Krækt í orminn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Krækt í orminn (danska: Ormen i dybet) er sjöunda bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1991. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins. Hún byggir á frásögn Eddu og Hýmiskviðu.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Togstreita myndast á milli guðanna Þórs og Týs þegar þeir verða þess áskynja að Einherjar í Valhöll þrefa um hvor sé hinum fræknari. Ekki bætir úr skák að kappsfullur bartskeri klippir óþarflega mikið af hári Týs sem sýnir eyru hans og minnir á að Týr er í raun jötnaættar. Þessi uppruni stríðsguðsins kemur mörgum í opna skjöldu, hann verður fórnarlamb fordóma og er vantreyst.

Metingur Týs og Þórs verður til þess að Þór ákveður að sanna fyrir Tý styrk sinn með því að veiða Miðgarðsorm og eru pilturinn Þjálfi og Heimdallur teknir með til vitnis. Leiðin liggur til Útgarðs. Þegar þangað er komið tekur Týr að hegða sér undarlega. Hann sér öll tormerki á að leita gistingar á nálægum bóndabæ, en lætur þó til leiðast að lokum. Í ljós kemur að þetta er bær jötunsins Hymis, fáráðsins úr fyrri bókum sagnaflokksins (sjá: Hamarsheimt og Förin til Útgarða-Loka). Týr reynist vera sonur Hymis, sem hafi alist upp við ofbeldi og kúgun. Um leið og hann kemur aftur á æskuheimilið lyppast hann niður og leitar aftur í hlutverk hins kúgaða og undirokaða. Þór lækkar hins vegar rostann í Hymi með því að brjóta á kollinum á honum krúsina sem Hymir hafði áður beitt til að berja son sinn í æsku.

Daginn eftir heldur Þór út á bát með Hymi til að veiða Miðgarðsorm. Við taka æsileg átök Þórs og ófreksjunnar, þar sem Týr kemur til bjargar á ögurstundu, en rétt áður en Þór tekst að veiða orminn sker Hymir á línuna. Þór og Týr ná fullum sáttum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Þótt meginviðfangsefni bókarinnar eigi að heita goðsögnin um það þegar Þór reyndi að fanga Miðgarðsorm, er hið eiginlega umfjöllunarefni heimilisofbeldi og fordómar. Týr, sem yfirleitt er veigalítil aukapersóna í bókaflokknum er í óvenjustóru hlutverki.
  • Dramatískur hápunktur sögunnar er barátta Þórs og Miðgarðsorms. Í henni er í fyrsta sinn í sagnaflokknum gripið til þess ráðs að láta myndirnar flæða út um alla síðuna í stað þess að afmarkast af myndarömmum teiknimyndasögunnar. Í seinni bókum áttu teikningarnar æ oftar eftir að sprengja utan af sér myndarammana.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Krækt í orminn kom út hjá Forlaginu árið 2016, í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar.