Lada Sport var stofnuð í Hafnarfirði árið 2002 eftir að hljómsveitin Ekkasog leystist upp. En innan hennar voru þeir Haraldur Leví Gunnarsson og Stefnir Gunnarsson. Mjög fljótt unnu þeir sér upp tónleikaprógram af frumsömdum ósungnum lögum og fóru að spila á öllum þeim stöðum sem buðust í Hafnarfirði á þeim tíma. Síðla árs 2002 óskaði Haraldur síðan eftir bassaleikara í gegnum samskiptasíðuna hugi.is. Reykvíkingurinn Friðrik Sigurbjörn Friðriksson, sem þá var meðlimur hljómsveitarinnar Íbúfen[1] svaraði auglýsingunni og byrjaði í framhaldi af því að æfa með hljómsveitinni árið 2003.

Fyrstu tónleikar Lada Sport sem tríó voru hluti af fimmtudagsforleik Hins Hússins vorið 2003. Þegar hér er komið sögu voru öll lög sem hljómsveitin hafði samið enn ósungin gítardrifin rokklög. Hljómsveitin spilaði við öll tækifæri sem henni gafst. Hingað til hafði Lada Sport aðeins æft í bílskúr foreldra Haralds. En þar sem æfingum var farið að fjölga þá þurfti hljómsveitin að leita annað þegar líða fór á árið 2003. Hljómsveitin fékk aðstöðu í Músík & Mótor, sem var á vegum Hafnarfjarðarbæjar; gamalt bifreiðaverkstæði sem hafði verið innrétt með nokkrum herbergjum gagngert fyrir hljómsveitir að æfa í. Undir árslok 2003 gekk Heimir Gestur gítarleikari við liðs við hljómsveitin og Stefnir fór að prófa sig áfram sem söngvari.

Músíktilraunir og fyrsta platan[breyta | breyta frumkóða]

Í ársbyrjun 2004 ákváð hljómsveitin að taka þátt í Músíktilraunum sem haldnar voru á vegum Hins Hússins. Hljómsveitin var sett á annað tilraunakvöldið af fimm sem haldin voru í Tjarnarbíói og komst hún áfram á vali dómnefndar. Á úrslitakvöldinu, sem haldið var í Austurbæ, spilaði hljómsveitin í beinni á Rás 2 og þrátt fyrir vandamál með gítarmagnara lenti Lada Sport í 2. sæti.[2] Þeir sáu á eftir 1. sætinu til hljómsveitarinnar Mammút en Tony the Pony frá Húsavík lenti í því þriðja.

Sumarið 2004 tók Lada Sport upp sína fyrstu plötu. Haraldur hafði komið sér upp aðstöðu í fyrrnefndum bílskúr foreldra sinna þar sem upptökur á plötunni Personal Humour fóru fram. Um sumarið var hljómsveitinni boðið að spila á Bindindismótinu í Galtalæk sem fram fór um Verslunarmannahelgina. Þar kynntust strákarnir hljómsveitinni Tony the Pony betur sem leiddi af sér tónleikaferð norður á land til Akureyrar og Húsavíkur um haustið. Platan Personal Humour kom út í 200 eintökum í september og var upplagið fjármagnað og gefið út af hljómsveitinni sjálfri.

Í árslok 2004 missti hljómsveitin æfingaraðstöðu sína í Músík & Mótor og kom hún sér því aftur fyrir í bílskúr Haralds. Vorið 2005 fann hljómsveitin sér síðan nýtt æfingarpláss í Garðabænum. Þá ákvað Heimir Gestur að hætta til þess að ganga til liðs við aðra Hafnarfjörður hljómsveit, Jakobínarína, sem hafði nokkrum dögum áður sigrað Músíktilraunir.[3]

Sín á milli voru þrír eftirstandandi meðlimir Lada Sport sammála um að hljómsveitin væri hætt. Haraldur fékk í byrjun sumars 2005 Helga Rúnar Gunnarsson úr Benny Crespo's Gang til liðs við sig til að reyna stofna nýja hljómsveit. Fljótlega þróaðist þetta þó þannig að Lada Sport ákvað að halda áfram með Helga innanborðs og spilaði hljómsveitin í þessari mynd á nokkrum tónleikum það sumar.

Nýr gítarleikari og árið 2006[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 2005 náði Stefnir að snara Jóni Þór Ólafssyni, þá meðlim hljómsveitarinnar Isidor, til liðs við Lada Sport. Æfingar hófust strax með Jóni, sem kom í stað Helga Rúnars á nýjum stað og með nýjum áherslum. Hljómsveitin skipti tvisvar um æfingarhúsnæði þá um haustið; fyrst leigði hún herbergi í Tónlistarþróunarmiðstöðin úti á Granda í Reykjavík og síðar færði hún sig aftur til Hafnarfjarðar í annað æfingarhúsnæði á vegum bæjarinnar. Hljómsveitin hélt áfram að spila reglulega á tónleikum; þ.á.m. spilaði hún í fyrsta sinn á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni.

