Fara í innihald

Kristján Ó. Þorgrímsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kristján Ó. Þorgrímsson (8. febrúar 1857 - 18. september 1915) var bóksali og leikari í Reykjavík. Hann tók virkan þátt í bæjarmálum Reykjavíkur, sat um tíma í bæjarstjórn og gegndi stóðu ræðismanns Svíþjóðar.

Kristján Ólafur Þorgrímsson fæddist á Staðarbakka í Helgafellssveit á Snæfellsnesi 8. febrúar 1857. Hann flutti til Reykjavíkur 1875, lærði bókband og opnaði bókabúð á jarðhæð íbúðarhúss síns að Kirkjustræti 10 árið 1880. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum bæjarins, sat m.a. í bæjarstjórn Reykjavíkur, var um tíma umsjónarmaður Dómkirkjunnar og brunamálastjóri. Hann kom líka að blaðaútgáfu og var ritstjóri Þjóðólfs 1880-1882.

Kristján var einn vinælasti gamanleikari landsins undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu. Hann kom fyrst fram á leiksviði 1881 í hlutverki Guðmundar bónda í Nýársnótt Indriða Einarssonar og lék í kjölfarið fjölda hlutverka hjá leikfélögum bæjarins, bæði í Góðtemplarahúsinu og Fjalakettinum. Meðal hlutverka hans sem nutu mikilla vinælda voru Franziska í Háa-C-inu eftir Sophus Neumann og kammerráð Kranz í Ævintýri á gönguför eftir Jens Christian Hostrup, en það hlutverk lék hann oftar en nokkuð annað.

Kristján var einn stofnenda Leikfélags Reykjavíkur 1897 og afkastamikill leikari þar fyrsta áratuginn. Hann lék 27 hlutverk hjá Leikfélaginu og um 50 hlutverk alls þegar sýningar fyrir stofnun LR eru taldar með. Kristján naut mikilla vinsælda meðal áhorfenda. Þegar hann fagnaði 25 ára leikafmæli var haldin sérstök hátíðarsýning honum til heiðurs og var það í fyrsta sinn sem leikafmæli leikara á Íslandi var fagnað með þeim hætti.

Árið 1907 var Kristján skipaður ræðismaður Svíþjóðar á Íslandi og eftir það kom hann sjaldan fram á leiksviði.

Kristján Ó. Þorgrímsson lést í Reykjavík 18. september 1915.

Guðmundur Guðmundsson. "Kristján Ó. Þorgrímsson konsúll." Óðinn 9. árg., 8. tbl., 1913.

Sveinn Einarsson. Íslensk leiklist II. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1996.