L'apprenti méchant

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

L'apprenti méchant, (Íslenska Illi lærlingurinn) er önnur bókin í sjálfstæðri ritröð um Zorglúbb úr sagnaflokknum um Sval og Val, sem og dóttur hans á unglingsaldri. Höfundur hennar er listamaðurinn Munuera sem um tíma var aðalhöfundur Svals & Vals-bókaflokksins. Bókin kom út í Belgíu árið 2018, en hefur ekki verið þýdd á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst í eyðimörk í ótilgreindu landi í Mið-Austurlöndum þar sem Zorglúbb reynir að pranga vígtólum inn á stríðsherra sem á í erjum við nágranna sína. Ekki er þó um ýkja háskaleg vopn að ræða, þar sem dóttirinn og vélstúlkan Zandra hefur bannað föður sínum þá starfsemi. Viðskiptin eru trufluð þar sem tíu ára amápjakkur, Zédrik að nafni, kemur aðvífandi á hátæknilegu loftfari sínu. Hann er fluggreindur en eldheitur aðdáandi Zorglúbbs og þvingar hann til að gerast lærimeistari sinn.

Zédrik fylgir Zorglúbb í höfuðstöðvar hans og hittir það Zöndru. Hann verður hugfanginn af henni, en skilur ekki tilfinningarnar sem bærast í honum. Zandra fær Zédrik til að hjálpa sér að stelast á skemmtistað, þar hitta þau fyrir Shine vinkonu hennar sem er yfir sig ástfangin af Zöndru án þess að þora að viðurkenna það. Zandra á hins vegar kærastann André og veldur sú uppgötvun Zédrik uppnámi og hann hyggur á hefndir.

Zédrik snýr aftur sem ofurillmenni sem dáleiðir Shine og hótar að drepa hana ef Zandra lætur ekki að vilja hans. Honum tekst að komast inn í móðurtölvu Zorglúbbs og þaðan inn í heila Zöndru. Fikt hans verður til þess að virkja ofurkrafta Zöndru sem gengur berserksgang og reynir að drepa föður sinn, Zédrik og Shine. Að lokum tekst Shine þó kyssa vinkonu sína og reynist ástin nægilega sterkt afl til að yfirvinna tryllinginn og Zandra kemst til meðvitundar, án þess þó að muna hvað gerðist. Zorglúbb fyrirgefur Zédrik, sem nú er orðinn fróðari um hið flókna fyrirbæri ástina, öll vandræðin sem hann olli og tekur hann sem lærling sinn.