Kristín Jónsdóttir (sagnfræðingur)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kristín Jónsdóttir (f. 1. nóvember 1947) er sagnfræðingur og ritstjóri vefjarins Kvennalistinn.is.[1] [2] Hún tók þátt í undirbúningi og stofnun Kvennaframboðs 1982 og Kvennalista 1983. Hún fæddist á Siglufirði og flutti sjö ára til Reykjavíkur. Foreldrar hennar eru Jón Hjaltalín Gunnlaugsson (1917–1988) læknir og Jóna Bjarnadóttir (1921–2019) húsmóðir.

Kristín var gift Jóni Grétari Óskarssyni (1947–1985) lífeðlisfræðingi. Þau eignuðust tvö börn, Örnu Björk Jónsdóttur og Örvar Kristínar Jónsson.

Námsferill[breyta | breyta frumkóða]

Kristín er með meistaragráðu í sagnfræði, lokaritgerðin fjallar um Kvennaframboð og Kvennalista. Hún er með B.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands, B.A. gráðu í íslensku, (lokaritgerð um þýddar barnabækur) og B.A. gráðu í sagnfræði, (lokaritgerð um Samtök frjálslyndra og vinstri manna). Kristín stundaði framhaldsnám í Computing in Education við Háskólann í Kent og fékk til þess British Council styrk.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Kristín starfaði um 20 ár sem skrifstofustjóri á upplýsinga- og þjónustusviði menntamálaráðuneytis. Hún var verkefnastjóri í verkefninu Vitundarvakning gegn kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi gegn börnum. Kristín var forstöðumaður rekstrarsviðs Háskólans í Reykjavík, námstjóri í tölvunarfræðum, kennari í tæp tíu ár í íslensku og tölvunarfræði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og blaðakona á Tímanum. Hún var sjúkraliði á Borgarspítalanum, vann sem bókhaldari í Borgarbókhaldi Reykjavíkur, starfaði á ferðaskrifstofunni Útsýn og í Landmannsbanken í Kaupmannahöfn.

Ritstörf og ritstjórnir[breyta | breyta frumkóða]

2017 Jón og Jóna. Ævisaga Jóns Hjaltalíns Gunnlaugssonar læknis og Jónu Halldóru Bjarnadóttur húsmóður. Útg. fjölskylda Jóns og Jónu.

2013 Hugprúði Bolvíkingurinn. Saga Bjarna Bárðarsonar formanns og Kristínar Ingimundardóttur húsmóður. Útg. afkomendur Bjarna og Kristínar.

2010 Kynungabók. Upplýsingar fyrir ungt fólk um jafnrétti kynja. Meðhöfundar Berglind Rós Magnúsdóttir, Guðrún M. Guðmundsdóttir, Jóna Pálsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir. Útg. Menntamálaráðuneyti.

2007 „Hlustaðu á þína innri rödd, Kvennaframboð í Reykjavík og Kvennalisti 1982‒1987. Útg. Sögufélagið.

1982    Æskuminning. Smásaga í TMM.

Kristín ritstýrir og stofnaði vefinn Kvennalistinn.is árið 2017 sem er sögulegur vefur um Kvennaframboð og Kvennalista. Markmið vefjarins er að greina frá hinum miklu áhrifum sem Kvennalistinn hafði í sveitarstjórnum, á Alþingi og í samfélaginu öllu með því að breyta umræðunni, meðal annars um kynferðislegt ofbeldi gegn konum og börnum og meðferð kerfisins á fórnarlömbum nauðgara. Einnig kom Kvennalistinn með nýjar áherslur í umhverfisverndarmálum, fjölskyldumálum, fæðingarorlofsmálum o.fl. Mikið er af ljósmyndum á vefnum.

Kristín hefur ritað fjöldann allan af greinum í blöð og tímarit, flutt fyrirlestra, bæði innan lands og utan um jafnréttismál, mannréttindamál, barnabókmenntir, upplýsingatæknimál og innflytjendamál. Hún var ritstjóri ytri vefjar mennta- og menningarmálaráðuneytis 1994–2011 og innri vefjar ráðuneytisins. Kristín var ritstjóri Fréfttabréfs menntamálaráðuneytis 1990–2000. Hún var ritstjóri Tölvur í skólastarfi sem ráðuneytið gaf út og sat í ritstjórnum Unifem á Íslandi árin 1999 og 2001.

