Kreólamál

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kreólska)
Skilti á gvadelúpkreólsku sem merkir „hægið á, börn að leik“

Kreólamál eða kreólska er tungumál sem hefur orðið til við blöndun tveggja eða fleiri tungumála. Munurinn á kreólamáli og blendingsmáli er að kreólamál er fullbúið tungumál sem er notað við allar aðstæður en blendingsmál er oft einfaldað og aðeins notað við tiltekna tegund samskipta, til dæmis í viðskiptum. Kreólamál verður til þegar fólk fer að tala blendingsmál sem móðurmál. Orðaforði kreólamáls er allur fenginn úr upprunamálunum en málfræðin getur verið gerólík. Oft eru kreólamál töluð við aðstæður þar sem eitt af upprunamálunum er opinbert tungumál meðan kreólamálið nýtur ekki opinberrar stöðu. Málhafar þurfa því líka að tala eitt af upprunamálum kreólamálsins sem leiðir til tíðra málskipta og getur orðið til þess að „afblanda“ kreólamálið og jafnvel útrýma því.

Málfræðingar eru ekki á eitt sáttir um skilgreiningu kreólamála. Sumir líta svo á að þetta sé sögulegt hugtak sem vísar til nýlendustefnu og þrælahalds þar sem myndun kreólamála sé í raun ekkert ólík myndun annarra tungumála og kreólamál því í engu frábrugðin öðrum tungumálum.

Dæmi um kreólamál eru bahamíska (Bahamaeyjar), áströlsk kríólska (Ástralía) og manglish (Malasía) sem hafa þróast út frá ensku; máritíska (Máritíus) og haítíska (Haítí) sem þróuðust út frá frönsku; kituba (Mið-Afríka) sem þróaðist út frá kikongo; chavacano (Filippseyjar) og papiamento (ABC-eyjarnar) út frá spænsku; júba-arabíska (Suður-Súdan) út frá arabísku og betawi (Djakarta) út frá malasísku.

  Þessi tungumálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.