Kollsvík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kollsvík er sunnarlega á Vestfjarðakjálkanum vestanverðum. Hún er nyrst svonefndra Útvíkna sem eru yst á skaganum milli Patreksfjarðar og Breiðafjarðar. Víkin veit móti norðvestri; skeljasandur er við ströndina en ofar mýrlendi, tún, móar og daladrög. Bílvegur liggur út með sunnanverðum Patreksfirði og endar í Kollsvík. Í Kollsvík hefur verið blómleg byggð frá fyrstu tíð, sem byggði jöfnum höndum á útræði og landbúnaði. Jarðir hafa einkum verið tvær; Láganúpur og Kollsvík, en einnig minni býli. Í Kollsvík var ein mesta verstöð Vestfjarða fyrrum, og stóð útræði frá Kollsvíkurveri framum 1930. Búskapur dróst saman í Kollsvík á 20. öld, líkt og annarsstaðar í Rauðasandshreppi, og lauk árið 2002. Þar er þó enn töluvert mannlíf, einkum á sumrin; bæði af heimamönnum og ferðafólki. Náttúrufegurð þykir einstaklega mikil í Kollsvík, og þar er að finna merkar minjar, t.d. elsta hús landsins til atvinnunota.