Fara í innihald

Kim Yo-jong

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kim Yo-jong
김여정
Kim Yo-jong árið 2018.
Fædd26. september 1987 (1987-09-26) (36 ára)
ÞjóðerniNorður-kóresk
MenntunKim Il-Sung-herháskólinn
StörfStjórnmálamaður
FlokkurVerkamannaflokkur Kóreu
MakiChoe Song (g. 2014)
Börn1
Undirskrift

Kim Yo-jong (f. 26. september 1987) er norður-kóresk stjórnmálakona. Hún er systir Kims Jon-uns, núverandi leiðtoga Norður-Kóreu, og dóttir Kim Jong-ils, leiðtoga ríkisins frá 1994 til 2011. Kim Yo-jong er talin njóta mikilla áhrifa innan ríkisstjórnar Norður-Kóreu og hefur verið nefnd sem mögulegur eftirmaður Jong-un sem stjórnandi ríkisins.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Kim Yo-jong er fædd árið 1987 og er dóttir Kims Jong-il, leiðtoga Norður-Kóreu frá 1994 til 2011, og dansarans Ko Yong-hui. Föðurafi hennar var Kim Il-sung, stofnandi Norður-Kóreu. Kim Yo-jong ólst upp ásamt eldri bróður sínum, Kim Jong-un, og gekk með honum í skóla í Sviss á árunum 1996 til 2000. Að loknu námi í Sviss sneri hún heim til Norður-Kóreu og nam þar tölvunarfræði í Kim Il-Sung-herháskólanum í Pjongjang. Hún varð virk í starfi kóreska verkamannaflokksins árið 2007 og talið er að hún hafi starfað sem ritari föður síns síðustu æviár hans. Kim Yo-jong birtist fyrst opinberlega sem meðlimur Kim-valdaættarinnar árið 2011 við útför föður síns.[2]

Eftir valdatöku Kims Jong-un reis Yo-jong hratt til metorða í stjórnkerfi Norður-Kóreu. Árið 2014 birtist hún við hlið bróður síns við opinberar athafnir og tók þátt í kosningum á norður-kóreska þingið. Þátttaka hennar í kosningunum þótti boða að verið væri að undirbúa Yo-jong fyrir stærra hlutverk í stjórn ríkisins.[3] Árið 2017 var Yo-jong gerð að stjórnarmeðlimi í Verkamannaflokknum og var einungis önnur konan sem hlaut þá stöðu.[1] Árið 2018 mætti Yo-jong fyrir hönd bróður síns á Vetrarólympíuleikana sem haldnir voru í Suður-Kóreu það ár og gaf þar Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, skilaboð um að Kim Jong-un væri reiðubúinn til friðarviðræðna. Þetta var í fyrsta skipti frá skiptingu Kóreu sem meðlimur Kim-ættarinnar steig fæti inn í Suður-Kóreu.[2]

Kim Yo-jong fylgdi bróður sínum á leiðtogafundum hans með Donald Trump Bandaríkjaforseta og Xi Jinping forseta Kína árin 2018 og 2019. Talið er að hún hafi starfað sem ráðgjafi Jong-un og hafi að nokkru leyti stýrt dagskrá og ímynd hans. Þar sem afvopnunarviðræðurnar við Suður-Kóreu og Bandaríkin skiluðu ekki beinhörðum árangri er talið að Jong-un hafi kennt systur sinni um og lækkað hana um tign í nokkurn tíma. Hún komst aftur inn í innsta hring Verkamannaflokksins árið 2020.[2]

Í yfirlýsingum sem Kim Yo-jong gaf út í júní árið 2020 var hún titluð einn æðsti stjórnandi miðstjórnar Verkamannaflokksins.[4] Hún lýsti meðal annars yfir að Norður-Kórea hefði ákveðið að slíta öll­um hernaðar- og stjórn­mála­tengsl­um við Suður-Kóreu þar sem afvopnunarviðræður síðustu ára hefðu farið út um þúfur.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Magnús H. Jónasson (21. apríl 2020). „Hverjir eru líklegir arftakar Kim Jong-un í Norður-Kóreu?“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. október 2020. Sótt 17. júní 2020.
  2. 2,0 2,1 2,2 Arnhildur Hálfdánardóttir (29. apríl 2020). „Kona og kannski næsti leiðtogi Norður-Kóreu“. RÚV. Sótt 17. júní 2020.
  3. „Kim Jong-un finnur fyrir „óþægindum". Dagblaðið Vísir. 10. október 2014. bls. 22.
  4. Samúel Karl Ólason (10. júní 2020). „Systir Kim skipar sér stærri sess“. Vísir. Sótt 17. júní 2020.
  5. „Slíta samskipti við „óvininn" í suðri“. mbl.is. 2020. Sótt 17. júní 2020.