Vorið 2006 dróg Lada Sport talsvert úr tónleikahaldi til að einbeita sér að lagasmíðum. Eitt þeirra laga sem varð til á þessum tíma var „Love Donors“. Jón Þór hafði samið „Love Donors“ undir miklum áhrifum frá hljómsveitinni The Flaming Lips og varð það fyrsta lagið til að vera tekið upp fyrir plötu sem kom út rúmlega ári síðar. Á þessum tíma voru Stefnir og Jón Þór meðvitað farnir að semja lög Lada Sport í sitthvoru lagi og þau síðan útsett á æfingum.

Lada Sport spilaði seinna um haustið aftur á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni og fyrir jólin ákvað hljómsveitin að setja saman jólalagið „A Night in Christmastown“. Birgir Örn Árnason meðlimur hljómsveitarinnar Ókind var þá kallaður til og lagið tekið upp í hljóðveri hans úti á Seltjarnarnesi.[4] Það sem eftir var af árinu hélt hljómsveitin áfram að semja lög fyrir væntanlega plötuútgáfu.

Time and Time Again[breyta | breyta frumkóða]

Snemma árs 2007 var hljómsveitin tilbúin að hefja upptökur á sinni fyrstu breiðskífu. Axel „flex“ Árnason upptökustjóri var fengin til verksins, en hann hafði unnið með hljómsveitinni áður. Upptökur hófust í febrúar og stóðu þær með hléum allt fram í maí. Hljómsveit spilaði í mars á „off-venue“ tónleikum samhliða tónlistarhátíðinni South by Southwest í Austin, TX í Bandaríkjunum. Seinna um vorið átti hljómsveitin síðan fund með Rúnari Júlíussyni eiganda útgáfunnar Geimsteins um útgáfu á plötunni.

Platan Time and Time Again kom út þann 9. júní á vegum Geimsteins.[5] Fyrsta útvarpssmáskífa plötunnar „The World Is a Place for Kids Going Far“ náði 1. sæti á lista Radíó Reykjavík sem og 2. sæti hjá X-inu í nokkrar vikur. Um svipað leyti var lag af plötunni fengið í mynd Gunnars B. Guðmundssonar, Astrópíu. Hljómsveitin spilaði síðan þriðja árið í röð á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni þá um haustið.

Síðla árs 2007 skipti Lada Sport aftur um æfingarhúsnæði í Hafnarfirði. Þá snemma 2008 fór hljómsveitin síðan að semja efni fyrir aðra breiðskífu. Farnar voru tvær ferðir suður til Keflavíkur í upptökuver Geimsteins til taka upp prufutökur (e. demo). Ekkert varð þó úr þessum áformum og stuttu síðar segir Jón Þór sig lausan frá hljómsveitinni og hættir Lada Sport störfum tímabundið í kjölfarið. Lokatónleikar voru haldnir á skemmtistaðnum Organ í júní.[6]

Eftirmáli[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Lada Sport hætti störfum vorið 2008 fór Jón Þór að einbeita sér að hljómsveit sinni Dynamo Fog og síðar sínum eigin sólóferli undir nafninu Jón Þór. Haraldur Leví stofnaði plötuútgáfunar Record Records[7] sem átti m.a. eftir að gefa út hljómsveitina Of Monsters and Men. Stefnir stofnaði hljómsveitina Japanese Super Shift & the Future Band og kom Friðrik síðar inn í hana.

Snemmsumars árið 2009 byrjuðu Jón Þór og Haraldur með útvarpsþáttinn Sonic á X-inu.[8] Seinna það ár fór hljómsveitin að henda sín á milli hugmyndinni að koma Lada Sport aftur í gang. Endurkoman varð að veruleika, en var hún þó skammlíf. Í mars 2010 tók hljómsveitin upp tvö lög í upptökuveri Haralds undir stjórn Arons Þórs Arnarssonar og um sumarið kom svo út 7" vínyl platan Love Is Something I Believe In.[9] Í kringum útgáfu spilaði hljómsveitin á tveimur tónleikum.

Hljóðfæraskipan[breyta | breyta frumkóða]

Fyrrverandi Meðlimir

Útgáfur[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2007. Sótt 3. desember 2011.
  2. [1][óvirkur tengill]
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. febrúar 2011. Sótt 3. desember 2011.
  4. [2]
  5. [3]
  6. [4]
  7. [5]
  8. [6][óvirkur tengill]
  9. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. júlí 2010. Sótt 3. desember 2011.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]