Kreppa (á)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kreppa er á sem kemur undan Brúarjökli og sameinast Kverká nokkru norðar og rennur síðan í Jökulsá á Fjöllum. Hún er vatnsmikil og erfið yfirferðar vegna sandbleytu. Nafnið Kreppa er ekki upphaflegt nafn á ánni. Pétur Brynjólfsson sem fór um svæðið 1794 kallaði núverandi Kverkhnúka Dyngjufjöll og Kreppu Dyngjufjallaá. Nafnið Kreppa er talið stafa af bugðum árinnar fyrir norðan Fagradalsfjall eða þrengslum í ánni.

Jón Helgason yrkir um landslag við Kreppu í ljóðabók sinni Áföngum:

Liggur við Kreppu lítil rúst,
leiðirnar ekki greiðar;
kyrja þar dimman kvæðasón
Kverkfjallavættir reiðar;
fríð var í draumum fjallaþjófs
farsældin norðan heiðar,
þegar hann sá eitt samfellt hjarn
sunnan til Herðubreiðar.

Fagradalsgriðland afmarkast af Kreppu að vestan. Fagradalsgriðland nær yfir Fagradalsfjall og dalina umhverfis það, austan Kreppu, sem rennur í hálfhring umhverfis fjallið.

Hugmyndir hafa verið um að virkja Jökulsá á Fjöllum og Kreppu með Jökulsá á Dal. [1]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • „Er hægt að sigla yfir Kreppu?“. Vísindavefurinn.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]