Kot í Svarfaðardal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kot í Svarfaðardal, Svarfaðardalsá fremst, Kotafjall upp af bæ, Vífilsfjall innar. Lengst t.h. sér inn á Heljardalsheiði.
Kot í Svarfaðardal.
Vífilsstaðir, fornt eyðibýli innan við Kot í Svarfaðardal.

Kot er innsti bær í Svarfaðardal, 21,5 km frá Dalvík. Upp af bænum er Kotafjall sem er 1100 m hátt. Svarfaðardalsá rennur svo skammt neðan við bæinn. Handan hennar er Hnjótafjall og reiðleiðin gamla um Hnjóta og yfir Heljardalsheiði.

Ekki er vitað hvenær búskapur hófst í Koti en það mun hafa verið snemma á öldum. Jörðin var um hríð í eigu Möðruvallaklausturs, síðan konungseign og svo þjóðjörð, uns ábúendur keyptu hana af ríkinu um miðja 20. öld. Núverandi íbúðarhús í Koti var byggt árið 1956 og voru eigendur þess Guðrún Magnúsdóttir húsfreyja og Jónas Þóleifsson bóndi og ljóðskáld, áttu þau börnin Erling Jónasson, Sveinfríði Jónasdóttir, Jónínu Jónasdóttir, Ingólf Jónasson, Halldór Jónasson, Friðrikku Jónasdóttir og Magnús Þorsteinn Jónasson. Í dag eru hjónin Magnús Þorsteinn Jónasson og Anna Lísa Stefánsdóttir eigendur að Koti. Bjuggu þau þar saman í þrettán ár en fluttu svo til Dalvíkur. Enn er búið í Koti og þar er rekið fjárbú.

Vífilsstaðir er gamalt eyðibýli í landi Kots og stóð undir Vífilsfjalli. Það var fremsta býli í Svarfaðardal á sinni tíð. Litlum sögum fer þó af búskap þar enda virðist hann hafa verið slitróttur og endanlega af lagður fyrir 1800. Þar gefur að líta heildstæðar bæjartóftir, útihús, túngarð og gerði.

Skeiðsvatn er lítið stöðuvatn í Vatnsdal sem er afdalur út frá Svarfaðardal milli bæjanna Skeiðs og Kots. Berghlaup hefur fallið úr Skeiðsfjalli og myndað mikla urðarhóla í dalsmynninu. Innan við þá myndaðist vatnið, það er í um 230 m y.s. Vatnsdalsá fellur úr því til Svarfaðardalsár. Smásilungur er í vatninu en hann er lítið veiddur. Engin byggð er í Vatnsdal og hefur aldrei verið en þar eru gamlar seljarústir enda var þar haft í seli allt frá landnámsöld ef marka má fornar frásagnir. Í Svarfdælu segir að tvíburarnir Þorleifur jarlsskáld og Ólafur völubrjótur hafi fæðst í seli í Vatnsdal. Margir ferðamenn leggja leið sína í Vatnsdal til að skoða vatnið og fagurt umhverfi þess. Þangað er merkt gönguleið frá Koti.