Fara í innihald

Kollsbók

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kollsbók (Codex Guelferbytanus 42.7 Augusteus quarto) er íslenskt skinnhandrit frá 15. öld.[1] Þetta handrit hefur að geyma elsta safn íslenskra rímna frá miðöldum og er það mikilvægasta ásamt Staðarhólsbók rímna. Ólafur Halldórsson handritafræðingur (1920-2013) hefur aldursgreint handritið og telur að það hafi verið skrifað einhvern tímann á árunum 1480-1490. Handritið er nefnt eftir Jóni kolli Oddssyni (um 1450 - eftir 1540) lögréttumanni í Holti í Saurbæ (Dalasýsl. Vesturl.) fyrsta eiganda handritsins. Handritið komst síðar í eigu Augusts hins yngra, hertoga yfir Braunschweig-Lüneburg-Wolfenbüttel, eins mesta bókasafnara í Evrópu á 17. öld.[2]

Rímur þær, sem munu hafa verið í Kollsbók frá öndverðu, voru að öllum líkindum allar ortar á 15. öld. Talið er þó að elstu rímur handritsins séu Geiplur, ortar laust eftir árið 1400, en yngstu rímurnar Mábilar rímur.[3] Grettis rímur þær, sem eru í Kollsbók, eru hvergi varðveittar annars staðar. Kollsbók hefur ekki varðveist heil og mörg blöð hafa glatast úr henni.

Kollsbók er nú varðveitt í bókasafni Augusts hertoga í Wolfenbüttel í Þýskalandi og líklegt þykir að handritið muni dvelja þar um ókomna framtíð.

Efni Kollsbókar

[breyta | breyta frumkóða]

Í Kollsbók hafa í upphafi verið tuttugu rímnaflokkar (samkvæmt efnisyfirliti handritsins sem hefur varðveist) en þar sem upphaf Kollsbókar vantar hafa fjórir af þessum rímnaflokkum glatast.[4]

Glötuðu rímur (rímnaflokkar) Kollsbókar eru:

  1. Reinalds rímur. Þær hafa varðveist að hluta í Staðarhólsbók rímna, Hólsbók en þær hafa varðveist heilar í nokkrum pappírshandritum.
  2. Skáld-Helga rímur. Þær hafa varðveist heilar í Staðarhólsbók rímna, Hólsbók og fleiri pappírshandritum.
  3. Andra rímur fornu. Níu rímur Andra rímna hafa varðveist í Staðarhólsbók rímna, tvær rímur til viðbótar Hólsbók (AM 603 4to) og tvær til viðbótar í handritinu Holm Perg 4to nr. 23.
  4. Óþekktur rímnaflokkur tveggja rímna sem hefur að öllum líkindum glatast með öllu.

Varðveittar rímur (rímnaflokkar) Kollsbókar:

  1. Sigurðar rímur fóts. Sex rímur alls.
  2. Skikkju rímur. Þrír rímur alls.
  3. Ormars rímur. Fjórir rímur alls.
  4. Áns rímur bogsveigis. Átta rímur alls.
  5. Geðraunir (Hrings rímur og Tryggva). Ellefu rímur alls.
  6. Geiraðs rímur. Átta rímur alls.
  7. Konráðs rímur. Sex rímur alls en hafa í upphafi verið átta sbr. önnur handrit. Í Kollsbók vantar rímu VI og VIII.
  8. Ólafs rímur Tryggvasonar af Svöldrarorrustu (Svöldrar rímur fornu). Fimm rímur alls.
  9. Griplur (Hrómundar rímur Gripssonar). Fjórir rímur alls en hafa í upphafi verið sex sbr. önnur handrit. Í Kollsbók vantar rímur I og II.
  10. Ektors rímur. Ellefu rímur alls en hafa í upphafi verið tólf, sbr. Staðarhólsbók rímna. Í Kollsbók vantar rímu VIII.
  11. Filipó rímur (Krítarþáttur). Átta rímur alls.
  12. Sálus rímur og Níkanórs. Átta rímur alls.
  13. Herburts rímur. Fjórar rímur alls.
  14. Geiplur. Fjórar rímur alls en hafa í upphafi verið sex að tölu. Í Kollsbók vantar rímur II og III.
  15. Grettis rímur. Átta rímur alls.
  16. Mábilar rímur. Níu rímur alls. Vantar tíundu rímuna sem mun vera yngsta ríman. Hún er varðveitt í yngri pappírshandritum.

Rannsóknir og útgáfur

[breyta | breyta frumkóða]
  • Ólafur Halldórsson. 1964. Kollsbók. Handritastofnun Íslands, Reykjavík.
  1. Vésteinn Ólason (1993). Íslensk bókmenntasaga II. Mál og menning. bls. 322.
  2. Ólafur Halldósson (1964). Kollsbók. Handritastofnun Íslands, Reykjavík. bls. ix.
  3. Ólafur Halldórsson (1964). Kollsbók. Handritastofnun Íslands, Reykjavík. bls. xvi.
  4. Ólafur Halldórsson (1968). Kollsbók. Handritastofnun Íslands, Reykjavík. bls. xv.