Krapprót

Krapprót (Rubia tinctorum), einnig kölluð rauðmöðrurót er sígræn fjölær jurt í Möðruætt (Rubiaceae). Krapprótin er upprunin á Anatólíuskaganum og austurhluta Miðjarðarhafs. Krapprótin hefur verið notuð frá fornu fari sem rautt jurtalitarefni fyrir leður, ull, bómull og silki. Þar að auki hefur verið álitið að krapprótin hafi lækningamátt.
Krapprótin er af sömu ætt og gulmaðran og hvítmaðran og þaðan sem nafnið Möðrudalur kemur frá.
Kapprótin getur orðið allt að 1,5 m á hæð. Blöðin eru um það bil 5–10 cm löng og 2–3 cm breið í kringum miðstöngulinn. Blómin eru lítil, með fimm fölgul krónublöð, og síðar lítil rauð til svört ber. Ræturnar verða meira en einn metri að lengd, allt að því 12 mm þykkar og í þeim er rauða litarefnið.[1]

Ræturnar eru teknar upp þegar plantan er tveggja ára, þvegnar, og þurrkaðar, malaðar og geymdar. Talið er að gæði litarefnanna styrkist með aldrinum. Úr rótinni er hægt að vinna fjölda mismunandi litaafbrigða, allt frá fölbleikum og fjólubláum, í gegnum djúprauða til appelsínugula og brúna. Áður var krapprót mjög mikilvæg til jurtalitunnar vegna þess að erfitt er að ná rauðum litarefnum úr jurtum og öðrum náttúrulegum efnum. Mikilvægasti litarefni í krapprótinni er alizarín en purpurín er einnig oft að finna í litaðri vefnaðarvöru en er það þó talið minna mikilvægt sem litarefni.[2]
Við litun með krapprót eins og við aðra jurtalitun verður fyrst að hita efnið sem á að lita í svokölluðum litfesti, svo að liturinn festist í efninu sem á að lita. Litfestirinn er gerður úr álún og stundum einnig vínsteini sem sýrir vatnið.
Með krapprót er hægt að lita ull í að minnsta kosti þremur böðum. Fyrsta baðið gefur af sér dökkrauðan lit, á gráu garni verður það vínrautt. Eftirfarandi böð skila ljósari tónum, meira líkari apríkósulit. Garn er lagt í bleyti og set í stóran pott, síðan hitað að hámarki 70 gráður og látið malla í eina klukkustund. Ef hitastigið er of hátt verður garnið brúnt í stað rautt. Það má skilja garnið eftir í baðinu yfir nótt.[3]
Litarefni úr krapprót voru notuð af fornum menningarheimum, þar á meðal af Egyptum þar sem vefnaður litaður með rótinni frá árið 1500 f.Kr. hefur fundist af Persum, Indverjum, Grikkjum, Rómverjum og á norrænum menningasvæðum. Vefnaður sem litaður er með krapprót hefur til dæmis fundist í gröf Tútankamons, í rústum Pompeii og í Korintu til forna. Karlamagnús, konungur frankaríkisins á 8. og 9. öld hvatti til ræktunar á krapprót. Með krossferðunum á 11. öld barst krapprótin til Ítalíu og Frakklands og bar það síðan norður eftir Evrópu. Hún hafði áður verið flutt inn í möluðu formi. Vitað er að krapprót vær ræktuð í Hollandi um árið 1300[4] og var einnig ræktuð í suður Svíþjóð og Danmörku.[5][6]
Óvíst er hvenær innfluttningur krapprótar hófst á Íslandi en það gæti hafa gerst snemma á landnámstímanum. Krapprót var mikið ræktuð í Vestur-Evrópu frá 14. öld og allt til 1850 þegar byrjað var að framleiða gerfiliti.[7]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Guðrún Bjarnadóttir, Grasnytjar á Íslandi, þjóðtrú og saga. (2018) Útgefendur Guðrún Bjarnadóttir og Jóhann Óli Hilmarsson, ISBN 9935243494, 9789935243492
- Bleikur Saga, merking, notkun, Edda Karólína Ævarsdóttir (2017) Listaháskóli Íslands https://skemman.is/bitstream/1946/30982/1/Bleikur_LOKA.pdf
- Í boði náttúrunnar. (4. ágúst 2015). Jurtalitun. Sótt af http://ibn.is/jurtalitun/
- Jóhanna Elín Jósefsdóttir. (2010, maí). Jurtalitun á Íslandi. Sótt af https://skemman.is/bitstream/1946/6448/1/Jurtalitun-lokaverkefni-JEJ.pdf
- Sigrún Helgadóttir og Þorgerður Hlöðversdóttir. (2014). Jurtalitun – gömul hefð úr ríki náttúrunnar. Sótt af http://lifandivefrit.hi.is/lifsstill/jurtalitun-gomul-hefd-ur-riki-natturunnar/ Geymt 29 október 2020 í Wayback Machine
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Ozdemir, Muge Burcu; Karadag, Recep (2023). "Madder ( Rubia tinctorum L.) as an Economic Factor Under Sustainability Goals in the Textile Dyeing" (enska). 20 (1). bindi. Journal of Natural Fibers.
- ↑ John Cannon og Margaret Cannon. Dye Plants and Dyeing. A & C Black. bls. 76, 80. ISBN 978-0-7136-6374-7.
- ↑ Jenny Dean (2014). A Heritage of Colour: Natural Dyes Past and Present. Search Press. ISBN 978-1782210368.
- ↑ Mertens J. (1981). De meekrapteelt in de omgeving van Brugge, vooral in de 14de en 15de eeuw. Brugs Ommeland. bls. 259-282.
- ↑ Sandberg, Gösta (1994). Purpur, kochenill, krapp: en bok om röda textilier. Tidens förlag.
- ↑ Áslaug Sverrisdóttir (1981). Brot úr sögu litunnar. Hugur og hönd. bls. 40-43.
- ↑ Ritstjóri J.K. Aronson (2016). Rubia Tinctorum - úr Meyler's Side Effects of Drugs (enska). Elsevier B.V. bls. 263-264. ISBN 978-0-444-53716-4.