Fara í innihald

Kollgrímur Koðránsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kollgrímur Koðránsson (d. eftir 1526) eða Kolgrímur var íslenskur prestur og síðan ábóti í Þykkvabæjarklaustri frá 1523, næstsíðastur í röð ábóta þar. Hann tók við sem ábóti þremur árum eftir lát Árna Steinmóðssonar.

Kollgrímur var austfirskur og hefur verið í röð hefðarklerka, varð prestur 1492 og var á Valþjófsstað í Fljótsdal 1502-1514 og síðan í Vallanesi á Völlum til 1523, þegar hann varð ábóti. Hann var mikill vinur Ögmundar Pálssonar biskups og tók Ögmundur son Kollgríms, Eyjólf, að sér og gerði hann að sveini sínum og síðar skipstjóra á skipi biskupsstólsins. Eyjólfur var mikill ofláti og ribbaldi, stór maður og sterkur. Endalok hans eru sögð hafa verið þau að hann var í vísitasíuferð með biskupi en hann og aðrir sveinar voru ölvaðir og sáust lítið fyrir. Eyjólfur sveiflaði í kringum sig stórri lensku en stakk henni fyrir slysni í kvið sinn og varð það bani hans.

Kollgrímur ábóti var á prestastefnu 1524 og aftur 1526 og er ekkert vitað um hann eftir það en hann hefur látist eða sagt af sér embætti skömmu síðar því Sigvarður Halldórsson varð ábóti 1527.


  • „„Þykkvabæjarklaustur". Sunnudagsblaðið, 15. maí 1966“.
  • „„Þykkvabæjarklaustur (Klaustur í Veri)". Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.