La ceinture du grand froid

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

La ceinture du grand froid (íslenska: Kuldakastið) er þrítugasta Svals og Vals-bókin og sú fyrsta eftir Nic og Cauvin. Hún kom út á frönsku árið 1983 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Svalur og Valur eru í sumarfríi á sólarströnd ásamt Pésa þegar Valur ákveður að verja ferðasjóðnum í að kaupa fúadall og leggja í siglingu. Skyndilega sigla þeir inn í heimskautakulda. Þetta furðulega veðurfyrirbæri er verk þriggja vísindamanna sem heita Jefferson, Boris og Karl. Þeir undirbúa geimferð í leit að annarri plánetu þar sem þeir geti haldið áfram vísindastörfum sínum án þess að vera neyddir til að þróa vopn fyrir stjórnvöld. Með því að framkalla þoku og jökulkulda reyna þeir að halda óboðnum gestum í burtu fram að geimskoti.

Vísindamennirnir vingast við Sval og Val, en saman uppgötva þeir að hópur óþokka undir stjórn glæpaforingjans Alexanders og aðstoðarmanns hans Kalloway koma aðvífandi á kafbáti. Svalur og Valur taka að sér að tefja árásarliðið og nota til þess veðravélina og uppfinningu sem gerir þeim kleift að ganga á vatni. Það tekst naumlega og í lok bókarinnar fá félagarnir skilaboð frá vísindamönnunum um að þeir hafi fundið sér hentuga plánetu.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Þetta var fyrsta Svals og Vals-bókin eftir að Fournier lét af störfum. Vegna óvissu um höfundaréttarmál máttu höfundarnir ekki nota neinar af aukapersónum hans. Bækurnar eftir Nic og Cauvin hafa því ekki aðra tengingu við aðrar sögur bókaflokksins en aðalpersónurnar.
  • Þegar vísindamennirnir þrír yfirgefa jörðina, gefa þeir Sval og Val dularfullan kassa sem þeir segja að geti orðið mannkyninu til mikils gagns. Kassinn kemur mjög við sögu í næstu bók La Boîte noire.