Kolka (á)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gamla brúin yfir Kolku.

Kolka eða Kolbeinsdalsá (áður líka Kolbeinsá) er á sem á upptök í Tungnahryggsjökli og er oft nokkuð jökullituð. Næst upptökum skiptist áin í tvær kvíslar (um Tungnahrygginn), heitir sú eystri Kolka og sú vestari Tungnahryggsá; stundum eru þær kallaðar Austurá og Vesturá. Kolka fellur eftir endilöngum Kolbeinsdal í Skagafirði og síðan norður með Óslandshlíð og til sjávar í Kolkuósi. Eftir að hafa runnið samhliða góðan spöl, koma Hjaltadalsá og Kolka saman neðan við bæinn Þúfur í Óslandshlíð, og heitir áin Kolka eftir það. Báðar árnar eru straumharðar með köflum og voru miklir farartálmar áður en þær voru brúaðar. Þær henta til flúðasiglinga þegar mikið vatn er í þeim.

Árið 1985 var gerð einkarekin virkjun í Kolku við Sleitustaði, og selur hún rafmagn inn á dreifikerfi Rarik. Þar er stífla sem takmarkar fiskgengd upp eftir ánni.

Talsverð silungsveiði er í Kolku (sjóbleikja), meiri en í Hjaltadalsá. Neðan við stíflu safnast oft fyrir mikið af fiski, en þar fyrir ofan er staðbundinn urriði. Reynt hefur verið að rækta upp lax í ánum og hefur það borið nokkurn árangur, þó að laxveiði sé þar ekki mikil. Stangveiðifélag Reykjavíkur er með árnar og er hægt að kaupa veiðileyfi.

Einkennistölur[breyta | breyta frumkóða]

  • Dragá með jökulþætti
  • Lengd: 3+29 km
  • Rennslismælir: Nr. 52, við Sleitustaði
  • Mælitímabil: 1957–1988
  • Vatnasvið ofan mælis: 161 km², vatnasvið alls: 177 km², með Hjaltadalsá: 483 km²
  • Meðalrennsli: 7,0 m³/s
  • Hámarksrennsli: 270 m³/s (augnabliksrennsli)
  • Helstu þverár: Að austan: Heljará, Skíðadalsá og Ingjaldsá. Að vestan: Tungnahryggsá og Lambá. Neðan mælis: Hjaltadalsá.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]