Fara í innihald

Klæðskiptablæti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Klæðskiptingablæti)

Klæðskiptablæti (e. transvestic fetishism) er ákveðin tegund blætisdýrkunar sem einkennist af því að vilja klæðast fötum hins kynsins í þeim tilgangi að örvast kynferðislega. Tíðni notkunarinnar getur verið afar misjöfn, allt frá því að klæðast fötum hins kynsins af og til og til þess að klæðast þeim alltaf. Nánast undantekningarlaust er um gagnkynhneigða karlmenn að ræða sem klæðast kvenmannsfötum. Ekki er alltaf hægt að sjá þetta þar sem karlmenn klæðast stundum kvenmannsundirfötum innan undir eigin fötum. Oft fróa karlmenn sér þegar þeir klæðast þessum fötum. DSM-IV skilgreinir röskunina aðeins í gagnkynhneigðum karlmönnum. Röskunin kemur oftast fram á unglingsárum.

Þrátt fyrir að sumir fræðimenn bendi á það sé ýmislegt sameiginlegt með kynskiptum og klæðskiptingum þá er áberandi munur á milli raskananna. Þar er helst að líta til þess að kynskiptar vilja breyta kynfærum sínum og eiga líf sem meðlimur hins kynsins. Þeir upplifa ekki kynferðislega örvun þegar þeir klæðast fötum hins kynsins á meðan það gildir oft um klæðskiptinga sem þó eru fullkomlega sáttir við eigið kyn. Rannsóknir benda til þess að klæðskiptar eigi erfiðara með persónuleg samskipti og séu sjálfstæðari en þeir sem ekki eru klæðskiptar. Sálfræðingar leggja áherslu á nokkrar nálganir; sálaraflskenningar, skilyrðingu og líffræðilegt fornæmi og gefa mismunandi skýringar á hegðuninni, þ.á m. brengluð samskipti einstaklingana við foreldra.