Kokteilsósa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kokkteilsósa)
Kokteilsósa á diski
Kokteilsósa með frönskum.

Kokteilsósa er köld ljósrauð sósa sem að grunni er yfirleitt majónes en stundum sýrður rjómi. Við það er svo bætt annaðhvort tómatsósu eða tómatmauki og kryddað með til dæmis sinnepi og öðru kryddi.

Á Íslandi er sósan töluvert vinsæl og mest notuð með skyndibitafæði þá oftast með frönskum kartöflum.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsum aðilum hefur dottið í hug að blanda saman majónesi og tómatsósu.

Í Suður-Ameríku á það að hafa verið argentínski Nóbelsverðlaunahafinn Luis Federico Leloir(en) sem fann upp hina suðuramerísku kokteilsósu, eða „golf-sósu“ eins og hún er kölluð þar, á þriðja áratug tuttugustu aldar.[1]

Í Bandaríkjunum varð kokteilsósan til í Utah árið 1940 og er þar þekkt sem „fry sause“.[1]

Svipaðar blöndur eru til í Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og víðar.

Á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Því hefur lengi verið haldið fram að kokteilsósan sé íslensk að uppruna, en aðrir vísa þeim staðhæfingum á bug.[2][3] Kokteilsósan var m.a. vinsæl hjá Magnúsi Björnsson á veitingastaðnum Aski árið 1966, og hafa sumir haldið því fram að hann sé upphafsmaður sósunnar, en hann hefur sjálfur borið það af sér og sagt að sósan sé einföld og ódýrari útgáfa af þúsund eyja sósu(en).[2][3]

Kokteilsósan var mjög vinsæl á veitingastaðnum Tommaborgurum snemma á níunda áratug 20. aldar. Áður var algengast að bera hana fram með fiski eða skelfiski en með skyndibitamenningunni komst sú hefð á að bera hana fram með frönskum kartöflum.

Í dægurmenningu[breyta | breyta frumkóða]

Kokteilsósa kom fyrir í einu atriða kvikmyndarinnar Með allt á hreinu. Þar var hún blönduð meðal annars með lýsi eða laxerolíu til að gera hana óæta en í myndinni kemur fram að sósan hafi batnað til muna við þetta.

Í auglýsingum Icelandair „Góð hugmynd frá Íslandi“ (2006) biður Breti um „cocktail sauce“ með frönskunum sínum, og er þar gefið í skyn að hún sé íslensk uppfinning.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „A Brief History of Fry Sauce, Utah's Favorite Condiment“. Eater. 6. ágúst 2016. Sótt 8. apríl 2017.
  2. 2,0 2,1 „Stóra kokkteilsósu málið“. Konan sem kyndir ofninn sin. Sótt 3. nóvember 2014.
  3. 3,0 3,1 Sigurþórsdóttir, Sunna Karen. „Stóra kokteilsósumálið: Nanna Rögnvaldar segir sósuna ekki alíslenska - Vísir“. visir.is. Sótt 2. mars 2021.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi matar eða drykkjargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.