Lögmál Parkinsons

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lögmál Parkinsons segir að:

Verkefni munu taka þann tíma sem þeim er úthlutað.

Lögmálið var fyrst sett fram af C. Northcote Parkinson í bókinni Parkinson's Law: The Pursuit of Progress sem gefin var út árið 1958. Það er sett fram sem afleiðing af mikilli reynslu Parkinsons á breskri skriffinsku.

Samkvæmt Parkinson þá er lögmálið afleiðing tveggja samverkandi krafta. Annarsvegar vilja embættismenn fjölga undirmönnum sínum, en ekki keppinautum, og hinsvegar skapa embættismenn vinnu hver fyrir annan. Hann benti líka á að á hverju ári varð 5-7% aukning á starfsmannafjölda í opinberri þjónustu, „óháð breytingum á magni vinnu (ef nokkrar voru)“.

Lögmálið hefur verið aðlagað að tölvuiðnaðinum, þar sem að sagt er að gagnamagn mun aukast þar til að allt tiltækt pláss er í notkun. Þetta er byggt á þeirri athugun að kaup á meira minni ýti undir notkun minnisfrekari aðferða; en á síðastliðnum 10 árum hefur magn minnis í tölvum (bæði vinnsluminnis og geymsluminnis) tvöfaldast á 18 mánaða fresti (sjá lögmál Moores).

Lögmálið hefur verið útvíkað enn frekar sem: „Kröfur sem gerðar eru til auðlindar aukast alltaf þar til að auðlindin er fullnýtt.“ - Þetta gæti átt við um náttúruauðlindir, raforku, tíma eða mannauð, svo að dæmi séu tekin.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]