Stjórnmál og mannréttindamál[breyta | breyta frumkóða]

Kristín starfaði með Rauðsokkahreyfingunni 1976–1982. Hún tók þátt í undirbúningi og stofnun Kvennaframboðs 1982 og Kvennalista 1983 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum framboðanna.

Hún tók þátt í stofnun IceFemIn (Icelandic Feminist Initiative) 2017 sem beitir sér í þágu kvenfrelsis, jafnréttis og jöfnuðar, hérlendis sem erlendis.

Kristín hefur víða sótt ráðstefnur og fundi og flutt erindi í tengslum við kvenfrelsismál, meðal annars í Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi og Lettlandi.

Kristín hefur látið sig varða mannréttindamál. Auk jafnréttismála má nefna innflytjendamál og málefni samkynhneigðra. Hún sat í innflytjendaráði, 2005–2009, sem samdi meðal annars þingsályktunartillöguna Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem var lögð fyrir Alþingi 2008. Hún sat í nefnd til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi skipuð af forsætisráðuneytinu. Nefndin gaf út Skýrslu um réttarstöðu samkynhneigðra sem forsætisráðherra lagði fyrir Alþingi 2004. Hún sat í Verkefnisstjórn um íslenskukennslu fyrir útlendinga 2006–2007 og var varaformaður í stjórn Íslandsdeildar UNIFEM 1999–2003, síðar UN Women.

Nefndir, ráð og stjórnir[breyta | breyta frumkóða]

Kristín er formaður fagstjórnar Bókasafns Dagsbrúnar og ritari í stjórn ReykjavíkurAkademíunnar. Kristín var í úthlutunarnefnd Hagþenkis fyrir umsóknir um starfsstyrki til ritstarfa 2019–2020. Hún var ritari framkvæmdastjórnar og háskólaráðs Háskólans í Reykjavík 2000–2001. Kristín var skipuð af Alþingi í stjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins 1988–1993. Hún sat í skólanefnd Menntaskólans við Hamrahlíð 1990–1993, skipuð af Borgarstjórn Reykjavíkur. Einnig sat hún í deildarráði heimspekideildar Háskóla Íslands og var fulltrúi Alþingis í Sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum 1985.

Tölvu- og upplýsingamál[breyta | breyta frumkóða]

Kristín hefur verið í ýmsum stefnumótandi nefndum og stjórnum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis og forsætisráðuneytis um tölvu- og upplýsingamál. Má þar nefna nefnd um aðgerðaáætlun fyrir innleiðingu frjáls og opins hugbúnaðar hjá opinberum aðilum, skipuð af forsætisráðuneyti 2011. Hún sat í Verkefnisstjórn um upplýsingatæknisamfélagið 2007–2011, nefnd um framtíðarskipan tölvu- og upplýsingamála Stjórnarráðsins 2000, skipuð af forsætisráðuneytinu, Verkefnisstjórn um tillögur að stefnu mennta- og menningarmálaráðuneytis í upplýsingamálum. Kristín sat í nokkur ár í Rekstrarstjórn Stjórnarráðsbygginga sem hefur meðal annars umsjón með tölvumálum Stjórnarráðsins.

Hún hefur einnig setið í nefndum og ritstjórnum í skóla-, tölvu- og upplýsingamálum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og ESB/EFTA. Má þar nefna BN8 Baltnesk norræn tengslanefnd um mennta- og vísindamál og Arion sem er hluti af Socratesáætlun ESB. Hún sat í ritstjórn Welcome to Odin Nordic School Computer net, Nytt om data i skolan 1993–1995, The Educational System in Iceland 1995 og í ritstjórn Eurydice 1992–1996, evrópskum gagnagrunni með samanburðarhæfum upplýsingum um skólamál ESB- og EFTA-landa. Hún var einnig í Dataprogramgruppen, samstarfi um tölvur í skólastarfi á Norðurlöndum.

Félagsstörf[breyta | breyta frumkóða]

Kristín hefur setið í stjórnum ýmissa félagasamtaka, má þar nefna Delta Kappa Gamma, Rótarýklúbbinn Reykjavík ‒ Austurbær, Menningar- og minningarsjóð kvenna, varaformaður, Hið íslenska kennarafélag og stjórn Mímis.





Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Vefur um Kvennalistann“.
  2. Kennaratalið 4. bindi bls. 357, 1987.